Í yfirstandandi og komandi kjaraviðræðum gefst kjörið tækifæri til að halda áfram með það langtímaverkefni sem stytting vinnuvikunnar er. Halda þarf áfram með styttinguna sem samið var um 2019 og 2020, bæði innan einkageirans og hjá hinu opinbera, þótt áherslurnar þyrftu að vera ólíkar þarna á milli. Takist okkur vel upp með frekari styttingu gætum við séð mikil jákvæð áhrif á daglegt líf fólks og jafnframt séð jákvæðar breytingar hjá mikilvægum burðarásum samfélagsins, s.s. leikskólum. Frekari stytting er einnig mikilvægur liður í að takast á við tækniþróunina sem á sér stað allt í kringum okkur. Erlendis er vaxandi þungi í umræðum og aðgerðum þessu tengdu. Styrk skref áfram geta reynst samfélaginu heillavænleg til að takast á við í senn samtímann og framtíðina.

Einkageirinn þarf að gera betur

Árin 2019 og 2020 voru undirritaðir kjarasamningar á íslenskum vinnumarkaði sem áttu eftir að hafa víðtæk áhrif. Eitt það sem kjarasamningarnir fólu í sér var stytting vinnutímans, ýmist með beinni styttingu eða réttinum til að knýja á um vinnustaðasamninga þar um og stundum var samið um bland beggja. Þá voru vaktakerfi stokkuð upp í samningunum.

Vinnustaðasamningar um styttingu voru almennt ráðandi í samningum í einkageiranum og minna um að launafólki væri tryggð bein, tímasett stytting. Mikilvæg undantekning á þessu er stéttarfélagið VR, sem tryggði félagsmönnum sínum beina styttingu. Í opinbera geiranum var launafólki almennt tryggð bein stytting, án þess að gera þyrfti sérstaka vinnustaðasamninga. Styttingin á vinnuvikunni í praxís var almennt meiri í opinbera geiranum.

Skoðanakannanir hafa sýnt að meðal þeirra sem hafa gengið í gegnum styttingu vinnutímans á sínum vinnustað ríkir meiri ánægja með vinnutímann eftir styttinguna og að almennt er mikil ánægja með styttinguna. En ánægjan er mun meiri í opinbera geiranum en í einkageiranum; í skoðanakönnun sem var birt í Fréttablaðinu 2021 munaði tuttugu prósentustigum þarna á. Og í rannsókn Félagsvísindastofnunar sem kom út í október 2022 kemur í ljós þessi sami munur – en líka að 41% starfandi hefur ekki verið boðin stytting á vinnutímanum, líklega mestmegnis í einkageiranum (51% hafði verið boðin stytting).

Allt þetta segir okkur að opinberi geirinn stendur einkageiranum heilt yfir framar hvað vinnutímann varðar. Stéttarfélögum í opinbera geiranum tókst hreinlega betur upp með að semja um styttingu en stéttarfélögum í einkageiranum. Ástæðan liggur fyrst og fremst í mikilli, áralangri andstöðu Samtaka atvinnulífsins – aðalfulltrúum einkaframtaksins í kjarasamningum – gegn hvers kyns hugmyndum og áformum um styttingu vinnutímans, ekki er við stéttarfélögin að sakast; þau reyndu. Í kjaraviðræðum gefst nýrri forystu Samtaka atvinnulífsins tækifæri til að stokka spilin, semja um styttingu vinnuvikunnar á svipuðum nótum og gert var fyrir opinbera markaðinn 2020, og þannig taka virkan þátt í að innleiða styttri vinnuviku með tilheyrandi lífskjarabót á einkamarkaðnum. Athugandi væri að framsækin aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins settu þrýsting á forystuna um þetta.

Oft er það þannig að opinberi geirinn leiðir breytingar í samfélaginu og einkaframtakið fylgir á eftir síðar. Stytting vinnuvikunnar er dæmi um það og mikilvægt er að einkaframtakið fylgi á eftir sem fyrst.

