Aðalfundur Öldu, félags um sjálfbærni og lýðræði, var haldinn í Múltíkúltí við Barónsstíg 3, Reykjavík, laugardaginn 12. október 2019. Fundur var settur kl. 13:10.

Viðstödd voru þau Guðmundur D. Haraldsson, Hulda Björg Sigurðardóttir, Júlíus Valdimarsson, Guðmundur Hörður Guðmundsson, Bára Jóhannesdóttir Guðrúnardóttir, Sævar Finnbogason, Árni Már og Þorvarður B. Kjartansson.

1. Kosning fundarstjóra

Guðmundur D. Haraldsson var einróma kjörinn fundarstjóri. Hann lagði til að Sævar Finnbogason yrði fundarritari og var það samþykkt.

2. Skýrsla stjórnar

Guðmundur flutti skýrslu stjórnar Öldu fyrir starfsárið 2018 til 2019. Síðastliðið starfsár hefur verið umfangsmikið í starfi Öldu, en meðal annars stóð félagið að stóru málþingi, stórri skýrslu um styttingu vinnuvikunnar, sem og verkefni til að fá fjármálastofnanir til að breyta fjárfestingarstefnu sinni vegna loftslagsbreytinga.

  • Ný stjórn tók við í október 2018. Allnokkur breyting varð á stjórnarmönnum, en fjórir nýjir stjórnarmenn komu inn.
  • Félagið stóð að málþingi um styttingu vinnuvikunnar í janúar 2019, sem stéttarfélög og sambönd þeirra styrktu. Félagið auglýsti málþingið víða, í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Allnokkrum stéttarfélögum var boðið að halda erindi á málþinginu, auk þess sem fulltrúi frá New Economics Foundation í Bretlandi hélt erindi sem og fulltrúi Öldu. Málþingið var fjölsótt og fékk góða fjölmiðlaumfjöllun. Sjá meira um málþingið hér.
  • Í framhaldi af málþinginu var skrifuð samantekt um málþingið á ensku, en þessari samantekt er ætlað koma áleiðis upplýsingum um málþingið sjálft, styttingu vinnuvikunnar á Íslandi og umræðunni í kringum hana hérlendis. Meira um samantektina hér.
  • Myndband frá málþinginu var sett á vefinn í kjölfar málþingsins, en það er með enskum texta (sjá hér). Myndbandið er af erindi formanns BSRB, en í því koma fram mikilvægar upplýsingar um styttingu vinnuvikunnar hjá Reykjavíkurborg og var það því textað á ensku.
  • Félagið skrifaði skýrslu fyrir stéttarfélag á starfsárinu um skemmri vinnuviku, en hún fjallaði um hvernig stytting vinnuvikunnar hefur almennt gengið fyrir sig í gegnum tíðina, hvernig væri heppilegt að innleiða hana á vinnustöðum þar sem félagsmenn stéttarfélagsins vinna og þar fram eftir götunum. Skýrslan var notuð af stéttarfélaginu í undirbúningi fyrir komandi kjarasamninga, og skýrslan nýttist félaginu vel í þeirri vinnu. Alda fékk greitt fyrir skýrslugerðina.
  • Félagið gerðist á árinu aðili að The European Network for the Fair Sharing of Working Hours, en þessu neti er stýrt af Rosa Luxemburg Foundation, attac og fleirum. Meðal félaga í þessu neti eru stéttarfélög, grasrótarsamtök og stjórnmálaflokkar í Evrópu. Markmið netsins er að dreifa þekkingu á styttingu vinnuvikunnar, styrkja tengsl milli aðila sem hafa áhuga á málefninu, og svo framvegis. Hér má finna auglýsingu fyrir síðasta fund netsins, sem haldinn var í lok árs á síðasta ári. Fulltrúi Öldu verður á næsta fundi netsins. Netið gefur reglulega út fréttabréf og er upplýsingum um Ísland komið til ritstjóra þess eins og ástæða þykir til.
  • Sumarið 2019 hleypti félagið af stokkunum átaki sem er kallað Fjárlosun, en markmið þess er að vekja athygli á mögulegum fjárfestingum íslenskra lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja í iðnaði sem vinnur olíu, kol eða gas úr jörðu (sjá tilkynningu hér). Enn fremur er markmið verkefnisins að ýta undir að stofnanir sem þessar setji sér virka stefnu um að fjárfesta ekki í slíkri vinnslu. Vegna þessa hefur félagið beðið öll fjármálafyrirtæki landsins um upplýsingar um hvort þau fjárfesti í slíkri vinnslu, og hvort þau hafi stefnu um að fjárfesta ekki í slíkri vinnslu. Framtakið hefur verið auglýst á vefmiðlum og hefur fengið nokkra fjölmiðlaumfjöllun, auk þess sem það var til umfjöllunar á nýlegum viðburði á vegum Reykjavíkurborgar (meira hér). Markmiðið er að halda áfram að vekja athygli á vefnum.
  • Hafin er vinna við að skrifa skýrslu á ensku um árangurinn af styttingu vinnuvikunnar hjá Reykjavíkurborg, en skýrslan er samin í samstarfi við BSRB og Autonomy hugveituna í Bretlandi. Markmiðið með skýrslunni er að koma út efni á ensku um þetta merka framtak sem unnið var hér á Íslandi, en lítið efni er til á ensku um framtakið, jafnvel þótt það sé mikill áhugi fyrir því í hinum enskumælandi heimi. Rætt hefur verið um þann möguleika á að viðburður verði haldinn þegar skýrslan verður gefin út, í Lundúnum, en ekki liggur fyrir hvort af því verður.
  • Innan félagsins er í mótun hugmynd að vefsíðu um skemmri vinnuviku, til að fá einkafyrirtæki til að prófa sig áfram sjálf með að stytta vinnuvikuna fyrir sína starfsmenn. Málið er í vinnslu.
  • Alda samþykkti á árinu að vera með í áskorun um banni við kjarnorkuvopnum sem Húmanistaflokkurinn stendur að.
  • Alda sendi á síðastliðnu starfsári bréf til allra sveitarfélaga landsins um að félagið gæti boðið þeim aðstoð við að halda borgaraþing, notast við slembivaldar nefndir og þess háttar. Tilefni bréfsins var umræða í síðustu sveitastjórnarkosningum um nauðsyn þess að styrkja lýðræðið á sveitastjórnarstigi.

