Alda hefur sent bréf til Forsætisráðuneytis, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis,
Umhverfis- og auðlindaráðuneytis, og Félagsmálaráðuneytið um næstu skref í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og vegna fjórðu iðnbyltingarinnar. Í bréfinu hvetur félagið ráðuneytin til að setja af stað starfshóp sem myndi skipuleggja mótvægi við þessu tvennu, þannig að samfélagið skipulega takist á við þetta tvennt.

PDF útgáfa bréfsins.

***

Alda, félag um sjálfbærni og lýðræði, vill hér með vekja athygli stjórnvalda á mikilvægu málefni sem nú fær aukna athygli á Íslandi sem og erlendis. Alda vill vekja athygli á því að nú er gott tækifæri til að þroska þetta mál frekar og taka næstu skref í málinu. Vert er einnig, að mati félagsins, að vekja athygli á fleiri hliðum málsins en helst hafa verið ræddar hér á Íslandi.

Málefnið er stytting vinnuvikunnar, sem nú er ýmist verið að innleiða eða búið að innleiða á þúsundum vinnustaða á Íslandi með góðum árangri, en stytting vinnuvikunnar er einnig farin að vekja verðskuldaða athygli víða erlendis. Árangurinn af styttingu vinnuvikunnar á Íslandi, sem og erlendis – einkum hjá stöku einkafyrirtækjum –, hefur verið með ágætum og má búast við að svo verði áfram. Öldu þykir, í ljósi þessa, rétt að undirbúin séu næstu skref í þessu máli, hér á Íslandi, og er þá átt við lagasetningu og/eða hvata í atvinnulífinu, og byggja þannig á þeim árangri sem þegar hefur náðst. Þannig má þroska þetta mál áfram en jafnframt ná árangri á öðrum sviðum, eins og vikið verður að hér að neðan.

Áhugi um allan heim

Óhætt er að segja að stytting vinnuvikunnar sé málefni sem nú fer sem stormsveipur um heiminn: Á Íslandi hafa verið rekin árangursrík tilraunaverkefni, bæði hjá ríkinu og Reykjavíkurborg, en einnig hafa nokkur einkafyrirtæki reynt styttingu hjá sér fyrir sína starfsmenn að eigin frumkvæði. Þá hafa ýmis fyrirtæki í fjölmörgum löndum – s.s. Bretlandi, Þýskalandi, Ítalíu, Austurríki, Nýja-Sjálandi, Belgíu og Japan – nýlega prófað sig áfram með styttri vinnuviku fyrir sína starfsmenn, með góðum árangri. Þá er stjórnmálalegur áhugi fyrir málinu hjá Skoska þjóðarflokknum, hjá forsætisráðherrum Finnlands og Nýja-Sjálands, hjá að minnsta kosti fjórum flokkum í Noregi, hjá bæði SDP og Die Linke í Þýskalandi. Hjá héraðsstjórninni í Valensíu á Spáni og innan stjórnarflokkanna á Spáni er áhugi fyrir því að þróa leiðir til að stytta vinnuvikuna með hvötum, er þar nú nýbúið að samþykkja að fara af stað með tilraunaverkefni í þessa veruna. Þá er áhugi fyrir málinu meðal stéttarfélaga í Bretlandi – s.s. hjá Unite the Union, Communication Workers Union og Trades Union Congress –, meðal stéttarfélaga í Þýskalandi – IG Metall, Verdi og EVG – og á Ítalíu, Noregi og víðar. Um er að ræða mikinn metnað hjá þessum aðilum, og viss endurskoðun á gildum liggur að baki þessum áhuga.

Í fræðasamfélaginu er einnig mikill áhugi, eins og meðal annars má sjá af nýlegum rannsóknum erlendis. Þannig gaf Henley Business School, virtur viðskiptaháskóli í Bretlandi, út skýrslu um þessi mál, en niðurstöðurnar benda til þess að styttri vinnuvika – úr fimm virkum dögum í fjóra, í þessari rannsókn – hafi jákvæð áhrif á fyrirtæki sem bjóða starfsmönnum að vinna minna, einkum í formi þess að eiga auðveldar með að laða að sér starfsfólk, og þá eru jákvæð áhrif á starfsfólkið í formi minni streitu og meiri lífsánægju. Autonomy, bresk rannsóknarstofnun, gaf út skýrslu fyrir nokkrum misserum, þar sem svipuð áhrif eru tíunduð en einnig ábati af skemmri vinnuviku hvað varðar vistkerfi jarðar – s.s. minni mengun, minni sóun og minni losun gróðurhúsalofttegunda – sem og fyrir andlega og líkamlega heilsu vinnandi fólks.