Tækifæri opinbera geirans

Þótt styttingin í opinbera geiranum hafi heilt yfir gengið vel hafa komið upp hnökrar. Þessir hnökrar hafa komið fram meðal annars í leikskólum og hefur opinber umræða snúist mest um þá, en einnig hefur gengið erfiðlega að innleiða styttingu hjá fangavörðum og tollvörðum. Þær stofnanir sem hafa átt í erfiðleikum með innleiðingu eiga það sammerkt að hafa átt í vanda um árabil, frá því áður en stytting vinnuvikunnar kom til. Nú gefst tækifæri fyrir ríki og sveitarfélög að styrkja þessar stofnanir til að þær komist út úr vandanum svo að þær geti sinnt sínu hlutverki betur en jafnframt þannig að starfsfólkið fái að njóta góðs af styttri vinnutíma líkt og lagt var upp með.

Hugum að leikskólunum sérstaklega, enda hefur athyglin beinst að þeim einna mest í þessu sambandi, en líka vegna þess að okkur gefst nú tækifæri til að hlúa að þeim með því að stilla saman strengi. Í stuttu – og einfölduðu – máli má segja að leikskólar séu undir auknu álagi sem bæði aðbúnaður þeirra og starfsmannafjöldi standa ekki undir með góðu móti, en að jafnframt fari kröfur til þeirra vaxandi. Þetta sést til dæmis á því að miklu fleiri börn verja átta tímum á dag eða lengur á leikskólum en var fyrir tveimur áratugum, yngri börnum hefur fjölgað mikið og kennsluskylda kennaranna er mikil í samanburði við önnur OECD ríki. Þótt leikskólakennurum hafi fjölgað er útlit fyrir að það hafi alls ekki dugað né að aðbúnaðurinn hafi haldið í við þróunina. Upplifun starfsfólksins staðfestir þetta, líkt og kemur fram í úttekt Kristínar Dýrfjörð, dósents við Háskólann á Akureyri.

Vandi sem þessi verður ekki leystur nema að ólíkir aðilar komi saman og stilli saman strengi sína og stuðli þannig að lausn. Hér þarf að hugsa út fyrir rammann. Frekari stytting vinnuvikunnar í næstu kjarasamningum myndi létta á leikskólunum með skemmri dvalartíma barnanna og því mikilvægt að hugað sé að frekari styttingu, sérstaklega í einkageiranum þar sem flestir vinna. Mikilvægt er að aðilar vinnumarkaðarins hafi þetta hugfast. Sveitarfélögin – eftir vill með aðkomu ríkisins – gætu lagt sitt af mörkum með bættri aðstöðu á leikskólunum en líka með því að afmarka hlutverk þeirra betur. Þótt málefni leikskóla séu allajafna ekki til úrvinnslu í kjaraviðræðum, er ekki fráleitt í lýðræðislegu samfélagi að einhvers konar samkomulag sé gert um þessi mál í tengslum við kjarasamninga, eða þá að viljayfirlýsing sé gefin út.

Einnig er tækifæri hjá opinbera geiranum að stytta frekar vinnutímann þar sem aðstæður leyfa. Mikilvægt er að leysa úr þeim hnökrum sem hafa komið upp. Ærin ástæða er til, eins og nú verður vikið að.

Mannvænna samfélag framtíðar

Þótt svo íslenskt samfélag hafi náð árangri við að stytta vinnuvikuna á liðnum árum eru gild rök til að halda því áfram, því áframhaldandi og frekari stytting mun í senn bæta samfélagið og undirbúa okkur fyrir tæknibreytingar framtíðar, auk þess sem þróunin er í sömu átt erlendis.

Lífsgæði

Íslenskt samfélag einkennist af miklum efnislegum gæðum, sem stuðla að lífsgæðum, en okkur skortir á að taka betur á vinnutengdri streitu í samfélaginu og árekstrum á milli vinnu og einkalífs sem myndi gera okkur betur kleift að njóta hinna efnislegu lífsgæða og verja meiri tíma með öðru fólki.

