Ný stjórn var kosin fyrir árið 2011 -2012. Stjórnina skipuðu Björn Þorsteinsson, Halldóra Guðrún Ísleifsdóttir, Valgerður Pálmadóttir, Helga Kjartansdóttir, Sólveig Alda Halldórsdóttir, Hjalti Hrafn Hafþórsson, Kristinn Már Ársælsson, Magnús Björn Ólafsson og Sigrún Birgisdóttir.

Fimm stjórnarmenn sátu áfram og fjórir nýir bættust við.

Á síðasta aðalfundi var lögum félagsins breytt. Nafni félagsins var formlega breytt í Alda – félag um sjálfbærni og lýðræði, en þó er Lýðræðisfélagið Alda enn við lýði. Betra þótti að nafnið væri lýsandi fyrir stefnu félagsins og hefur félagsmönnum þótt sjálfbærnin hafa orðið útundan í allri umræðu um félagið.

Einnig var lögð til breytingatillaga um kosningu til stjórnar. Tekin var ákvörðun um að á aðalfundi 2012 yrðu slembivaldir tveir félagsmenn til stjórnarsetu og stjórnarmönnum fækkað í níu. Ný stjórn sem verður kosin á aðalfundi 2012 mun koma sér saman um aðferð við slembivalið og framkvæma það í kjölfar stjórnarfundar 2. október n.k. Það er mikið gleðiefni að fá nú slembivalda stjórnarmenn.

Fráfarandi stjórnarmönnum eru færðar sérstakar þakkir.

Málefnahópar og starfið á árinu

Starf málefnahópa hefur verið öflugt og fleiri hópar hafa bæst við þá þrjá hópa sem hafa verið starfandi frá upphafi. Á árinu bættust við hópar um skilyrðis- lausa grunnframfærslu, styttingu vinnutíma og menntakerfið. Málefnahóparnir eru hjartað og kjarninn í starfi Öldu. Félagsmenn eru hvattir til að stofna málefnahópa til skemmri eða lengri tíma, í stærri eða smærri verkefni.

Hópur um skilyrðislausa grunnframfærslu

Þrír fundir voru haldnir um grunnframfærslu en málefnahópurinn var stofnaður á árinu 2012. Talsverður áhugi var á efni hópsins og var m.a. fjallað um störf hans í Víðsjá á Rás 1. Einnig var viðfangsefni hans til kynningar í Róttæka sumarháskólanum. Áfram verður unnið að þessu málefni.

Umsjón með hópnum hafði Hjalti Hrafn Hafþórsson.

Hópur um styttingu vinnutíma

Stofnaður að frumkvæði félagsmanns, Guðmundar D. Haraldssonar, en hann hafði um nokkurt skeið skoðað möguleika á styttingu vinnutíma og skrifað greinar um það efni í blöð.

Hópurinn setti saman skýrslu/bækling með tillögum að styttingu vinnutíma og sendi öllum verkalýðsfélögum á landinu eintak af bæklingnum (http://alda.is/?p=1603). Bæklingurinn var einnig sendur til Samtaka Atvinnulífsins, Viðskiptaráðs og nokkurra ráðuneyta. Viðbrögð voru góð og hafa fulltrúar hópsins hitt fulltrúa stéttarfélaga ásamt fulltrúa ASÍ. Fjölmargir fleiri fundir eru á dagskrá með stéttarfélögum. Stefnt er á fleiri fundi í vetur þ.á.m. úti á landi.

Alda lagði þar til að venjuleg vinnuvika yrði stytt í 30-32 vinnustundir og svo enn frekar í framhaldinu.

Umsjón með hópnum hafði Guðmundur D. Haraldsson.

Hópur um menntakerfið

Þar hefur veirð unnið mikið og gott starf. Margir hafa sýnt auknu lýðræði á menntasviðinu áhuga. Er það ekki síst vegna breytinga sem gerðar voru á aðalnámskrá nýlega þar sem aukin áhersla var á lýðræði og sjálfbærni.

