Stjórnarfundur Öldu haldinn að kaffihúsinu Stofunni, Vesturgötu 3, Reykjavík. Fundur var settur klukkan 20:10, viðstaddir voru Björn Þorsteinsson, Guðmundur D. Haraldsson (er ritaði fundargerð), Guðmundur Hörður Guðmundsson, Sævar Finnbogason og Júlíus Valdimarsson.
1. Starfið í vetur
Guðmundur D. hefur átt fundi með þingmönnum undanfarið, bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu, um lagafrumvarp um styttingu vinnuvikunnar. Sumir þeirra hafa verið viljugir til að hreyfa við málinu innan sinna flokka, aðrir síður. Sumir bentu þó á að ráðherra þessa mála væri áhugasamur og við hann mætti ræða.
Þetta mál er mjög mikið í deiglunni um þessar mundir, vinsælt meðal almennings, hátt skrifað í kröfugerðum stéttarfélaganna og meira að segja Samtök Atvinnulífsins hafa linast gagnvart málinu. Þá var rætt um styttingu vinnudagsins sem einn möguleika í skýrslu Gylfa Zoega um stöðu mála í aðdraganda kjarasamninga. Rætt var um hvað Alda getur gert til að gera málið meira áberandi, ásamt því að efla félagið sjálft. Stungið var upp á að Alda myndi halda málþing, þar sem ASÍ, BSRB, Eflingu, Samtökum Atvinnulífsins, Samtökum Iðnaðarins, Reykjavíkurborg og ráðherrum yrði boðið að halda erindi. Einnig mögulega einhverjum frá einkafyrirtæki þar sem skemmri vinnuvika hefur verið reynd. Leitast yrði eftir fjármögnun frá stéttarfélögunum og Reykjavíkurborg, en hjá Reykjavíkurborg er opið fyrir umsóknir sem svona málþing myndi falla undir.
Akveðið var um að halda málþingið í byrjun desember 2018 eða byrjun árs 2019, leita fljótt hófana um samstarf og sækja um styrkinn.
2. Bæklingur um lýðræðisleg fyrirtæki
Rætt var að gera bækling um lýðræðisleg fyrirtæki til að kynna hugmyndina fyrir stéttarfélögunum og öðrum. Rætt var um eðli þessara fyrirtækja og ýmislegt tengt þeim. Engin niðurstaða, en fólk er áhugasamt um að láta verða af þessu.
3. Samfélagsbankar
Rætt var um að halda viðburð um samfélagsbanka og útbúa efni um þá, en Guðmundur Hörður er áhugsamur um að vinna í því máli. Tökum það fyrir nánar í vetur. Rætt var um að tala við Ásgeir Brynjar Torfason um málið.
4. Stjórnarskrármálið
Tillaga stjórnlagaráðs hefur nánast verið sett út af borðinu í þeirri nefndarvinnu sem núna fer fram. Það er ljóst að ekki er stefnt að því að notast við tillögur stjórnlagaráðsins óbreyttar, þótt eitthvað af þeirri vinnu nýtist. Rætt var um afstöðu Öldu til þessarar þróunar og hvað skuli gera.
Sævar lýsir borgaraþingum og rökræðukönnunum og hverig nýja stjórnarskrárferlið eigi að nýta rökræðukannanir, ekki borgaraþing. Sævar lýsti borgaraþingum á Írlandi og hvernig það ferli gekk fyrir sig; góð reynsla, fólk talaði saman með yfirveguðum hætti og komst að niðurstöðu í sameiningu.
Rætt var um að Alda beiti sér fyrir því að borgaraþingum verði beitt í núverandi stjórnarskrárferli í stað rökræðukannana, enda hafi almennir borgarar almennt meira um málin að fjalla á borgaraþingum en í rökræðukönnunum og oft fæst ítarlegri og betur ígrunduð niðurstaða.
5. Styrkir
Sótt hefur verið um styrk frá EFLU verkfræðistofu til að vinna efni um lýðræðisleg fyrirtæki. Stefnt er að því að sækja um styrk hjá Reykjavíkurborg til að standa að málþingi um skemmri vinnuviku.
6. Lýðræðisverðlaun
Rætt var lauslega um að Alda veiti lýðræðisverðlaun. Engin ákvörðun var tekin en rætt var um form slíkra verðlauna og hverjir kæmu til greina.
Fundi slitið kl. 22:00