Boðað er til aðalfundar Öldu, félags um Sjálfbærni og lýðræði, laugardaginn 13. október kl. 14.00 í húsnæði Múlti-Kúltí að Barónsstíg 3.

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

1. Kosning fundarstjóra
2. Skýrsla stjórnar
3. Framlagning reikninga
4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
5. Lagabreytingar
6. Kosning kjörnefndar
7. Kosning stjórnar
8. Önnur mál

Sérstök athygli er vakin á því að framboð til stjórnar og lagabreytingartillögur þurfa að berast í síðasta lagi 8. október 2018 með tölvupósti á netfangið aldademocracy@gmail.com. Nánari tilhögun á aðalfundi má finna í lögum félagsins.

***

Eftirfarandi hafa gefið kost á sér í stjórn Öldu fyrir starfsárið 2018 til 2019:

* Bergljót Gunnlaugsdóttir, evrópufræðingur og upplýsingafræðingur
* Sævar Finnbogason, doktorsnemi í heimspeki og lýðræðisfræðum
* Kristján Gunnarsson, sameindalíffræðingur og tölvunarfræðingur
* Guðmundur D. Haraldsson, MSc í Cognitive & Decision Sciences, BS í sálfræði
* Bára Jóhannesdóttir, MA félagsfræði, BA nútímafræði
* Guðmundur Hörður Guðmundsson, umhverfisfræðingur og sagnfræðingur
* Björn Þorsteinsson, prófessor í heimspeki

***

Eftirfarandi tillögur til breytinga á lögum félagsins hafa verið mótteknar:

2. gr., viðbót: Félagið skal efna til samstarfs við ríkisvald, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga til að koma markmiðum sínum áleiðis.

5. gr., í fjórðu málsgrein, skal setningin Lagabreytingatillögur skulu berast félaginu a.m.k. fimm dögum fyrir aðalfund og kynntar á vefsvæði félagsins og með tölvupósti til félagsmanna a.m.k. fjórum dögum fyrir aðalfund. hljóða svo: Lagabreytingatillögur skulu berast félaginu a.m.k. fimm dögum fyrir aðalfund og kynntar á vefsvæði félagsins.

6. gr. hljóði svo: Í stjórn félagsins skulu sitja 7 manns, kjörin úr hópi félagsmanna. Sé þess óskað á aðalfundi félagsins af hálfu að minnsta kosti 20 félagsmanna, þá bætast við tveir slembivaldir stjórnarmenn úr röðum félagsmanna, ella fer slembivalið ekki fram. Félagsmönnum býðst að óska þess að vera ekki með í slembivalinu áður en valið fer fram. Nýkjörin stjórn framkvæmir slembivalið að loknum aðalfundi. Slembival skal nota til jöfnunar á hlutfalli kynja sé þess þörf. Stjórnarmenn eru talsmenn félagsins og bera ábyrgð á starfsemi þess. Kosning stjórnar skal vera skriflega. Stjórnarmenn eru kjörnir úr hópi félagsmanna og stjórn skiptir með sér verkum. Hætti fimm stjórnarmenn eða fleiri stjórnarmenn milli aðalfunda skal boða til félagafundar þar sem kosnir eru jafn margir nýir stjórnarmenn og sagt höfðu af sér; nema 30 dagar eða skemmri tími séu þar til heimilt er að boða til aðalfundar.

8. gr.,viðbót: Í þessu skyni er stjórn félagsins er heimilt að ráða til félagsins einstaklinga eða lögaðila, gegn greiðslu, til að leysa af hendi verk, hvort sem er til skamms tíma eða langs tíma, stakt verk eða mörg verk. Stjórn félagsins tekur ákvörðun um ráðningu og slit á samstarfi við slíka samstarfsaðila.

9. gr., innskot á eftir fyrstu setningu: Til að óskin teljist gild þurfa meðlimirnir að hafa verið félagar í að minnsta kosti sex vikur.

13. gr. falli niður, en í staðinn komi eftirfarandi greinar:


13. gr. a. Heimilt skal að taka við sértækum styrkjum sem nema allt að 750.000 krónum á ári frá einstaklingum og lögaðilum eða sem nemur jafngildi þess. Móttaka hærri framlaga skal þá og því aðeins heimil að gefandinn deili markmiðum Öldu eða að með öðrum hætti sé ljóst að styrkurinn muni ekki hafa áhrif á stefnu eða markmið félagsins. Skal stjórn fjalla sérstaklega um móttöku slíkra styrkja eða boða til almenns félagsfundar til þess að ræða styrkveitinguna. Móttaka framlaga yfir 2.500.000 krónum skal ætíð hljóta samþykki félagsfundar. Þegar metin er hámarksupphæð skal telja saman einstaklinga og hlutafélög sem hann tengist. Telja skal veitta afslætti, eftirgjöf krafna og allan anna[n] tilflutning á verðmætum sem styrk í þessu samhengi.

13. gr. b. Heimilt skal að taka við almennum framlögum frá almenningi og lögaðilum sem nemur samtals allt að 2.500.000 krónum á ári í heildarframlögum til Öldu. Fjárframlög teljast eingöngu almenn ef almennir borgarar sem og félagsmenn Öldu geta veitt fjárframlögin með aðgengilegum hætti, svo sem í gegnum vefsíðu félagsins. Hámarksupphæð á hvern og einn einstakling sem veitir slíka styrki skal vera 500.000 krónur á ári eða jafngildi þess. Stjórn Öldu er ekki skylt að fjalla um framlög sem þessi í hvert sinn.

13. gr. c. Heimilt skal að taka við fjárframlögum sem greiðslu fyrir tiltekin verkefni sem félagið leysir af hendi, sem og styrkjum sem stjórn félagsins hefur samþykkt að sækja um úr styrktarsjóðum. Ekkert hámark er á slíkum fjárframlögum, en stjórn félagsins metur hverju sinni hvort fjárframlag teljist eðlilegt fyrir hvert og eitt verkefni eða styrk.

***

Hlökkum til að sjá ykkur.

Stjórn Lýðræðisfélagsins Öldu.