Alda sendi til Alþingis allnokkrar umsagnir á árinu:

  • Lagt var fyrir frumvarp um lög um 35 stunda vinnuviku, félagið lýsti sig hlynnt frumvarpinu, en lagði áherslu á að stytting vinnuvikunnar í 35 stundir væri einungis fyrsta skrefið (meira hér).
  • Lagðar voru til breytingar á þingsköpum Alþingis, þannig að gert væri ráð fyrir að tíu almennir borgarar fengju að ávarpa Alþingi einu sinni í mánuði, en markmið þessa væri að efla lýðræðið. Félagið sendi inn umsögn og benti á að ýmsar aðrar, heppilegri leiðir væru til að efla lýðræðið, en félagið legðist ekki gegn tillögunni (sjá meira hér).
  • Lögð var til þjóðaratkvæðagreiðsla um Reykjavíkurflugvöll. Alda lagðist gegn málinu að óbreyttu, og hvatti til þess að málið yrði fyrst rætt í borgaraþingi áður en kallað yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu, til að málið fengi ígrundaða umræðu áður en til þjóðaratkvæðagreiðslu kæmi (sjá meira hér).
  • Þingsályktunartillaga var lögð fram um bann við kjarnorkuvopnum, en lagði Alda til að þessi tillaga yrði samþykkt án tafar, og enn fremur að Ísland gerist án tafar aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum (meira hér).
  • Frumvarp um Lögbirtingarblaðið og Stjórnartíðindi var endurflutt, og er umsögn Öldu í fullu gildi (meira hér).
  • Tillögur Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár voru endurfluttar í heild sinni á Alþingi. Félagið hvatti til þess að borgaraþing yrði kallað saman til að ræða tillögurnar og endurskoða þær, eins og því þurfa þykir (sjá meira hér).

Öldu var boðið af hálfu Alþingis að senda fulltrúa sína á nokkra fundi með nefndum Alþingis, en einnig var félaginu boðið á fundi með sveitastjórnum eða nefndum þeirra – þessir fundur voru:

  • Um þingsályktun um þjóðaratkvæði um Reykjavíkurflugvöll, hjá Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.
  • Um stjórnarskrárfurmvarp sem var lagt fram, hjá Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.
  • Um slembivalda fulltrúa í hverfaráðum, hjá Lýðræðis- og mannréttindaráði Reykjavíkurborgar.
  • Sveitastjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps, almennt um þá aðstoð sem félagið gæti boðið.

3. Reikningar Öldu árið 2018 til 2019

Neðangreindir reikningar miðast við 29. september 2018 til 10. október 2019.

                                                                  Tekjur               Gjöld

Styrkir frá einstaklingum                                         23.300              
Styrkir frá öðrum félögum                                        701.144
Tekjur vegna verkefna                                            752.000
Vextir                                                             6.626 

Bankakostnaður                                                                        -4.000
Kostnaður vegna bókhaldsvinnu                                                         -4.619
Fjármagnstekjuskattur                                                                 -1.457
Kostnaður vegna unnina verkefna                                                     -714.390
Kostnaður vegna viðburða, þýðinga o.fl.                                             -910.001

Samtals                                                         1.483.070         -1.634.467

Halli var á félaginu sem nemur 151.397 sem greiddur var með afgangi frá síðasta starfsári.

4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga

Umræður sköpuðust um skýrslu stjórnar og reikninga, einkum um stjórnmálin almennt og hvaða stefnu þau ættu að taka. Engar efnislegar athugasemdir voru gerðar við skýrsluna né reikningana. Reikningarnir voru samþykktir án athugasemda.

