Aðalfundur Öldu, félags um sjálfbærni og lýðræði, samþykkti ályktun þar sem stjórnvöld eru hvött til að hefja ekki sölu á hlut ríkisins í Landsbanka og Íslandsbanka fyrr en að loknu vönduðu lýðræðislegu ferli þar sem almenningi verði gefið tækifæri til að ákveða framtíðarskipan bankakerfisins. Mælir félagið með að stjórnvöld hefji samráðsferli slembivalins borgaraþings, skoðanakannana og þjóðaratkvæðagreiðslu svo að sem ríkust sátt náist um bankakerfið.

Aðalfundur Öldu var haldinn 12. október og kaus fundurinn stjórn félagsins sem er skipuð þeim Báru Jóhannesdóttur, Guðmundi D. Haraldssyni, Guðmundi Herði Guðmundssyni, Kristjáni Gunnarssyni, Snædísi Björnsdóttur, Sævari Finnbogasyni og Þorvarði B. Kjartanssyni.

Á liðnu starfsári hefur félagið m.a. staðið að málþingi í Hörpu um styttingu vinnuvikunnar í samstarfi við stéttarfélög og hleypt af stokkunum átaki sem kallað er Fjárlosun (fjarlosun.alda.is), en markmið þess er að afla upplýsinga um og vekja athygli á fjárfestingum íslenskra fjármálafyrirtækja í vinnslu jarðefnaeldsneytis.

Ályktun aðalfundar Öldu 12. október 2019:

Aðalfundur Öldu, félags um sjálfbærni og lýðræði, hvetur stjórnvöld til að hefja ekki sölu á hlut þjóðarinnar í Íslandsbanka og Landsbanka fyrr en að loknu vönduðu lýðræðislegu ferli þar sem almenningi verði gefið tækifæri til að ákveða framtíðarskipan bankakerfisins hér á landi. Alda mælir með samráðsferli slembivalins borgaraþings, skoðanakannana og þjóðaratkvæðagreiðslu. Í þessu ferli mætti nýta fordæmi Íra sem hafa beitt slíkum aðferðum við að taka ákvarðanir um umdeild mál.

Samkvæmt skoðanakönnunum segjast um 60% aðspurðra vilja óbreytt eignarhald íslenska ríkisins á bönkunum eða þá að það verði aukið, en 40% vilja feta þá slóð sem ríkisstjórnin boðar. Í könnun sem Gallup gerði fyrir fjármálaráðuneytið sögðust 61% jákvæð fyrir eignarhaldi ríkisins í bönkunum en einungis 14% sögðust neikvæð. Núverandi áform ríkisstjórnarinnar um sölu á hlut í bönkunum virðist því ganga þvert gegn vilja almennings, en mikilvægt er að sem ríkust sátt sé um bankakerfið nú þegar einungis tíu ár er liðin frá hruni þess.