Kristinn Már og Hjalti Hrafn kynntu hugmyndir Öldu á starfsdegi leikskólakennara. Þá hefur Hjalti Hrafn verið með kynningar í skólum og eru fleiri slíkar á dagskrá á næstunni. Ljóst er að mikill áhugi er á lýðræðisvæðingu í skólum landsins og fjölmörg tilraunaverkefni komin af stað eða í burðarliðnum. Hópurinn vinnur einnig að tillögum í þessum efnum og frekari fræðslu.

Umsjónarmenn voru Valgerður Pálmadóttir og Hjalti Hrafn Hafþórsson.

Málefnahópur um lýðræðisvæðingu stjórnmálanna

Hópurinn vann að ósk ýmissa smærri framboða til Alþingis, tillögur að skipulagi fyrir lýðræðislegan stjórnmálaflokk. Tillögurnar voru unnar í opnu ferli innan Öldu, þar sem var góð þátttaka og umræða. Tillögurnar voru gefnar út formlega (http://alda.is/?p=1551). Nú þegar hefur ein stjórnmálahreyfing, Dögun, grundvallað eigið skipulag á tillögum Öldu.

Hópurinn vann einnig tillögu að stefnu í lýðræðismálum fyrir stjórnmálaflokka (http://alda.is/?p=1539). Bæði sú tillaga og um lýðræðislega skipan stjórnmálaflokks verða kynntar nánar á næstunni fyrir stjórnmálaflokkum og almenningi.

Alda hefur að undanförnu unnið með innanríkisráðuneytinu að framhalds-ráðstefnu, af þeirri sem haldin var í fyrra, um lýðræði. Áætlað er að hún verði haldin í nóvember 2012 og ráðgert að fá erlenda fyrirlesara frá New York á vegum Öldu til að segja frá reynslunni af þátttökufjárhagsáætlunargerð þar.

Þá vinnur hópurinn að gagnagrunni um mismunandi form þátttökulýðræðis. Og einnig er hafin undirbúningsvinna að því að halda þátttökuferli meðal almennings um samfélagsmál.

Hópurinn skipti um nafn og heitir nú málefnahópur um alvöru lýðræði.

Umsjónarmenn voru Björn Þorsteinsson og Kristinn Már Ársælsson.

Málefnahópur um sjálfbærni

Sjálfbærnihópurinn vann að þremur verkefnum fyrst og fremst á nýliðnum vetri: Sjálfbærniþorpi að frumkvæði Guðna Karls Harðarsonar, stefnu fyrir stjórnmálaflokka í sjálfbærnimálum og stefnu um endurnýtingu/endurhönnun.
Stefna í sjálfbærnimálum er langt komin og má vænta þess að gengið verði frá henni á næstunni.

Stefnt er að því að halda ráðstefnu um sjálfbærnimál í vetur, hugsanlega fyrir áramót. Þar verði fjallað um stefnumál og sjálfbærniþorp.

Örlítið hefur vantað upp á þátttöku í þessum málefnahópi og félagsmenn hvattir til þess að ljá honum lið, það vantar aðeins herslumuninn til að hann komist vel í gang.

Umsjónarmenn voru Halldóra Ísleifsdóttir og Kristinn Már Ársælsson

Málefnahópur um lýðræðislegt hagkerfi

Kraftur var í hópnum sem lauk við tillögu að þingsályktun um lög um lýðræðisleg fyrirtæki (workers co-op) (http://alda.is/?p=1586). Sólveig Alda og Hjalti Hrafn fóru fyrir hönd hópsins á fund með þingflokki Hreyfingarinnar í kjölfarið og kynnti þeim hugmyndirnar. Hreyfingin lýsti yfir áhuga á að tala fyrir slíkri hugmynd á þinginu. Nú í haust hefur Birgitta Jónsdóttir og þingflokkurinn farið með þingsályktunartillöguna fyrir nefndarsvið og sett hana sem eitt af sínum forgangsmálum í vetur. Unnið hefur verið að því að fá stuðning við tillöguna og hefur nú þegar fengist stuðningur frá óháðum þingmönnum, úr Samfylkingu og Framsóknarflokki. Vonast er til að tillagan fáist flutt og samþykkt sem fyrst svo fá megi nothæf lög fyrir lýðræðisleg fyrirtæki sem fyrst.

