Aðalfundur Öldu, félags um sjálfbærni og lýðræði, haldinn í Múltíkúltí við Barónsstíg 3, Reykjavík, laugardaginn 13. október 2018.
Fundur var settur kl. 14:00.
Viðstaddir voru Guðmundur D. Haraldsson, Hulda Björg Sigurðardóttir, Júlíus Valdimarsson, Guðmundur Hörður Guðmundsson, Bára Jóhannesdóttir Guðrúnardóttir og Björn Þorsteinsson.
1. Kosning fundarstjóra. Guðmundur D. Haraldsson var einróma kjörinn fundarstjóri. Hann lagði til að Björn Þorsteinsson yrði fundarritari og var það samþykkt.
2. Guðmundur flutti skýrslu stjórnar Öldu fyrir starfsárið 2017 til 2018. Starfsemi Öldu undanfarið ár hefur verið með ágætum.
- Alda ályktaði um lögbann á fjölmiðla, þar sem framganga sýslumannsins á Höfuðborgarsvæðinu var fordæmd. Sjá hér.
- Félagið sendi frá sér allnokkrar umsagnir til Alþingis á árinu sem leið, meðal annars um:
- styttingu vinnuvikunnar — frumvarpið var meðal annars lagt fram eftir hvatningu Öldu. Sjá hér.
- um frumvarp um kosningar til Alþingis, sem myndi gera íslenskum ríkisborgurum sem búa erlendis kleift að kjósa án þess að skrá sig á kjörskrá í hvert sinn. Sjá hér.
- um frumvarp um lögbirtingarblaðið og stjórnartíðindi. Sjá hér.
- um kosningarétt til sveitastjórna, þar sem félagið hvatti til að lækka aldurinn í 16 ár. Sjá hér.
- um frumvarp sem afnemur rétt sýslumanna til að setja lögbann á fjölmiðla, enda telur félagið rétt að gera það erfiðara að takmarka málfrelsið fá því sem nú er. Sjá hér.
- Félagið sendi einnig efni til Framtíðarnefndar Alþingis, þar sem var m.a. hvatt til þess að nýta aukna framleiðni til þess að stytta vinnuvikuna, og dýpka lýðræðið með slembivali. Sjá hér. Nefndin hefur undanfarið kallað eftir efni og athugasemdum frá ýmsum félagasamtökum og hópum.
- Félagið er nú komið með vefsíðu á ensku, en sú síða var þýdd fyrir félagið. Markmiðið með henni er að kynna félagið meira erlendis, og gera því kleift að sækja styrki frá fólki erlendis sem hefur áhuga á að styrkja félagið. Styrktarform verður vonandi sett upp á síðunni á árinu.
- Styrktarform er væntanlegt á íslensku síðuna. Vefsíðan var tekin í gegn á árinu og endurbætt svo um munar. Enn má þó bæta úr.
- Búið er að sækja um styrk frá Reykjavíkurborg fyrir félagið, en styrkurinn mun nýtast til að setja saman áætlun fyrir Reykjavíkurborg um innleiðingu slembivals og borgaraþings í stjórnkerfi borgarinnar. Styrkurinn hljóðar upp á um eina milljón króna.
- Markmiðið er einnig að sækja um styrk frá Mannréttinda- og lýðræðisráði Reykjavíkurborgar.
- Félagið fékk enn fremur á árinu styrk frá einkaaðila upp á eina milljón króna. Styrkurinn var tekinn sérstaklega fyrir á stjórnarfundi og samþykktur, enda falla hugmyndir styrkveitandans að hugmyndum Öldu.
- Félagið var með starfsmann í hlutastarfi í 3,5 mánuði. Eftir að þriggja mánaða reynslutímabili lauk var ákveðið af stjórn félagsins að halda ekki áfram þeirri samvinnu.
- Félagið hefur tekið að sér verkefni fyrir stéttarfélag, en þar er um að ræða verkefni um útfærslu skemmri vinnuviku meðal félagsamanna stéttarfélagsins. Verkefnið er í vinnslu.
- Sveitarfélag hefur óskað eftir aðstoð Öldu við innleiðingu skemmri vinnuviku. Verkefnið er í vinnslu.
- Bréf hefur verið skrifað sem ætlunin er að senda til sveitastjórna í landinu, þar sem þeim er boðin þjónusta félagsins vegna ráðgjafar um styrkingu lýðræðisins og styttingu vinnuvikunnar. Bréfið verður sent á næstunni, en það hefur tafist að senda það vegna anna.
- Á vegum félagsins voru skrifaðir fjölmargir pistlar á árinu, meðal annars í Stundina og á Vísi, en einnig á bloggsíðum.
- Fimm stjórnarfundir voru haldnir á árinu, en stjórnarmenn hafa átt í reglulegum samskiptum til að taka smærri ákvarðanir, á meðan stærri ákvarðanir eru teknar á stjórnarfundum. Hugsunin sem stendur er að fjöldi stjórnarfunda verði líklega sá sami, enda hefur þetta fyrirkomulag reynst ágætlega og þeir sem mæta á fundi hefur eingöngu verið fólk úr stjórninni.
3. Guðmundur lagði fram reikninga félagsins, og eru þeir sem hér segir:
Tekjur | |
Heildartekjur (styrkir) | 1.026.257 |
Útgjöld | |
v/verkefna | -456.475 |
v/fj.tekjuskatts | -31 |
v/bankaþjónustu | -339 |
Heildarútgjöld: | -456.845 |
Staða | |
Staða fyrir: | 26.951 |
Heildarstaða nú: | 596.363 |
4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga. Skýrsla stjórnar var rædd vítt og breitt, bæði m.t.t. liðins starfsárs og m.t.t. starfsemi og markmiða félagsins almennt. Að lokum voru skýrsla stjórnar og reikningar samþykkt.