Tölur Eurostat – hagstofu Evrópusambandsins – sýna þannig að við vinnum enn langa vinnuviku í samanburði við hin Norrænu ríkin, en jafnframt sýna tölur OECD að hér á Íslandi gefst fólki minni tími til að sinna eigin þörfum og löngunum en gengur og gerist í flestum ríkjum OECD og að jafnvægi vinnu og einkalífs er enn í lakara lagi.Við höfum, samkvæmt þessum sömu mælingum, tekið skref í rétta átt frá liðnum árum með fækkun vinnustunda og færst upp um nokkur þrep í athugunum OECD. Við höfum náð nokkrum árangri, sem er vel – en við getum enn gert betur.

Tími utan vinnu er verðmætur. Rannsóknir sýna að tími utan vinnu einkennist af betri líðan en tími sem varið er til vinnu. Ástæðan er talin einföld: Utan vinnu höfum við mun meira frelsi til að velja hvað við verjum tíma okkar til en innan vinnu og að tíma utan vinnunnar er gjarnan varið með því fólki sem stendur okkur næst og er okkur kærast. Við á Íslandi hefðum gott af meira af þessum mikilvæga tíma utan vinnu.

Aukinn frítími er ósk þorra fólks. Í rannsóknum kemur iðulega fram að meiri tími til áhugamála, samveru með vinum og fjölskyldu er ofarlega á óskalistanum. Þá metur Z-kynslóðin frítíma meira en fyrri kynslóðir.

Með frekari styttingu yrði komið til móts við stóra hópa vinnandi fólks, auk þess sem lífsgæði myndu aukast.

Framleiðni og tækniframfarir

Ein forsenda mikilla lífsgæða er mikil framleiðni hagkerfisins. Aukin framleiðni kemur til bæði vegna tækniframfara og bætts vinnuskipulags fyrirtækja og stofnana. Á Íslandi hefur framleiðni aukist ár frá ári um langa hríð, en frá árinu 2008, sem dæmi, hefur framleiðni á hverri unninni vinnustund aukist að meðaltali um 20%. Það er ígildi fulls vinnudags miðað við fimm daga vinnuviku.

Almennt er búist við áframhaldandi tækniframförum og er oft talað um fjórðu iðnbyltinguna í því sambandi. Sjálfvirkni muni halda áfram að aukast. Við höfum á liðnum árum enda séð bankaútibúum fækka til muna, sjálfsafgreiðslu ryðja sér til rúms og fjarvinnu verða mun algengari. Þessi þróun öll getur hæglega leitt af sér aukna framleiðni hagkerfisins.

Þótt við á Íslandi höfum almennt verið snögg að tileinka okkur tækninýjungar í gegnum tíðina sýna rannsóknir að við höfum verið mun lakari þegar kemur að því að endurhugsa vinnuskipulag. Í tengslum við styttingu vinnuvikunnar hjá hinu opinbera (og sumum einkafyrirtækjum) 2020-2021 var einmitt hugað að þessum þætti og tókst vel til. Frekari stytting vinnutímans yrði hvati fyrir alla til að endurhugsa vinnuskipulag og nýta tækninýjungar í þágu styttri vinnutíma, en samhliða myndi framleiðni aukast.

Það er mikilvægt að við hugum að tækniþróuninni með það fyrir augum að við nýtum hana til að bæta samfélagið. Alþjóðavinnumálastofnunin hefur á undanförnum árum bent á að til að tækniþróunin nýtist samfélaginu sem best sé heppilegt að stytta vinnutímann.