Stefnt var að ráðstefnu um lýðræðisleg fyrirtæki á þessu ári en vegna þess að árið 2012 er ár samvinnufyrirtækja hjá SÞ reyndist erfitt að fá fyrirlesara til landsins. Þeir reyndust allir uppbókaðir fyrir haustið enda margir spennandi fyrirlestrar og ráðstefnur um lýðræðisvæðingu efnahagslífsins haldnir erlendis.

Umsjónarmenn hópsins voru Helga Kjartansdóttir, Sólveig Alda Halldórsdóttir og Hjalti Hrafn Hafþórsson.

Einnig er áhugi fyrir stofnun málefnahóps um fjölmiðla og hafa nokkrir félagsmenn lýst sig mjög áhugasama fyrir þátttöku í slíkum hópi. Vonumst við til að hægt verði að boða slíkan fund fljótlega til að kanna áhuga á málefninu.

Umsagnir og ályktanir

Alda sendi frá sér umsögn um tillögur stjórnlagaráðs í byrjun desember (http://alda.is/?p=977). Þar voru gerðar athugasemdir við þann feril sem breytingar á stjórnarskrá höfðu verið settar í og einnig efnislegar athugasemdir við tillögurnar. Alda lagði til að breytingarferlinu yrði haldið áfram en að öðrum kosti lögð í dóm almennings.

Ályktun um ný sveitarstjórnarlög var samþykkt í janúar 2012 (http://alda.is/?p=1167). Í henni segir m.a.:

“Alda óskar almenningi á Íslandi til hamingju með hænuskref í átt að alvöru lýðræði sem felst í rétti til þess að boða til borgarafunda og atkvæðagreiðslna í sveitarfélögum um einstök mál.”

Félagið hafði áður sent Alþingi umsögn um frumvarpið þar sem hvatt var til þess að tekin yrðu stærri skref og fleiri, s.s. heimild fyrir þátttökuferlum og slembivali.

Utanríkismálanefnd Alþingis óskaði umsagnar Öldu um tillögu að þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að NATO (http://alda.is/?p=1183). Félagið sendi inn umsögn og fóru Hjalti Hrafn og Kristinn Már á fund nefndarinnar. Í umsögn félagsins var þeirri afstöðu lýst að aðildin væri kjörið mál til þess að leggja í atkvæðagreiðslu þjóðarinnar.

Alda sendi frá sér ályktun um stjórnarskrármálið í apríl (http://alda.is/?p=1446). Þar var fyrst og fremst verið að lýsa yfir vantrausti á afgreiðslu stjórnmálastéttarinnar á málinu. Félagið taldi rétt að halda ferlinu áfram.

Haldinn var stjórnarfundur á baráttudegi verkalýðsins, 1. maí 2012, þar sem samþykkt var ályktun varðandi þróun mála frá hruni (http://alda.is/?p=1466). Alda lýsti þar yfir vonbrigðum með stjórnmálastétt landsins og telur hana hafa brugðist almenningi. Stjórnmálaflokkar hérlendis sem erlendis þurfa að axla þá ábyrgð sem þeim ber og taka alvarlega þau brýnu úrlausnarefni sem við stöndum frammi fyrir. Alda ályktaði að ekki verði lengur undan því vikist að ráðast í gagngerar þjóðfélagsbreytingar sem feli í sér að lýðræðið verði í reynd að því sem alltaf stóð til það að það yrði: stjórnarfar þar sem valdið er í höndum almennings og almannahagur og hagsmunir komandi kynslóða eru hafðir að leiðarljósi.