5. Lagabreytingar. Guðmundur gerði grein fyrir þeim breytingum á lögum félagsins sem stjórnin lagði til og höfðu verið kynntar félagsmönnum í aðdraganda aðalfundarins.
Eftirfarandi tillögur til breytinga á lögum félagsins voru mótteknar:
2. gr., viðbót: Félagið skal efna til samstarfs við ríkisvald, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga til að koma markmiðum sínum áleiðis.
5. gr., í fjórðu málsgrein, skal setningin Lagabreytingatillögur skulu berast félaginu a.m.k. fimm dögum fyrir aðalfund og kynntar á vefsvæði félagsins og með tölvupósti til félagsmanna a.m.k. fjórum dögum fyrir aðalfund hljóða svo: Lagabreytingatillögur skulu berast félaginu a.m.k. fimm dögum fyrir aðalfund og kynntar á vefsvæði félagsins.
6. gr. hljóði svo: Í stjórn félagsins skulu sitja 7 manns, kjörin úr hópi félagsmanna. Sé þess óskað á aðalfundi félagsins af hálfu að minnsta kosti 20 félagsmanna, þá bætast við tveir slembivaldir stjórnarmenn úr röðum félagsmanna, ella fer slembivalið ekki fram. Félagsmönnum býðst að óska þess að vera ekki með í slembivalinu áður en valið fer fram. Nýkjörin stjórn framkvæmir slembivalið að loknum aðalfundi. Slembival skal nota til jöfnunar á hlutfalli kynja sé þess þörf. Stjórnarmenn eru talsmenn félagsins og bera ábyrgð á starfsemi þess. Kosning stjórnar skal vera skriflega. Stjórnarmenn eru kjörnir úr hópi félagsmanna og stjórn skiptir með sér verkum. Hætti fimm stjórnarmenn eða fleiri stjórnarmenn milli aðalfunda skal boða til félagafundar þar sem kosnir eru jafn margir nýir stjórnarmenn og sagt höfðu af sér; nema 30 dagar eða skemmri tími séu þar til heimilt er að boða til aðalfundar.
8. gr.,viðbót: Í þessu skyni er stjórn félagsins er heimilt að ráða til félagsins einstaklinga eða lögaðila, gegn greiðslu, til að leysa af hendi verk, hvort sem er til skamms tíma eða langs tíma, stakt verk eða mörg verk. Stjórn félagsins tekur ákvörðun um ráðningu og slit á samstarfi við slíka samstarfsaðila.
9. gr., innskot á eftir fyrstu setningu: Til að óskin teljist gild þurfa meðlimirnir að hafa verið félagar í að minnsta kosti sex vikur.
13. gr. falli niður, en í staðinn komi eftirfarandi greinar:
13. gr. a. Heimilt skal að taka við sértækum styrkjum sem nema allt að 750.000 krónum á ári frá einstaklingum og lögaðilum eða sem nemur jafngildi þess. Móttaka hærri framlaga skal þá og því aðeins heimil að gefandinn deili markmiðum Öldu eða að með öðrum hætti sé ljóst að styrkurinn muni ekki hafa áhrif á stefnu eða markmið félagsins. Skal stjórn fjalla sérstaklega um móttöku slíkra styrkja eða boða til almenns félagsfundar til þess að ræða styrkveitinguna. Móttaka framlaga yfir 2.500.000 krónum skal ætíð hljóta samþykki félagsfundar. Þegar metin er hámarksupphæð skal telja saman einstaklinga og hlutafélög sem hann tengist. Telja skal veitta afslætti, eftirgjöf krafna og allan anna[n] tilflutning á verðmætum sem styrk í þessu samhengi.
13. gr. b. Heimilt skal að taka við almennum framlögum frá almenningi og lögaðilum sem nemur samtals allt að 2.500.000 krónum á ári í heildarframlögum til Öldu. Fjárframlög teljast eingöngu almenn ef almennir borgarar sem og félagsmenn Öldu geta veitt fjárframlögin með aðgengilegum hætti, svo sem í gegnum vefsíðu félagsins. Hámarksupphæð á hvern og einn einstakling sem veitir slíka styrki skal vera 500.000 krónur á ári eða jafngildi þess. Stjórn Öldu er ekki skylt að fjalla um framlög sem þessi í hvert sinn.
13. gr. c. Heimilt skal að taka við fjárframlögum sem greiðslu fyrir tiltekin verkefni sem félagið leysir af hendi, sem og styrkjum sem stjórn félagsins hefur samþykkt að sækja um úr styrktarsjóðum. Ekkert hámark er á slíkum fjárframlögum, en stjórn félagsins metur hverju sinni hvort fjárframlag teljist eðlilegt fyrir hvert og eitt verkefni eða styrk.
Breytingarnar voru samþykktar einróma.
6. Kosning kjörnefndar. Ekki var þörf á kjörnefnd að þessu sinni þar sem framboð til stjórnar voru jafnmörg og áskilinn fjöldi stjórnarmanna.
7. Kjör stjórnar. Í framboði voru Bára Jóhannesdóttir Guðrúnardóttir, Bergljót Tul Gunnlaugsdóttir, Björn Þorsteinsson, Guðmundur Hörður Guðmundsson, Guðmundur D. Haraldsson, Kristján Gunnarson og Sævar Finnbogason. Þau voru öll sjálfkjörin í stjórn.
8. Önnur mál. Júlíus sagði frá verkefnum framundan sem hann hefur áhuga á að vinna í samvinnu við félagið.
Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 16:15.
[…] Fundargerð fyrir fundinn má finna hér. […]