Þróunin erlendis í átt að fjögurra daga vinnuviku

Erlendis hefur átt sér stað mikil hugarfarsbreyting hvað varðar vinnu og vinnutíma, einkum í enskumælandi heiminum. Hefur allnokkrum tilraunaverkefnum um styttri vinnutíma að íslenskri fyrirmynd verið komið á laggirnar í nokkrum löndum, s.s. í Bretlandi, Portúgal, Spáni, Nýja-Sjálandi og Ástralíu, ýmist af sjálfstæðum hugveitum og félagasamtökum eða opinberum aðilum. Hafa einkafyrirtæki og opinberar stofnanir tekið þátt. Það sem þessi tilraunaverkefni eiga sammerkt er að þau láta á það reyna að stytta vinnuvikuna í fjóra daga, en á Íslandi var stytt um nokkra tíma á viku og haldið í fimm daga vinnuviku.

Erlendu tilraunaverkefnin hafa gefist vel, bæði fyrir sjálf fyrirtækin og starfsfólkið. Stjórnendur segja reksturinn ganga vel, framleiðni hafa aukist og tekjur sömuleiðis. Starfsfólkið segist kunna að meta að hafa mun meiri tíma fyrir sig og fjölskyldu en einnig að það sé ánægðara með bæði vinnuna og lífið sjálft.

Þróunin erlendis er í átt að styttri vinnuviku og einkum fjögurra daga vinnuviku.

Tökum skrefið

Á næstu mánuðum gefst tækifæri til að halda áfram að þroska og þróa mannvænt og fjölskylduvænt samfélag á Íslandi, samfélag þar sem við leggjum áherslu á aukin lífsgæði í formi fleiri gæðastunda. Það er langtímaverkefni – langhlaup fremur en spretthlaup – sem krefst markvissrar vinnu yfir langan tíma og mikilvægt að halda dampi. Þróunin erlendis sem og aukin sjálfvirkni ætti að vera okkur áminning og hvatning í senn til að halda áfram að þróa samfélagið í þessa átt.

Það getur þó reynst æði snúið að semja um styttingu vinnutímans, eins og kom í ljós í kjarasamningalotunni 2019 til 2020 þegar lá við vinnustöðvun – þannig er það oft og iðulega. En nú, þegar verðbólga setur launahækkunum þröngar skorður og einhugur er að semja þurfi um hóflegar launahækkanir til að tryggja að hún hjaðni, má vera að auðveldara geti reynst að semja um styttingu gegn því einmitt að launahækkanir verði hófsamlegar – en einnig að farið yrði í markvisst átak til að auka framleiðni með bættum starfsháttum og sáttmála um að tækninýjungar fjórðu iðnbyltingarinnar yrðu nýttar til að auka framleiðni, atvinnurekendum og launafólki til hagsbóta. Samningar á einkamarkaði og þeim opinbera taki mið af ólíkri stöðu þessara markaða, eins og hér hefur verið rakið, og tryggðar verði framfarir á þeim báðum. Það er mikilvægt að styrkja þær stofnanir sem hafa átt erfiðar með styttingu og að einkafyrirtækin hafi hvata til að stytta vinnuvikuna.

Nú gefst okkur kostur á að taka skref áfram sem getur reynst öllu samfélaginu vel, gert það mann- og fjölskylduvænna og reiðubúið fyrir framtíðina. Með samvinnu og útsjónarsemi getum við hæglega skipað okkur í fremstu röð og náð miklum árangri. Það eina sem þarf til er vilji og þor.

Guðmundur D. Haraldsson, stjórnarmaður í Öldu – félagi um sjálfbærni og lýðræði.

Greinin birtist fyrst á vef Heimildarinnar, 13. janúar 2024.

