Alda kallar eftir því að sveitarfélög tryggi grasrótar- og félagasamtökum húsnæði. Félagið hefur sent sveitarfélögum landsins eftirfarandi bréf. Sem stendur hefur Alda ekki aðgengi að húsnæði til fundarhalda og annarra verka.
Eitt af því sem einkennir öflugt samfélag er virkni íbúa þess. Það má mæla og sjá svo sem í því hversu mörg félagasamtök eru starfrækt. Rannsóknir á félagsauði, samhygð og samstöðu innan samfélaga taka að jafnaði mið af virkni, stöðu og fjölda félagasamtaka. Félagasamtök af öllum gerðum, hvort sem þau tengjast einhvers konar afþreyingu eða baráttu fyrir breytingum í samfélaginu, hafa jákvæð áhrif á bæði samfélagið og einstaklingana sem í þeim taka þátt. Sterk fylgni er á milli lífsgæða/vellíðan og félagslegrar virkni.
Þá er í lýðræðisríkjum afar mikilvægt að fólki gefist færi á því að koma saman og ræða málefni samfélgsins. Því miður hefur traust á stjórnmálasviðinu og stjórnmálaflokkum hrunið á undanförnum árum og áratugum. Stór hluti landsmanna hefur ekki áhuga á því að finna hugmyndum sínum farveg innan þeirra. Vægi óháðra félagasamtaka hefur því aukist.
Ójafnt aðgengi að fjármagni og fjölmiðlum gerir ýmsum hópum erfitt um vik að koma sínum málefnum á framfæri og vinna þeim brautargengi. Aðrir hópar standa þar vel að vígi. Í lýðræðisríki er það gildi hugmyndar sem á að ráða en ekki fjármagnið sem liggur að baki henni. Því er mikilvægt að jafna aðstöðumun milli hópa hvað þetta varðar.
Grasrótarstarf félagasamtaka er mikilvægur hluti lýðræðisins, þar sem fólk kemur saman og vinnur að málefnum og uppbyggingarstarfi. Grundvöllur slíks starfs er aðgengilegt húsnæði.
Erlendis eru til fyrirmyndir að aðgengilegu húsnæði, t.d. Huset í Árósum. Það hús var upphaflega tekið af ungu fólki í hústöku árið 1972 einmitt í þeim tilgangi að verða lifandi staður fyrir félagsstarf, menningu og grasrótarhópa. Upp úr hústöku unga fólksins varð samstarfsverkefni sveitarfélags og almennings um rekstur og uppbygginug starfs í húsinu. Mismunandi áherslur hafa verið í starfinu í gegnum árin eftir tíðaranda og aðstæðum hverju sinni.
Alda hvatti á árinu 2011 sveitarfélög og önnur stjórnvöld til þess að útvega grasrótarfélögum húsnæði og aðstöðu.
Reynsla Öldu af því að vera án tryggs húsnæðis var sú að virkni í félaginu var margfalt minni. Ekki aðeins minni heldur margfalt.
Alda var einn af aðilum rekstrarfélags um Grasrótarmiðstöðina, sem hefur misst húsnæði sitt. Þar hafa fjölmörg grasrótarfélög starfað undanfarin misseri. Við höfum lært ýmislegt af rekstri þess húss, sem gengið hefur vel, og erum tilbúin að miðla af þeirri reynslu. Húsnæðið hefur á tímum vart annað eftirspurn.
Ástæða þess að húsnæðið stendur ekki lengur til boða er að þau félög sem stóðu undir stærstum hluta rekstursins hafa ekki lengur fjármagn til þess.
Alda telur óheppilegt að grasrótarfélög séu háð fjárframlagi tiltekinna félaga eða stjórnmálasamtaka og þurfi að reiða sig á slíkt. Betra sé að aðgengi að húsnæði sé tryggt á jafnræðisgrundvelli af hálfu hins opinbera. Nóg er til af húsnæði sem stendur alltaf autt eða einhvern hluta úr degi/viku/ári. Alda telur afar mikilvægt að finna lausn til að nýta það húsnæði betur en nú er gert í þágu félagsstarfs fullorðinna.
Félagið óskaði þess að erindið verði tekið fyrir í viðkomandi borgar-/bæjarstjórn til formlegrar afgreiðslu og að niðurstaða verði send félaginu.