5. Lagabreytingar

Fundinum hafði borist tillaga um lagabreytingar frá félagsmanni (sjá fundarboð fundarins). Tillagan var svohljóðandi:

Lagt er til að svohljóðandi síðasta málsgrein 2.gr. laga félagsins falli niður:

Félagið skal efna til samstarfs við ríkisvald, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga til að koma markmiðum sínum áleiðis.

Rökstuðningur:

Í fyrri málsgrein 2.gr. laga er fjallað um markmið félagsins, baráttu fyrir lýðræði og sjálfbærni. Ég lít svo á að bæði sé óþarft og jafnvel andstætt baráttu fyrir hvoru tveggja að skylda félagið til þess að efna til samstarf við aðila sem beinlínis geta verið andsnúnir bæði lýðræðisþróun og sjálfbærni. Þetta á örugglega við um ríkisvald og í mörgum tilvikum bæði stofnanir og fyrirtæki einnig. Þessi málsgrein er því eingöngu takmarkandi fyrir athafnafrelsi félagsins, fremur en að hún auki möguleika þess á einhvern hátt til þess að ná markmiðum sínum.

Tillagan var lauslega rædd, en fundurinn ákvað samhljóma um að ræða tillöguna ekki frekar, enda fannst fundarmönnum ekki sem ívitnuð málsgrein 2. gr. laga félagsins væri því til trafala. Tillagan var því ekki tekin til atkvæðagreiðslu, sbr. 5. gr. laga félagsins. Rætt var um að taka lagagreinina til endurskoðunar á næsta aðalfundi, ef þurfa þykir, og þá með endurskoðun orðavals í huga.

Aðrar lagabreytingar höfðu ekki borist fundinum né voru þær bornar fram.

6. Kosning kjörnefndar

Ekki var þörf á kjörnefnd að þessu sinni þar sem framboð til stjórnar voru jafnmörg og áskilinn fjöldi stjórnarmanna.

7. Kosning stjórnar

Eftirfarandi höfðu boðið sig fram til stjórnar Öldu fyrir næsta starfsár:

  • Sævar Finnbogason, doktorsnemi í heimspeki og lýðræðisfræðum
  • Snædís Björnsdóttir, nemi í bókmenntafræði
  • Kristján Gunnarsson, sameindalíffræðingur og tölvunarfræðingur
  • Guðmundur D. Haraldsson, MSc í Cognitive & Decision Sciences, BS í sálfræði
  • Bára Jóhannesdóttir, MA félagsfræði, BA nútímafræði
  • Guðmundur Hörður Guðmundsson, umhverfisfræðingur og sagnfræðingur
  • Þorvarður B. Kjartansson, tölvunarfræðingur

Þau voru öll sjálfkjörin í stjórn þar eð jafn margir buðu sig fram til stjórnar og lög félagsins gera ráð fyrir.

8. Önnur mál

8a. Tillaga um ályktun

Guðmundur Hörður bar fram eftirfarandi tillögu um ályktun aðalfundarsins:


Aðalfundur Öldu, félags um sjálfbærni og lýðræði, hvetur stjórnvöld til að hefja ekki sölu á hlut þjóðarinnar í Íslandsbanka og Landsbanka fyrr en að loknu vönduðu lýðræðislegu ferli þar sem almenningi verði gefið tækifæri til að ákveða framtíðarskipan bankakerfisins hér á landi. Alda mælir með samráðsferli slembivalins borgaraþings, skoðanakannana og þjóðaratkvæðagreiðslu. Í þessu ferli mætti nýta fordæmi Íra sem hafa beitt slíkum aðferðum við að taka ákvarðanir um umdeild mál.

Samkvæmt skoðanakönnunum segjast um 60% aðspurðra vilja óbreytt eignarhald íslenska ríkisins á bönkunum eða þá að það verði aukið, en 40% vilja feta þá slóð sem ríkisstjórnin boðar. Í könnun sem Gallup gerði fyrir fjármálaráðuneytið sögðust 61% jákvæð fyrir eignarhaldi ríkisins í bönkunum en einungis 14% sögðust neikvæð. Núverandi áform ríkisstjórnarinnar um sölu á hlut í bönkunum virðist því ganga þvert gegn vilja almennings, en mikilvægt er að sem ríkust sátt sé um bankakerfið nú þegar einungis tíu ár er liðin frá hruni þess.

Ályktunin var samþykkt einróma af fundinum. Ályktunin hefur nú verið birt á vef félagsins.

8b. Þáttaka í málþingi

Júlíus ræddi um að Húmanistaflokkurinn myndi standa að málþingi í byrjun næsta árs, líkt og hefur verið undanfarin ár. Velti hann því upp hvort Alda myndi mögulega vera með, og var tekið undir það af hálfu fundarins, stefnt er að því að vera með.

***

Fleira gerðist ekki. Fundi var slitið 14:40.