Fundur settur kl. 20:30. Mættir voru: Guðmundur D. Haraldsson (er ritaði fundargerð), Björn Þorsteinsson (er stýrði fundi), Hjalti Hrafn Hafþórsson, Guðni Karl Harðarson, Valgerður Pálmadóttir og Helga Kjartansdóttir.
Fundarefni:
- Yfirlýsing vegna lífeyrissjóða
- Drög lýðræðislegs stjórnmálaflokks
- Málefnahópar – staða
- Erlendar ráðstefnur
- Fundir á döfinni
- Önnur mál
1. Yfirlýsing vegna lífeyrissjóða
Fyrir lágu drög að yfirlýsingu frá Kristni Má sem viðbrögð við lífeyrissjóðskýrslunni sem kom út nýlega. Voru gerðar breytingar á drögunum á fundinum, eitthvað fellt burt, nýjum atriðum bætt við. Bætt við yfirlýsinguna um mikilvægi þess að lífeyrissjóðir fjárfesti í sjálfbærum og félagslegum verkefnum, en einnig að þeir styðji við lýðræðislega rekin fyrirtæki. Samþykkt að senda breytt drög á stjórn Öldu til samþykktar.
2. Drög að skipulagi lýðræðislegs stjórnmálaflokks
Það stendur til að ganga frá drögunum til setningar, gerist trúlega í vikunni.
Athugasemd kom fram á fundinum um hvort að drög eins og þessi gætu gert ráð fyrir flokki sem hefði enga stefnu í blábyrjun, hann væri á upphafsstigum algert „tabula rasa“. Tilefni athugasemdarinnar væri að flokkarnir sem nú væri verið að stofna væru ekki þannig. Umræða fór fram um málið. Niðurstaða var að svoleiðis væri tæplega hægt, það væri varla hægt að fá fólk til starfa við stjórnmálaafl sem væri með alls enga stefnu, engar hugmyndir. Það væri nauðsynlegt að fólk fyndi eitthvað sem það væri sammála í stefnu flokksins, til að fá það til starfa með flokknum. Ítarleg stefna ætti vitanlega að vera mótuð af flokksfélögum.
Rætt var stuttlega um þann stjórnmálaflokk sem stendur til að notist við hugmyndir Öldu að hluta til.
Málefnahópar
Farið var yfir stöðu málefnahópa.
Sjálfbærnihópur: Lítið hefur þokast, fáir fundir hafa verið haldnir. Fundi þarf að halda. Varðandi sjálfbærniþorp, þá hafa fengist viðbrögð héðan og þaðan úr samfélaginu. Stendur til að kynna hugmyndina hjá Hugmyndaráðuneytinu.
Lýðræðislegt hagkerfi:
Lýðræðisleg fyrirtæki: Allt er reiðubúið fyrir fundi með þingmönnum, varðandi lagabreytingar sem myndu gera lýðræðislegum fyrirtækjum kleift að starfa. Fundurinn verður bráðlega. Boðað verður til fundar í hópnum þegar þingmennirnir kalla eftir fundi.
Stytting vinnudagsins: Guðmundur er að vinna í ítarlegri ritgerð um styttingu vinnudagsins, sem verður birt á vefsíðu Öldu innan skamms. Þegar sú ritgerð verður tilbúin, mun vinna hefjast við að koma áfram hugmyndinni um styttingu vinnudagsins. Boðað verður til fundar bráðlega þar sem ritgerðin verður rædd og aðferðir við að koma málefninu áfram.
Menntahópur: Fundur var haldinn og þar rætt um ýmis grunnatriði er varða lýðræði í menntakerfinu. Engar ákvarðanir voru teknar. Sjö til átta manns mættu á þennan fyrsta fund. Mikill áhugi greinilegur á efninu hjá þeim sem rætt hefur verið við um málefnið.
4. Erlendar ráðstefnur.
Ráðstefna verður haldin í New York á þessu ári, um þátttökufjárhagsáætlunargerð. Ráðstefna félagsfræðinga í Bandaríkjunum verður einnig haldin á þessu ári. Möguleiki er að einhver úr Öldu mæti á síðarnefndu ráðstefnuna, en verið er að kanna málið.
5. Fundir á döfinni:
Fundur hjá Heimdalli um lýðræði – Kristinn Már hafði boðað sig en kemst trúlega ekki, Hjalti mun vera varamaður hans. Fulltrúi Öldu mun kynna starfsemi félagsins og hugmyndir sem félagið hefur sett fram.
6. Önnur mál:
Rætt um að auka sýnileika félagsins. Það þarf að skipuleggja það þá nánar.
Fundi slitið kl. 21:57.