Alda og breska hugveitan Autonomy hafa nú gefið út fyrstu greinargóðu skýrsluna á ensku um tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar sem voru rekin á Íslandi á árunum 2015 til 2019. Um er að ræða tilraunaverkefni hjá bæði Reykjavíkurborg og ríkinu. Skýrslan kemur út í dag.
Niðurstöður skýrslunnar eru eftirfarandi:
- Um 2.500 tóku þátt í tilraunaverkefnunum – um 1% af öllum starfandi á Íslandi – og af þeim má draga bæði lærdóm gagnvart fyrirtækjum og starfsmönnum.
- Tilraunaverkefnin heppnuðust mjög vel og gerðu stéttarfélögum kleift að semja um styttri vinnuviku fyrir tugþúsundir vinnandi fólks.
- Framleiðni jókst og þjónustustig var óbreytt, stundum batnaði þjónustan.
- Vellíðan starfsmanna jókst á marga mælikvarða, svo sem streitu, kulnun og jafnvægi vinnu og einkalífs.
- Tilraunaverkefnin kölluðu ekki á aukin útgjöld af hálfu Reykjavíkurborgar og ríkisins.
- Tilraunaverkefnin eru greinargóður leiðarvísir um hvernig má setja upp svipuð tilraunaverkefni í öðrum löndum.
Skýrsluna má nálgast hér.