Samþykkt var ályktun á stjórnarfundi í júní um stjórnmálaástandið (http://alda.is/?p=1589). Þar var lýst yfir áhyggjum yfir því djúpa vantrausti sem ríkir á fulltrúalýðræðinu og lagðar fram tillögur að breytingum á lýðræðinu til batnaðar.

Þá var einnig afgreidd ályktun um fjölmiðla (http://alda.is/?p=1599). Þar var lýst yfir áhyggjum af stöðu fjölmiðla sem margir sérfræðingar telja að uppfylli ekki skyldur sínar. Alda taldi rétt að fjölmiðlar yrðu endurskipulagðir, þar á meðal að allir fjölmiðlar skyldu vera lýðræðislega reknir, þar sem hver starfsmaður hafi eitt atkvæði.

Loks var samþykkt á stjórnarfundi í júní ályktun um forsetakosningarnar (http://alda.is/?p=1594). Þar var ítrekuð afstaða félagsins um að rétt væri að leggja embættið niður.

Þátttaka í fundum og fyrirlestrum

Málstofa um nýja stjórnarskrá var haldin á Bifröst í nóvember (http://alda.is/?p=891). Bryndís Hlöðversdóttir og Jón Ólafsson fluttu erindi og sátu í pallborði ásamt Kristni Má frá Öldu og Katrínu Fjeldsted fulltrúa í stjórnlagaráði.

Kristinn Már stýrði málþingi Húmanista undir heitinu Jarðarbúar – ein mennsk þjóð og Hjalti Hrafn flutti þar stutt erindi fyrir hönd Öldu. Málþingið fór fram í desember (http://alda.is/?p=1008).

Alda hélt kynningarfund undir titilinum Lýðræði er lykillinn í janúar fyrir fullu húsi í Grasrótarmiðstöðinni um tillögur sínar að skipulagi lýðræðislegs stjórnmálaflokks (http://alda.is/?p=1156). Það voru Kristinn Már og Guðmundur D. sem kynntu tillögurnar og tóku þátt í umræðum. Erindi þeirra og fleiri frá fundinum má finna á youtube.

Björn Þorsteinsson stýrði opnum fundi um tillögur stjórnlagaráðs í Grasrótarmiðstöðinni í desember (http://alda.is/?p=994).

Hjalti Hrafn og Halldóra Ísleifsdóttir tóku þátt í málefnafundi hjá Heimdalli, félagi ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, um lýðræði (http://alda.is/?p=1179).

Öldu var boðið að taka þátt í stórri alþjóðaráðstefnu um lýðræði, samfélagsáföll og pólitísk umbreytingaskeið (http://alda.is/?p=1519). Yfirskrift ráðstefnunnar var In/Equalities, Democracy and the Politics of Transition. Hún var haldin dagana 10.-12. maí í Háskóla Íslands og Kristinn Már sat þar í pallborði.

Hjalti Hrafn og Dóra Ísleifs héldu fund með Píratapartíinu um skipulag stjórnmálaflokka. Þar var farið yfir tillögur Öldu að lýðræðislegri skipan stjórnmálaflokka og spunnust góðar umræður.

Hjalti Hrafn fór á fund með sendinefnd ESB um pólitísk grasrótarfélög.

Listamannahópurinn Skæri Blað Steinn á Seyðisfirði fékk fulltrúa Öldu til að ræða aðferðir fyrir smærri samfélög til að verða sjálfbær og auka lýðræði og þátttöku íbúa í samfélaginu. Kristinn Már flutti þar erindi fyrir Öldu. Góð mæting var á fundinn og mikill áhugi á starfi Öldu. Möguleiki er á frekara samstarfi við Skæri Blað Steinn.

