Alda – félag um sjálfbærni og lýðræði telur fullreynt að Alþingi og stjórnmálaelítan leiði stjórnarskrármálið til lykta. Allt frá því að krafa búsáhaldabyltingarinnar um nýja stjórnarskrá sem gerð yrði af fólkinu í landinu var tekin upp á Alþingi hefur málið einkennst af klúðri, deilum og vísvitandi aðgerðum til þess að eyðileggja ferlið. Ljóst er að þorri stjórnmálamanna hefur lítinn sem engan áhuga á því að stjórnarskráin verði endurskoðuð með víðtækri þátttöku almennings og að lokum samþykkt af fólkinu í landinu. Fyrir vikið hefur stór hluti almennings aldrei öðlast trú á ferlinu og nú hefur það sýnt sig að vantraustið var á rökum reist.

Alda kom athugasemdum á framfæri við Alþingi í upphafi ferilsins og reglulega eftir það um mikilvægi þess að ferlið yrði víðtækt og að nýttar yrðu aðferðir þátttökulýðræðis sem reyndar hafa verið erlendis í sambærilegri vinnu með góðum árangri. Má þar nefna slembivalsþing sem haldið var í Bresku Kólumbíu og umfangsmikil ákvarðanatökuferli líkt og þau sem haldin eru árlega, t.d í Porto Alegre í Brasilíu. Félagið taldi nauðsynlegt að endurskoðunarferli stjórnarskrárinnar fæli í sér opna fundi um allt land og formlega aðkomu almennings á mörgum stigum. Umræða í fjölmiðlum hefði verið of lítil og ómarkviss. Gefa þyrfti ferlinu góðan tíma. Fá verkefni séu eins mikilvæg og endurskoðun stjórnarskrár.

Alda minnir á að í gegnum tíðina hafi valdhöfum oft reynst erfitt að gera breytingar á stjórnarskrá og reynt að koma í veg fyrir aðkomu almennings í lengstu lög.

Alda telur nauðsynlegt að stjórnarskrárferlið verði tekið til endurskoðunar þegar í stað og fært í ásættanlegan farveg. Sem stendur er ferlið lítið annað en sýnidæmi um það hversu lítið og veikburða lýðræðið er í samfélagi okkar.