Nýverið var tilkynnt um stofnun Framtíðarnefndar á vegum Alþingis. Nefndin á að fjalla um helstu tækifæri og ógnanir sem geta orðið í kjölfar þróunar nýrrar tækni sem og vegna hlýnunar jarðar, en einnig hvernig megi bregðast við þessum ógnum og tækifærum.

Alda sendi nefndinni erindi þar sem lögð er áhersla á að efla lýðræðið, nýta aukna framleiðni til skemmri vinnutíma, draga úr neysluhyggju og auka sjálfbærni. Erindið er hér að neðan í heild sinni, en hér má finna samhljóða skjal sem var sent nefndinni.

***

Leiðarljós Framtíðarnefndar Alþingis
– frá Öldu, félagi um sjálfbærni og lýðræði

Reykjavík, 26. júlí 2018

Eftirfarandi atriði telur Alda að Framtíðarnefnd Alþingis eigi að hafa sérstaklega að leiðarljósi við störf sín. Um er að ræða mikilvæg atriði sem varða hag almennings, lýðræði og sjálfbærni.

Lýðræðismál

Huga þarf að eflingu lýðræðisins í framtíðinni. Grunnstofnanir þess njóta lítils sem einskis trausts, stjórnmálaflokkar hafa veikst, almenningur er oft illa upplýstur, lítið fer fyrir vandaðri rökræðu milli kjörinna fulltrúa og algengt er að lítil tengsl séu á milli vilja kjósenda og aðgerða stjórnvalda, svo dæmi séu tekin. Ýmsar leiðir eru færar í því að auka aðkomu almennings samhliða vandaðri rökræðu. Til dæmis má nefna ferli þar sem litlir hópar valdir af handahófi – þversnið samfélagsins – koma saman í samræðu, en markmið þeirra er að leiða fram upplýstan vilja almennings. Slíkir hópar hafa reynst vel í litlum samfélögum líkt og Íslandi.

Þá er nær ekkert lýðræði innan fyrirtækja. Flestir verja stærstum hluta lífs síns í vinnunni en hafa þar engin völd. Þá hefur almenningur lítið að segja um stórar fjárfestingar. Þegar litið er til framtíðar þarf að tryggja betur lýðræðislega aðkomu starfsfólks að rekstri eigin vinnustaða og fyrirtækja, sem og fjárfestingarstefnu og -sjóðum. Í því sambandi er nauðsynlegt að innleiða lög um lýðræðisleg fyrirtæki og fjárfestingarsjóði, sem og réttindi starfsfólks til áhrifa.

Alda álítur sem svo að Ísland geti orðið leiðandi í lýðræðislegum lausnum til framtíðar, en til að svo verði þarf að vinna að stefnumótun og lagasetningu þar sem lýðræðislegar lausnir eru hafðar í hávegum.

Sjálfbærni, vinna og framleiðni

Aukin framleiðni fyrirtækja þarf að nýtast í mun meiri mæli til styttingar vinnutíma fremur en aukinnar neyslu. Fyrir því eru tvær megin ástæður: Sú fyrri að hjá ríkum þjóðum er meiri lífsgæði að finna í lengri frítíma fólks, fremur en neysluhyggju sem birtist í kaupum á fleiri tækjum og munum. Sú seinni er að nú þegar er gengið of freklega á auðlindir jarðarinnar og stefnir víða í þrot vistkerfa. Hér þarf að huga að breytingum á hvötum innan fyrirtækja og stofnana þannig að aukin framleiðni í framtíðinni verki sem hvati til að stytta vinnutíma vinnandi fólks.

Hafa ber í huga að nýting aukinnar framleiðni á þennan hátt getur komið í veg fyrir skakkaföll í hagkerfinu vegna væntanlegra tæknibreytinga. Tæknibreytingarnar sem hér er átt við eru vegna aukinna umsvifa gervigreindar og rafrænnar tækni í samfélögum heimsins.

Þá telur félagið rétt að skoðuð verði innleiðing borgaralauna (stundum nefnd skilyrðislaus grunnframfærsla), sem getur unnið gegn efnahagslegum ójöfnuði.
Hagkerfið þarf að verða sjálfbært og heilnæmt. Innleiða þarf neyslu- og framleiðsluhvata sem tryggja sjálfbæra nýtingu á gæðum jarðar, þar með talið ósnortnum náttúruminjum. Íslendingar bera ríka ábyrgð á varðveislu ýmissa náttúruminja sem og lífvera. Sömuleiðis, samhliða aukinni þekkingu, er nauðsynlegt að halda áfram að takmarka notkun efna í framleiðslu og í vörum sem valda sjúkdómum og skaða á fólki. Þá þarf að endurnýta og endurvinna mun meira en gert er í dag.

Félagið er tilbúið til þess að veita nánari upplýsingar um þessi efni sem og veita ráðgjöf til nefndarinnar í sínum störfum, en raunar væri hagkvæmt fyrir framtíðarnefnd Alþingis að hafa fulltrúa Öldu í samráðsvettvangi nefndarinnar. Félagið leggur áherslu á að tryggja breiða þátttöku helstu hagsmunaaðila efnahagslífsins á samráðsvettvangi nefndarinnar, svo sem fulltrúa háskólasamfélagsins og stjórnmálanna en fulltrúi Öldu væri góð viðbót, sem aðili sem stendur vörð um lýðræði og sjálfbærni.