Alda hélt aðalfund síðasta laugardag. Góður hópur settist niður, fékk sér kaffi og meðððí.

Mætt voru Ásta Hafberg, Kristinn Már sem stýrði fundi, Hjalti Hrafn, Hulda Björg, Kjartan Jónsson, Bjartur Thorlacius, Guðmundur D., Sólveig Alda, sem ritaði fundargerð, og Júlíus Valdimarsson.

Lesin var upp skýrsla stjórnar sem er aðgengileg á alda.is.

Lagabreytingartillögur voru samþykktar eftir heilmikla umræðu. Lagabreytingin um aðgengi að fundum og túlkun þykir góð og þörf. Þó má skýra að túlkunin skuli ganga í báðar áttir, t.d. ef kosið hefur verið að ákveðin fundur skuli á ensku skal bjóða upp á túlkun fyrir þá sem ekki treysta sér til að tala ensku. Mega þeir þá tala íslensku og það svo túlkað fyrir hina.

Ekki þurfti að kjósa stjórn en sjö manneskjur buðu sig fram og voru því sjálfkjörnar. Klappað var fyrir nýrri stjórn og eldri stjórn þakkað fyrir störf sín.

Ný stjórn Öldu:
Guðmundur D. Haraldsson, Björn Þorsteinsson, Ásta Hafberg, Sólveig Alda Halldórsdóttir, Kristinn Már Ársælsson, Hjalti Hrafn Hafþórsson og Hulda Björg Sigurðardóttir sem kemur ný inn í stjórn og var henni fagnað með lófataki. 🙂

Fráfarandi stjórnarmönnum var þakkað með lófataki.

Í lok aðalfundar var framkvæmt slembival og mun fullmönnuð stjórn finna sér tíma í kjölfarið að skipta með sér verkum.

Fjármál voru rædd en eru ekki stór málaflokkur. Alda á lén og greiðir fyrir það árlega en er enn svo heppin að félagsmaður hýsir vefinn að kostnaðarlausu. Slíkur kostnaður, ásamt prentkostnaði ofl slíku hefur hingað til verið greiddur með framlögum stjórnarmanna. Alda þarf hins vegar að stofna reikning. Kristinn Már er með það mál.

Alda á loforð um styrk vegna málefnahóps um menntamál og verkefni því tengdu.

Önnur mál voru t.d. áherslubreytingar í Öldu. Að leggja meiri áherslu á að vinna út á við og gera efnið aðgengilegra. Einnig viljum við sjá okkur halda rýni til gagns til streitu og benda á það sem betur má fara og kalla eftir betri vinnubrögðum hjá þinginu. Verulega skortir enn upp á lýðræðislegar áherslur hjá valdhöfum landsins.

Ýmis mál önnur mál voru rædd:

Húsnæðismálin báru helst á góma en ekki þykir stætt með að bíða eftir næsta stjórnarfundi með að taka þá ákvörðun. Allir fundarmenn voru því samþykkir að Ásta og Sólveig myndu ræða við MúltíKúltí á Barónsstíg en okkur hafði borist til eyrna að þar væri laus fundarstaða gegn hóflegri greiðslu.

Rætt að halda opna kynningafundi í hverri viku. Á slíkum kynningarfundi væru hugmyndir Öldu kynntar fyrir fundargestum og skeggræddar. Hugmynd um að nýta þriðja miðvikudag í mánuði til þess arna. Slíkur fundur fengi klukkustund, t.d. frá 19.00-20.00, og í kjölfar hans hæfist málefnahópur sem fylgdi hefðbundnum fundartíma.

Stefnt er á að hafa miðvikudaga sem fundardaga í Öldu í vetur.

Ef húsnæðið hjá Múltíkultí gengur upp þá gætum við hugsanlega haft fleiri en einn fund í gangi á sama tíma. Þannig myndu stjórnarfundir halda sínum föstu tímum, þann fyrsta miðvikudag hvers mánaðar, og málefnahóparnir rúlluðu svo hina miðvikudagana.

Sjálfbærnihópurinn þarf að fá öflugt fólk með sér í lið. Málaflokkurinn er flókinn og mikilvægt að brenna fyrir málefninu ef takast á að koma honum almennilega í gang.

Öldu langar að stefna að fjölskyldudegi að sumri til, hittast, grilla og leika sér. Stefnt er eindregið að því að leika sér meira og fíflast.

Fundi slitið 18:45.

Eftir að fundi var slitið hófumst við handa við að slembivelja úr félagatali. Í slembivalinu voru 270 manns og tölvusnillingur stjórnarinnar, Guðmundur D., sá um að forrita og stilla upp í valið.