Félaginu hafa borist eftirfarandi framboð til stjórnarsetu í Öldu 2012-2013. Þau birtast hér í handahófskenndri röð.
Samkvæmt lögum félagsins skulu framboð til stjórnar hafa borist fimm dögum fyrir aðalfund og kynntar á vefsvæði fjórum dögum fyrir fundinn. Samkvæmt lögunum skulu sjö stjórnarmenn kjörnir á aðalfundi. Sjö framboð bárust.
Athygli skal vakin á því að nú mun ALDA slembivelja tvo félagsmenn til stjórnarsetu líkt og kveður á í lögum félagsins ( http://alda.is/?page_id=17 ). Allir félagsmenn eru með í slembivalinu nema ef þeir segja sig frá því með því að senda skilaboð þess efnis á solald@gmail.com.
Nýkjörin stjórn mun slembivelja tvo félagsmenn að loknum aðalfundi.
Sólveig Alda Halldórsdóttir
Ég býð mig fram til áframhaldandi stjórnarsetu í Öldu – félagi um sjálfbærni og lýðræði 2012-2013. Ég hef setið í stjórn frá upphafi og vil eindregið fá að halda áfram að berjast fyrir lýðræði og sjálfbærni. Ég óska því eftir áframhaldandi stjórnarsetu í félaginu. Við erum skammt á veg komin í breytingum á samfélagsgerðinni og ég tel að Alda sé klárlega vettvangurinn til þess að hafa áhrif á samfélagið.
Ég er með BA gráðu í myndlist, syng í hljómsveit og er þriggja barna móðir.
Halldóra Ísleifsdóttir
Ég er Halldóra Ísleifsdóttir og langar að bjóða mig fram til stjórnarsetu í Öldu aftur þennan vetur. Lýðræðisfélagið Alda er einn fallegasti vettvangur fyrir uppbyggingu samfélagsins sem ég fæ séð á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Og eftir að hafa verið í stjórn þennan tíma (frá stofnun félagsins) er enn í mér baráttuandi og mikill áhugi á starfinu.
Mitt markmið er að taka þátt í starfi málefnahópa eftir mætti, og gera annað það gagn sem þekking mín og verkfærni leyfir. Ég er grafískur hönnuður að mennt, og ég er líka með próf uppá Ritstjórn og útgáfu, en starfa nú sem kennari í grafískri hönnun við Listaháskólann. Starfsreynslan mín er mest úr kennslu og skólastarfi í seinni tíð, en ég hef líka langa reynslu af starfi á auglýsingastofu þar sem nánast allar tegundir fyrirtækja og stofnana hafa verið viðfangsefni. Það er stundum gagnlegt að hafa reynslu af slíku. Nú langar mig að sú reynsla nýtist á vettvangi Öldunnar.
Hjalti Hrafn Hafþórsson
Ég býð mig fram til stjórnarsetu í Öldu. Ég hef B.A. gráðu í heimspeki og starfa nú sem leiðbeinandi á leikskóla. Ég hef starfað með Öldu frá því að félagið var stofnað og setið í stjórn undanfarið ár.
Ásta Hafberg
Ég hef ákveðið að bjóða mig fram í stjórn Öldunnar. Ég er menntaður viðskiptafræðingur og er nú í meistaranámi í Alþjóðaviðskiptum. Ég hef verið mjög aktív í grasrótarstarfi síðustu þrjú árin en er í raun alin upp af foreldrum sem voru/eru bæði aktívistar. Ég er ein af Tunnunum, var einn af stofnendum Grasrótarmiðstöðvarinnar, hef haldið fundi um ýmis þjóðfélagsmál, verið í samstarfshópum um þjóðfélagsmál og verið með í ýmsum hópum sem hafa verið í bréfaskriftum vegna mála Íslands eftir hrun. Má þar nefna AGS hóp sem var stofnaður þegar vitað var að AGS myndi koma að málum Íslands. Ég hef því ennig setið fundi með sendiboðum AGS í Seðlabanka Íslands ásamt seðlabankastjóra og aðstoðarmanni hans.
Ég hef þá trú að lýðræðisumbætur og kerfisbreytingar séu það sem þarf að vera fókusinn í dag þar sem við höfum samfélagslegri skyldu að gegna gagnvart hvort öðru.
Björn Þorsteinsson
Ég starfa við Heimspekistofnun Háskóla Íslands. Ég hef setið í stjórn Öldu frá upphafi og m.a. unnið við mótun hugmynda um lýðræðislegt hagkerfi og lýðræðisvæðingu stjórnmála. Ég hef ómældan áhuga á að starfa áfram að þeim málefnum sem Alda hefur gert að sínum.
Kristinn Már Ársælsson
Ég átti frumkvæði að stofnun Öldu og hef setið í stjórn félagsins fyrstu tvö starfsárin. Alda hefur markað sér sess í íslenskri samfélagsumræðu og vinnur nú að fjölmörgum mikilvægum og uppbyggilegum verkefnum sem ég hef áfram áhuga á að taka þátt í að vinna. Ég er með BA í heimspeki, diplóma til kennsluréttinda og MA í félagsfræði. Ég hef nokkra reynslu af félagsstörfum. Var m.a. formaður félags framhaldsnema við félagsvísindadeild HÍ og sit nú í stjórn Félagsfræðingafélags Íslands. Síðastliðin ár hef ég tekið þátt í starfi Öldu, þar á meðal stýrt málefnahópum sem og tekið þátt í starfi annarra hópa. Þar á meðam má nefna stefnumótun fyrir Stjórnlagaráð, lýðræðisvæðingu stjórnmálanna, tillögum að lýðræðislegum stjórnmálaflokki, stefnu í lýðræðismálum, sjálfbærni og fleiru. Einnig hef ég komið fram fyrir félagið í fjölmiðlum og skrifað greinar á opinberum vettvangi um lýðræðismál. Ég býð mig fram til þeirra verka sem þörf er á til þess að koma á alvöru lýðræði og tel mikilvægt að málefni Öldu verði ofarlega á baugi á komandi kosningavetri. Áfram Alda.
Guðmundur D. Haraldsson
Meðlimur í Öldu frá 2011. Ég hef mikinn áhuga á almennum lýðræðisumbótum í landinu, breytingu á hagkerfi og skemmri vinnutíma.
Vinn fyrir hönd Öldu að styttingu vinnutíma í landinu og sé um vefsíðu félagsins. Er með BS í sálfræði frá HÍ.