Hér er einföld og kröftug hugmynd fyrir 21. aldar velferðarsamfélag: Að allir fái greidda fjárupphæð frá ríkinu sem nægi fyrir grunnframfærslu þeirra. Þessi fjárupphæð yrði borguð út á einstaklingsgrundvelli og ekki á nokkurn hátt skilyrt, hver og einn fengi hana greidda óháð vinnu eða öðrum tekjum.

Kostir slíks fyrirkomulags eru margir. Sá fyrsti og augljósasti er sá að fólk yrði ekki lengur háð atvinnu sinni um lífsviðurværi. Eiginlegri fátækt yrði útrýmt á einu bretti. Verkafólk hefði sterkari samningsstöðu gagnvart vinnuveitendum og aukna möguleika á að stjórna því hvað það vinnur mikið. Það yrði auðveldara fyrir fólk að fara út í eigin rekstur vitandi það að grunnframfærsla þeirra væri tryggð og þannig yrði kerfið hvetjandi fyrir sprotafyrirtæki. Menningarlega yrðu áhrifin einnig augljós, fólk hefði tíma og tækifæri til að sinna listum og menningu án þess að vera stöðugt undir þeirri pressu að framleiða aðeins list sem söluhæfa vöru. Fleiri myndu einnig hafa möguleika á að mennta sig þar sem grunnframfærsla væri tryggð en ekki háð því að taka lán. Þegar svo sígur á seinni hluta ævinnar hefði fólk mun meiri stjórn yfir því hvenær og undir hvaða kringumstæðum það hættir að vinna.
Í stuttu máli þá hefur skilyrðislaus grunnframfærsla mjög mikla möguleika til að bæta lífsskilyrði fólks en jafnframt til að stuðla að heilbrigðara og mannlegra samfélagi. Fólk virðist þó oft fara í varnarstellingar þegar minnst er á þessa hugmynd og ein spurning kemur alltaf upp: Er þetta mögulegt, hvaðan eiga peningarnir að koma?

Áður en lengra er haldið í umræðunni um það hvort þetta sé mögulegt skulum við hafa í huga að grunnframfærsla á Íslandi er nú þegar tryggð samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar. Það er hinsvegar það sem kalla mætti skilyrta grunnframfærslu. Fólk fær hana ekki greidda frá ríkinu nema það uppfylli ákveðin skilyrði eins og sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysi, og svo framvegis. Skilyrt grunnframfærsla hefur ákveðna ókosti. Í fyrsta lagi er hún þung í rekstri, það þarf að afla upplýsinga um það hvort fólk uppfylli þau tilteknu skilyrði sem þarf til að frá greiðslu frá ríkinu. Halda þarf til haga upplýsingum um tekjur, heilsu og hagi fólks og það kostar gífurlega skriffinnsku. Ef skilyrðin yrðu fjarlægð og allir fengju einfaldlega greidda grunnframfærslu skilyrðislaust þá myndu skriffinnsku báknin á bak við atvinnuleysisbætur, örorkubætur, húsaleigubætur, námslán, ellilífeyri, barnabætur, fæðingarorlof og allar hinar bæturnar og greiðslurnar leggjast niður.
Í öðru lagi þá getur skilyrt grunnframfærsla virkað letjandi á fólk. Það getur einfaldlega verið hagstæðara að vera á atvinnuleysisbótum en að fá sér vinnu og því er hugsanlegt að einhverjir kjósi að lifa á bótunum jafnvel þó að vinna sé í boði.  Ef framfærslan væri aftur á móti skilyrðislaus þá myndi einhver vinna alltaf bæta hag viðkomandi þar sem að hún leggst ofan á grunnframfærsluna.
Í þriðja lagi þá telst það oft vera lítillækkandi eða niðurlægjandi að uppfylla skilyrðin fyrir skilyrta framfærslu. Það er einfaldlega ekki samboðið eiginlegri virðingu manneskjunnar að samfélagið skuli flokka það í hópa. Ef grunnframfærslan væri skilyrðislaus þá væri slík flokkun einnig úr sögunni. Fólk væri ekki lengur að leita til stofnanna að biðja sér ölmusu heldur væri það viðurkenndur réttur hvers og eins að lifa mannsæmandi lífi.

