Alda sendi í dag til Alþingis umsögn um frumvarp um breytingar á lögum um fjármál stjórnmálaflokka. Umsögnin tekur til frumvarpsins sjálfs, laganna sjálfra sem og verklags við fyrri breytingar á lögunum. Umsögnina má finna hér og frumvarpið hér.

Í stuttu máli fjallar frumvarpið um skyldur stjórnmálaflokka til upplýsingagjafar, vilji þeir þiggja styrki frá rikinu til starfsemi sinnar. Flokkar sem ekki vilja þiggja slíka styrki þurfa ekki að standa skil af slíkri upplýsingagjöf. Alda telur sjálfsagt mál að auka slíka upplýsingagjöf, en hvetur Alþingi einnig til að gera allar upplýsingar um fyrirtæki og félagasamtök í Fyrirtækjaskrá opnar á vefnum jafnframt, en slíkt er þegar skráð þar. Félagið hvetur einnig til endurskoðunar á löggjöfinni, í þá átt að banna lögaðilum (fyrirtækjum og félagasamtökum) að styrkja stjórnmálaflokka, enda sé slíkt ólýðræðislegt. Þá gerir félagið athugasemdir við hvernig staðið var að fyrri breytingum á lögunum, og beinir því til Alþingis að skylda að öll þingmál séu sett í umsagnarferli.