Hjalti Hrafn stjórnarmaður í Öldu hélt námskeið í Róttæka Sumarháskólanum um skilyrðislausa grunnframfærslu í ágúst við góðan orðstír. Áheyrendur sátu í stórum hring, fyrirlesturinn var lifandi og góðar umræður spunnust.

Í september var Sólveig Alda með erindi á borgarafundi og sat þar í pallborði (http://alda.is/?p=1877). Borgarafundurinn var haldinn á vegum Stjórnarskrárfélagsins og er hluti af fundaröð ætlaðri að fræða og hvetja til umræðu um nýja stjórnarskrá. Umræðuefni fundarins snérist um þau mögulegu áhrif sem þjóðaratkvæðagreiðslna að frumkvæði kjósenda gætu haft á stjórnmál.

Fjölmiðlar

Fjallað var um störf Öldu á liðnu starfsári í nær öllum fjölmiðlum. Sjónvarpinu, Stöð 2, Bylgjunni, Rás 1, Rás 2, Útvarpi Sögu og fjölmörgum vefmiðlum.

Fundir

Á árinu hefur félagið haldið alls 45 fundi málefnahópa og stjórnar og mæting verið góð. Engin starfsemi var í júlí og stjórnarfundi ágústmánaðar var seinkað um viku. Ekki þótti stætt á að halda fundinn strax eftir verslunarmannahelgi.

Félagsmenn

Félagið hefur ekki eingöngu vaxið og dafnað í starfi á árinu heldur einnig hvað fjölda félagsmanna snertir. Nú telur félagið 184 manns og hefur þeim fjölgað um 60% á starfsárinu. Sérstaklega hefur félögum fjölgað á árinu 2012. Skráning í félagið er regluleg og að jafnaði bætast nokkrir við í hverri viku.

Félagsmenn eru hvattir til að láta í sér heyra og senda tölvuskeyti, skrifa greinar á heimasíðu, koma hugmyndum sínum á framfæri og mæta á fundi.

Heimasíða

Heimasíðan verður sífellt virkari og stefnan er að gera hana enn hressari. Nú hefur stjórn falið Guðmundi D. Haraldssyni um að taka að sér ritstjórastöðu fyrir síðuna. Fær hann miklar þakkir fyrir enda er umsjón heimasíðu tímafrek og vegna anna hafa stjórnarmenn ekki séð sér fært að annast hana sem skyldi. Þegar hefur greinum og vísunum í áhugavert efni á síðunni fjölgað verulega. Alls hafa birst 11 greinar á vegum Öldu. Ráðgert er að síðan verði virkari og að þar hefjist regluleg greinarskrif á næstunni.

Húsnæði

Veran í Grasrótarmiðstöðinni hefur verið Öldu góð og hér fer fram mikið og gott starf. Á starfsárinu var reglum húsnæðisins breytt með aðkomu Öldu á þann veg að jafnræði sé betur tryggt með þeim félögum sem þar starfa.

Alda úti á landi

Heilmikil umræða, bæði óformleg og formleg hefur verið um starf Öldu á landsbyggðinni. Þó nokkuð margir félagsmenn þar hafa áhuga á að efla starfið og vonumst við til þess að næsta árið verði tekin skref í þá átt.

Er þá upptalin formleg starfsemi félagsins. Félagsmenn hafa átt í miklum óformlegum samskiptum um starf og stefnu félagsins á ýmsum vettvangi. Oft hefur verið leitað til félagsins eftir óformlegu áliti um hin ýmsu mál og fjölmargir haft samband.

Sem fyrr er gríðarlegur meðbyr með félaginu og eftirspurn verið eftir samstarfi og kynningu á viðfangsefnum Öldu. Spennandi verkefni bíða félagsins á þessu ári og við hlökkum til að takast á við þau og búa til ný.

Sólveig Alda Halldórsdóttir og Kristinn Már Ársælsson tóku saman.