Fyrir utan sparnaðinn við það að leggja niður skriffinnsku báknið sem sér um skilyrtu grunnframfærsluna eru til aðrar leiðir við fjármögnun hugmyndarinnar. Til dæmis er það sífellt að verða almennari og viðurkenndari hugmynd að auðlindir þjóðarinnar tilheyri allri þjóðinni. Hví ættu ekki tekjur af þessum auðlindum að renna jafnt til allra með mánaðarlegum greiðslum? Hægt væri að koma á fót auðlindasjóði til að fjármagna allavega hluta grunnframfærslunnar. Þetta hefur verið reynt með mjög góðum árangri í Alaska fylki í Bandaríkjunum en þar var stofnaður olíusjóður árið 1977 og síðan 1982 hafa allir íbúar fylkisins fengið skilyrðislausa greiðslu úr sjóðnum einu sinni á ári. Upphaflega var greiðslan 1000 $ en hún hefur farið hækkandi og nemur nú um 1600 $ (u.þ.b. 200.000 kr.) á ári. Ekki full grunnframfærsla en þó peningur sem munar um og sýnir það að auðlindasjóðir eru bæði mögulegir og æskilegir. Allir eiga að njóta auðlinda landsins ekki aðeins örfáir eigendur stórfyrirtækja.
Þar sem að grunnlaunin er skattfrjáls og allir fá þau greidd væri heldur ekki út úr myndinni að hækka tekjuskatt af þeim tekjum sem leggjast ofan á grunnlaunin. Jafnari dreifing á auðæfum gæti einnig leitt af sér aukna neyslu sem þýðir í stuttu máli að meiri peningar eru í umferð í samfélaginu og það örvar hagkerfið. Skatttekjur af virðisaukaskatti og fyrirtækjaskatti geta þannig borgað hluta af grunnframfærslunni án þess að fólk verði endilega mikið vart við það.
Einnig má ætla að skilyrðislaus grunnframfærsla leiði til styttri vinnutíma og aukinnar menntunnar. Það er þaulrannsakað og margsannað að styttri vinnutími og meiri tekjur leiða til bættrar andlegrar og líkamlegrar heilsu. Það má því ætla að eitthvað sparist í heilbrigðismálum. Aukið menntunarstig þjóðar hefur einnig fylgni við aukna velmegun.

Það er vel mögulegt að fjármagna skilyrðislausa grunnframfærslu. Það krefst endurskipulagningar og endurhugsunar á núverandi kerfi. En það er vel mögulegt! Þó eru ákveðnir óvissuþættir sem rétt er að minnast á. Til dæmis er ekki vitað hversu hátt hlutfall manna myndi hætta að vinna og einfaldlega lifa af grunnframfærslunni. Ef að of hátt hlutfall fólks hættir að taka þátt í hakerfinu þá hrynur það eins og spilaborg. Rannsóknir á þessu eru takmarkaðar en þó eru til einhverjar kannanir, til dæmis á fólki sem hefur unnið stöðuga framfærslu í skafmiða leikjum. Niðurstöður þeirra kannana sýna að fólk er ólíklegt til að hætta alveg að vinna, nema þá helst hjá pörum þar sem báðir aðilar eru í vinnu, þá eru nokkrar líkur að annar aðilinn hætti.
Það ætti líka að taka það með í reikninginn að það er alls ekki æskilegt að allir séu í vinnu. Það er margt sem fólk tekur sér fyrir hendur sem mikið gagn og hagur er af fyrir þá einstaklinga sjálfa sem og þjóðina alla sem aldrei verður metið til fjár og enginn getur haft atvinnu af. Þar tel ég ekki síst uppeldi barnanna okkar sem í alltof stórum mæli er sinnt af ríkisstofnunum nú til dags af því að báðir foreldrar eru í vinnu. Steinn Steinarr orðaði þetta hugsanlega best:

Því einnig ég man þann lærdóm, sem lífið mér kenndi,
hve lágt eða hátt, sem veröldin ætlar mér sess:
þau bláköldu sannindi, að allt, sem innt er af hendi,
í öfugu hlutfalli borgast við gildi þess.

Skilyrðislaus grunnframfærsla er bæði möguleg og æskileg. Hún myndi ekki eingöngu bæta efnahagslega afkomu allra heldur hefur slíkt kerfi allar forsendur til þess að breyta grunn gildum og lífsviðhorfum þjóðarinnar. Fólk gæti loksins hætt að hugsa stöðugt um peninga og farið að taka þátt í lífinu á sínum eigin forsendum, unnið að því sem mest er um vert, en borgar minnst.

Hjalti Hrafn Hafþórsson

8 Thoughts to “Skilyrðislaus grunnframfærsla”

  1. Sigrún Jóna

    Á þetta að vera fyndið???

    1. Hjalti Hrafn Hafþórsson

      Nei þetta er ekkert grín. Kerfi sem eru mjög ólík þeim sem við búum við núna eru fullkomlega möguleg og stundum æskileg. Þó að þau séu ekki það sem við erum vön er ekki þar með sagt að þau séu brandari.

