Fundur settur klukkan 20:15 á kaffihúsinu Stofunni. Mætt eru Guðmundur D. Haraldsson (er ritar fundargerð og stjórnar fundi), Björn Þorsteinsson, Kristján Gunnarsson, Sævar Finnbogason, Bergljót Gunnlaugsdóttir og Júlíus Valdimarsson.

1. Málþing Öldu í Hörpunni 12. janúar síðastliðinn

Málþingið var haldið í Hörpunni og gekk feikivel, var mætingin góð. Viðbrögðin úr samfélaginu voru mjög jákvæð. Allir helstu fjölmiðlar landsins sýndu málþinginu áhuga, viðtöl voru tekin við Aidan Harper og Guðmund. Samtals fór Guðmundur í um átta viðtöl vegna málþingsins, í sjónvarpi, útvarpi og í prentmiðlum; Aidan Harper fór í allnokkur viðtöl, bæði í sjónvarpi og við prentmiðla. Voru þeir báðir í viðtali á RÚV og Aidan í viðtali á Stöð 2, hvort tveggja í aðalfréttatímanum þann daginn. Facebook-tölfræði sýndi að konur höfðu mun meiri áhuga á viðburðinum sem auglýstur var á Facebook en karlar, mestur var áhuginn í Reykjavík. Viðburðurinn náði til samtals um 64 000 manns.

Viðskiptaráð Íslands brást við málþinginu með umkvörtunum á Twitter, en annars heyrðist lítið frá sérhagsmunasamtökum atvinnurekenda. Samtök Iðnaðarins mættu ekki á málþingið þrátt fyrir að hafa verið boðið, og ráðherra félagsmála þáði ekki boð Öldu um að mæta og vera með í samkomunni, en hefur hann þó sagst styðja málefnið. Vakti það furðu fundarmanna.

Kostnaðurinn við málþingið var um 750 þúsund ISK í heildina, en um 300 þúsund af því var vegna leigu á sal og vegna veitinga. Restin var vegna ýmissa annarra þátta, svo sem kynningar og ferðalaga. 700 þúsund ISK fengust í styrki frá stéttarfélögum, og verða þeir innheimtir á næstunni, en mismuninn greiðir Alda úr sínum sjóðum.

Málþingið var prýðilega tímasett: Kjaraviðræður voru hafnar, athyglin var á þeim, en Alþingi ekki tekið til starfa og tók því ekki athygli til sín. Stytting vinnuvikunnar er líka stíf krafa stéttarfélaganna í kjaraviðræðunum sem eftir hefur verið tekið.

Ákveðið var að þýða erindin sem haldin voru á málþinginu yfir á ensku, og verða þau gerð aðgengileg á vefnum á næstunni. Alda greiðir þýðanda fyrir þýðinguna.

2. Skýrslur um vinnutíma

Guðmundur er i viðræðum við stéttarfélag um að Alda fái styrk til að gefa út tvær skýrslur um skemmri vinnuviku. Skýrslunum yrði ætlað að dýpka umræðuna um skemmri vinnuviku, en innan ólíkra hópa. Styrknum yrði ætlað að greiða fyrir umbrot og yfirlestur.

Önnur skýrslan yrði á ensku og myndi fjalla um árangurinn af tilraunaverkefni BSRB og Reykjavíkur annars vegar og hins vegar tilraunaverkefni BSRB og ríkisins. Skýrslan myndi innihalda tölulegar upplýsingar sem eru aðgengilega nú þegar, auk reynslusagna sem einnig eru aðgengilegar. Þá yrðu upplýsingar um starfsstaðina þar sem skemmri vinnuvika hefur verið innleidd og hvernig það hefur verið gert. Þessari skýrslu yrði aðallega ætlað að veita upplýsingum inn í hinn enskumælandi heim um hvað hefur verið gert á Íslandi, en það er áhugi fyrir því hjá ýmsum aðilum.

Hin skýrslan yrði á íslensku og yrði ætlað að dýpka umræðuna hér innanlands um hvaða aðferðum hefur verið beitt til að stytta vinnuvikuna, en þörf er á að upplýsa fólk betur um hvernig megi stytta vinnuvikuna.

3. Opnir fundir um bankamál

Alda stefnir á að halda opna fundi um samfélagsbanka, eðli þeirra og nauðsyn.

Ásgeir Brynjar Torfason kom á fundinn og talaði við stjórnina um samfélagsbanka og eðli þeirra. Hann segist hafa áhuga á að halda fyrirlestur um slíka banka á vegum félagsins. Hann lagði áherslu á að umræður um banka verða að taka tillit til áhættunnar sem af þeim hlýst, þeir séu sérstakar stofnanir.

Samtalið fór hingað og þangað, en ákveðið var að stefna að því að halda slíka fundi á næstunni. Var rætt um að halda þá með vorinu, einna helst.

4. Samráðsleysi við setningu laga um fjármál stjórnmálaflokka

Lög voru sett í lok árs 2018 um fjármál stjórnmálaflokka (lög 193/2018), en lögin voru keyrð í gegnum Alþingi á rétt tæplega tveimur vikum. Frumvarpið fór ekki í gegnum hefðbundið umsagnarferli, heldur var keyrt í gegnum nefndir þingsins og voru engar umsagnarbeiðnir sendar út.

Fundurinn harmar þessi vinnubrögð, en þau eru andlýðræðisleg. Stefnt er á að minna Alþingi á lýðræðislegar skyldur sínar í þessu sambandi með orðsendingu í fjölmiðlum. Þetta er sérlega brýnt, þar sem um ræðir meginstoðir lýðræðisins.

5. Bók um húmanisma

Júlíus Valdimarsson kynnti bók um húmanisma: At the crossroads of humanity’s future. Umræður spunnust um framtíðina og hvert við þurfum að stefna sem tegund.

Fundi slitið kl. 22:05.