Frá byrjun árs 2022 hefur Alda tekið þátt í áhugaverðu fjölþjóðlegu samstarfsverkefni, Lighthouse Keepers, Business and Human Rights In CCE and Central Asia, sem lauk nú í sumar. Aðkoma Öldu að verkefninu var fjölþætt. Alda stóð fyrir spennandi málstofu Gagnsæi, siðareglur og tengsl félagasamtaka við viðskiptalífið, í Veröld, húsi Vigdísar, þann 29, júní 2022 og framhaldsmálsstofu sem fram fór á Netinu og nefndist Siðareglur: Leiðarljós eða refsivöndur? Unnin var skýrsla um niðurstöður þessara viðburða sem er ein af afurðum verkefnisins. Auk þess deildu fulltrúar frá Öldu reynslu sinni og þekkingu gegnum þátttöku í ýmsum öðrum viðburðum á vegum verkefnisins og bæði á netinu og á lokaráðstefnu verkefnisins í Varsjá.
Lighthouse Keepers verkefnið var styrkt af Active Citizens fund. Viðfangsefni samstarfsins var í megindráttum áskoranir tengdar mannréttindum og viðskiptalífi og samspili þessara þátta og var megintilgangur verkefnisins að deila reynslu og þekkingu og mynda samstarfsvettvang og tengsl milli aðila í þáttökulöndunum. Fyrir utan ráðstefnur og málstofur var í þeim tilgangi einnig staðið fyrir sumarskóla með þátttakendum frá ýmsum löndum. Þegar kemur að mannréttindum, gagnsæi og vörnum gegn spillingu má segja að áskoranirnar séu ólíkar milli landa – ólík stjórnmálamenning, ólík menning í viðskiptalífinu, aðstæður frjálsra félagasamtaka ólíkar og réttindi neytenda og almennings mistryggð milli landa. Því er mikilvægt fyrir þá sem láta sig þessi mál varða að mynda tengsl og að læra af reynslu annarra.
Hluti þátttakenda í lokaráðstefnunni í Varsjá.
Það hefur bæði verið gagnlegt og lærdómsríkt fyrir Öldu að taka þátt í þessu áhugaverða samstafi og vonandi gefst tækifæri til þess að vinna að fleiri verkefnum með samstarfsaðilunum í framtíðinni.
Meðfylgjandi er samtakt PHIRB um verkefnið.