Fleiri og fleiri rannsakendur hafa raunar fjallað um tengslin á milli vinnustunda og loftslagsbreytinga, og hafa bent á hvernig megi draga úr framtíðarlosun gróðurhúsalofttegunda með því að nýta aukningu á framleiðni til að fækka vinnustundum í stað þess að auka neyslu í hagkerfinu. Þannig megi viðhalda jafnvægi í hagkerfinu, en jafnframt hægja á eða stöðva aukningu á losun gróðurhúsalofttegunda. Hafa m.a. hagfræðingarnir Juliet Schor og Tim Jackson bent á kosti þessa í verkum sínum, ásamt fleirum. Er á Ítalíu nú búið að koma á samkomulagi í þessa veruna, fyrir amk. einhvern hluta vinnandi fólks. Þá hafa margir rannsakendur bent á að ein aðferð til að takast á við fjórðu iðnbyltinguna, sem svo er nefnd, sé einmitt sú sama: Aukning á framleiðni í hagkerfinu leiði til fækkunar vinnustunda. Rétt er að undirstrika að undanfarna öld – og raunar lengur –, hefur aukin framleiðni mest verið nýtt til aukningar á neyslu, fremur en til styttingar vinnuvikunnar, og á það sérstaklega við um undanfarna fjóra áratugi.

Áhuginn í fræðasamfélaginu er ekki að ástæðulausu, enda eru greinileg tengsl á milli athafna mannanna á jörðinni og loftslagsbreytinga, og ein augljós leið til að stemma stigum við loftslagsbreytingum er að nýta aukna framleiðni á annan hátt en við höfum gert undanfarna öld eða svo. Þá eru greinileg þau stigvaxandi áhrif sem fjórða iðnbyltingin hefur á samfélög jarðar, eykur það og áhugann.

Undirbúum næstu skref

Alda telur kjörið, að á þeim tímapunkti þegar  baráttan við heimsfaraldur kórónuveirunnar tekur að skila árangri, verði viðspyrnan í efnahagsmálum þess eðlis að tekist verði á við loftslagsmálin af alvöru, og tekist verði á við fjórðu iðnbyltinguna jafnframt. Einnig verði unnið að því að auka lífsgæði almennings í formi betra jafnvægis vinnu og einkalífs. Telur félagið augljóst einnig, að með slíkum aðgerðum sé hægt að komast nær draumsýn fyrri kynslóða, um færri vinnustundir vegna aukinnar sjálfvirkni – nokkuð sem ákall hefur raunar verið um úr samfélaginu. Nýting aukinnar framleiðni til að stytta vinnuvikuna nær öllum þessum markmiðum samtímis. Ekki er seinna vænna að leggja grunninn að slíku á Íslandi hið fyrsta, líkt og nú er búið gera í Wales, með störfum framtíðarstofnunar. Rétt er í þessu samhengi að minna á ákall Sameinuðu þjóðanna á undanförnum árum og áratugum um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum.

Félagið vill undirstrika, að það telur ekki fullnægjandi lausn á fyrrgreindum vanda að nýta aukna framleiðni á þennan hátt, heldur telur félagið að slíkt sé hluti þess sem gera þurfi. Þannig telur félagið t.d. orkuskipti sjálfsögð, en félagið vill jafnframt sjá breytingu á nýtingu aukinnar framleiðni framtíðarinnar sem myndi fleyta okkur enn nær því að leysa vandann.

Félagið hvetur stjórnvöld til að koma upp þverfaglegum hópi fræðimanna, fulltrúum stéttarfélaga, atvinnulífsins og áhugasamtaka, sem og alþjóðlegum sérfræðingum, til að skoða ítarlega kosti þessa, og hvaða leiðir séu mögulegar í þessu sambandi, einkum með þarfir íslensks samfélags í huga. Félagið telur rétt að hópurinn verði leiddur af fræðimanni. 

Alda býr yfir tengiliðum hjá sjálfstæðum, erlendum stofnunum, sem geta átt aðkomu að þessu samstarfi. Vekur félagið helst athygli á Autonomy, breskri stofnun sem sérhæfir sig í þessum málum, og hefur yfir að ráða hagfræðingum og vinnumarkaðssérfræðingum – hefur Autonomy m.a. tekið þátt í stefnumótun í Bretlandi.

Félagið beinir því til stjórnvalda að koma á slíku samstarfi hið fyrsta, áður en núverandi kjarasamningar renna út, svo hrinda megi tillögum hópsins í framkvæmd í næstu kjarasamningum.

Félagið lýsir sig reiðubúið til að aðstoða við að koma upp hópi sem þessum og er reiðubúið til að ræða við stjórnvöld hvenær sem er um næstu skref í málinu.

Fyrir hönd stjórnar Öldu,

Guðmundur D. Haraldsson,

stjórnarmaður, umsjónarmaður verkefnis um styttingu vinnuvikunnar.

***

Samhljóða afrit send á: Forsætisráðuneytið, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, og Félagsmálaráðuneytið.