Heimildir

  • Fréttablaðið (3. ágúst 2021), bls. 1 og 4.
  • Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands (október 2022). Einkenni starfa, vinnuumhverfi og ástæður brotthvarfs af íslenskum vinnumarkaði. Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.
  • Hannes G. Sigurðsson (26. maí 2016). Umræða um styttingu vinnutíma á villigötum. https://www.sa.is/frettatengt/frettir/umraeda-um-styttingu-vinnutima-a-villigotum
  • Hagstofa Íslands (e.d.). Börn í leikskólum eftir aldri, lengd viðveru og rekstrarformi 1998-2022. https://px.hagstofa.is:443/pxis/sq/7c187994-447e-419a-91c8-c63da3c6fa4e
  • OECD (2023). Teaching hours (indicator). doi:10.1787/af23ce9b-en. https://data.oecd.org/chart/7iUN
  • Hagstofa Íslands (e.d.). Starfsfólk í leikskólum eftir kyni, starfssviðum og rekstraraðilum 1998-2022. https://px.hagstofa.is:443/pxis/sq/1e8fe789-c587-4485-b675-47645eddb71b
  • Kristín Dýrfjörð (2017). Álagsþættir í starfi leikskólakennara: Samantekt úr opnum svörum í könnun sem lögð var fyrir 22. – 25. september 2017. #
  • Eurostat (2023). Hours of work – annual statistics. https://ec.europa.eu/eurostat/statistics-explained/index.php?title=Hours_of_work_-_annual_statistics og OECD (e.d.). Average annual hours actually worked per worker. https://stats.oecd.org/index.aspx?DataSetCode=ANHRS – Miðað er við muninn á árunum 2019 og 2022. Settur er fyrirvari við að aðferðafræðinni var breytt á tímabilinu, sem getur haft áhrif á mælingarnar. Sjá: Hagstofa Íslands (10. desember 2020). Gæðamat á vinnutímamælingum vinnumarkaðsrannsóknar. https://hagstofa.is/utgafur/utgafa/vinnumarkadur/gaedamat-a-vinnutimamaelingum-vinnumarkadsrannsoknar/
  • OECD Better Life Index (e.d.). Iceland. https://www.oecdbetterlifeindex.org/countries/iceland/ og OECD Better Life Index (2017). Better Life Index – Edition 2017. https://stats.oecd.org/Index.aspx?DataSetCode=BLI2017. – Miðað er við muninn á árunum 2017 og 2022.
  • Ryan, R. M., Bernstein, J. H. og Brown, K. W. (2010). Weekends, work, and well-being: Psychological need satisfactions and day of the week effects on mood, vitality, and physical symptoms. Journal of Social and Clinical Psychology, 29(1), 95-122.
  • Walker, J. og Fontinha, R. (2019). Four better or four worse? Henley-on-Thames: Henley Business School.
  • Hagstofa Íslands (e.d.). Framleiðni vinnuafls 2008-2022. https://px.hagstofa.is:443/pxis/sq/88135bf3-7317-4caf-8521-b06cb617a9b8
  • Sjá t.d.: Huginn Freyr Þorsteinsson o.fl. (október 2019). Iceland and the fourth industrial revolution. Reykjavík: Stjórnarráðið. https://www.government.is/library/01-Ministries/Prime-Ministrers-Office/Fjorda-idnbyltingin-skyrsla-enska_HQ.pdf
  • Ólafur Jóhann Briem (2018). Samband vinnustunda og framleiðni vinnuafls: Greining á 20 ríkjum innan OECD. https://skemman.is/handle/1946/30569
  • Alþjóðavinnumálastofnunin [ILO] (2018). Working time and the future of work. Ritstj.: Jon Messenger. ILO: Geneva. https://www.ilo.org/wcmsp5/groups/public/—dgreports/—cabinet/documents/publication/wcms_649907.pdf
  • Guðmundur D. Haraldsson (2. nóvember 2023). Fjögurra daga vinnuvika: Alþjóðleg tilraunaverkefni lofa góðu. Vísir. https://www.visir.is/g/20232483539d/fjogurra-daga-vinnu-vika-al-thjod-leg-til-rauna-verk-efni-lofa-godu
  • Lewis, K., Stronge, W., Kellam, J. o.fl. (2023). The results are in: The UK’s four-day week pilot. Crookham Village: Autonomy. – Schor, J. B. et. al. (2022). The Four Day Week: Assessing Global Trials of Reduced Work Time with No Reduction in Pay. Auckland: Four Day Week Global.