      Ef þú vilt kynna þér málið nánar þá er hér hlekkur á greinasafn en þar skrifa nokkrir þektir og virtir félagsfræðingar og hagfræðingar um þetta mál. Ég mæli sérstaklega með Philippe van Parijs.

      http://www.ssc.wisc.edu/~wright/Redesigning%20Distribution%20v1.pdf

  2. gummih

    Það mætti líka fella persónuafsláttin niður – það myndi vega talsvert á móti kostnaðinum og einfalda líka allt kerfið.

  3. Margrét

    Mundi ekki stór hópur fólks bara hætta að vinna með tilheyrandi skorti á vinnuafli?

    1. Kristján Hrannar

      Margrét: Staðreyndin er sú að tölvuforrit og vélar hafa tekið yfir miklu fleiri störf en þau sem skapast hafa á móti – sem ætti að vera hið besta mál ef núverandi fyrirkomulag meikaði einhvern sens 🙂 Atvinnuleysi eins og við skilgreinum það er í rauninni jákvætt og hvetur til nýsköpunar, ef fólk hefði skilyrðislausa grunnframfærslu. Sjá grein sem ég skrifaði á Kjarnann um þetta: http://kjarninn.is/2015/03/thegar-velmennid-stal-storfunum/

    2. Leifur

      Hvað myndir þú gera?

      Stór hópur fólks myndi sennilega endurskoða atvinnu sína. Einhverjir myndu fara í nám, aðrir kannski ferðast aðeins. Mögulega myndu þeir sem notfæra sér bótakerfið nú þegar til að komast hjá vinnu halda því áfram.. en ef allir fengju þetta, myndi engum líða eins og þau væru að sníkja hjá kerfinu sem gæti mögulega aukið sjálfstraust þeirra til að fara að gera eitthvað nytsamlegt. Og flestir, spurðir um hvort þau myndu ennþá vinna, segjast myndu vilja leggja sitt af mörkum til samfélagsins áfram, það eru fæstir sem langar bara til að hanga allan daginn. Þetta er klárlega besti hvatinn fyrir einkaframtak.
      Sumir munu kannski vilja fara meira út í umönnun, jafnvel sjá um ættingja sína í veikindum.
      En það mun alltaf einhver vera til í að smíða, búa til föt, reka verslun, eða bara einhversskonar þjónustu framtak sem þau hafa brennandi áhuga á að skapa til þess að auka tekjur sínar.
      Munurinn er bara sá að þú veist að í hvert skipti er manneskjan ekki að gera þetta af hræðslu við skort, heldur af því að hana langar virkilega til að eltast við þetta svið..
      Fólk er hjálpsamt. Og það er til fullt af fólki sem elskar vinnuna sína
      Svo eru skítadjobbin…
      Ef þau eiga sér ekki tækni lausn, verður annað hvort að greiða sæmandi laun fyrir starfið, eða gera það sjálfur.

      Málið er nefninlega að með tækniframförum erum við búin að skapa skort á vinnu. En við erum samt að framleiða meira. Sem er góður hlutur, en samt erum við alltaf að vinna. Við þurfum ekki vinnu, við þurfum að lifa. Það þarf að aðlaga kerfið að þessu með því að tryggja líf allra (sósíalismi) svo þau geti betur fúnkerað inní verðmætasköpunarkerfi eins og efnahagurinn á að vera (frjálshyggja).
      Munurinn er sá að það mun enginn geta notfært sér aðra manneskju með peningum því þeir verða tryggðir öllum.

      Myndir þú hætta að vinna?

  4. […] in Iceland. There are a couple of groups that I know of that have put UBI on their agenda. One is Alda, Association for Sustainability and Democracy, the other is the Icelandic Humanist Party which ran in the 2013 national […]

  5. Jón

    Frábær hugmynd. Mér finnst samt að það mætti taka þetta lengra og setja í stjórnarskrá að allir ættu að fá að vera ríkasti einstaklingurinn í heiminum. Það er vel hægt að fjármagna það! Það þarf bara viljann og rétta viðhorfið! Ef allir eru ríkasti einstaklingurinn í heiminum þá er engin fátækt lengur og öll félagsleg vandamál hverfa á einu bretti. Það væru líka allir svo ríkir að það gætu allir fjármagnað öll nýsköpunarfyrirtæki sem þyrfti og svo myndu allir borga auðlegðarskatt svo það væri alveg fullt af skatttekjum og þannig yrði ekkert mál að fjármagna þetta verkefni. Ég bara skil ekki af hverju það er ekki löngu búið að græja þetta!

Comments are closed.