Erindi á stofnfundi Lýðræðisfélagsins Öldu 20. nóvember 2010
Mig langar til að byrja þetta erindi á tilvitnun í viðtal við frönsku heimspekingana Gilles Deleuze og Feliz Guattari, en saman skrifuðu þessir hugsuðir tvær bækur um kapítalisma. Í viðtalinu er Deleuze beðinn um að útlista hvers vegna hann segir að kapítalisminn sé brjáluð hugmynd og ef hið kapítaliska samfélag sé óeðlilegt hvernig hægt sé að hugsa sé normalt samfélag. Deleuze hafnar því að hægt sé að skipta samfélagshugmyndum upp í eðlilegar og óeðlilegar. Öllu heldur telur hann að slíkar samfélagsgerðir séu vélar sem beisla hugsun fólks og ástríður í áhrifaríka farvegi og eftir röklegum leiðum. Það sem Deleuze telur órökrétt er ekki vélræn efnhagsleg kerfi eins og kapítalismi, heldur þær grunnhugmyndir sem vélin byggir á. Og merkilegt nokk líkir Deleuze kapítalisma við guðfræði.
„Þetta (það er að segja kapítalisminn) er eins og guðfræði: allt í kringum þessa fræðigrein er byggt á rökhugsun, svo fremi sem þú samþykkir kennisetningar eins og synd, óflekkaðan getnað og holdtekju. Raunsæi er alltaf svæði innan óraunsæis. Það er alls ekki vel girt af eða einangrað frá hinu óraunsæja, heldur miklu frekar eins og svæði þar sem hið óraunsæja flakkar um og aðeins afmarkað sem rökleg tengsl milli óraunsærra þátta. Undir öllu raunsæi liggur óráðið, svifið, aldan. Kapítalisminn byggir á ítrasta raunsæi, nema því sem varðar kapítalið og kapítalismann sjálfan. Verðbréfamarkaðurinn er algerlega rökheldur, maður getur skilið hann, rannsakað hann, kapítalistarnir vita hvernig á að nota hann og samt sem áður er hann algert óráð, hann er brjálaður.“ (1)
Samkvæmt Deleuze hegðar kapítalismi sér eins og guðfræði. Hann lítur fullkomlega röklega út, en eingöngu ef menn koma sér saman um ákveðnar kennisetningar sem allir fylgja og trúa, meyfæðing, ósýnilega höndin, kraftaverk, framseljanlegar aflaheimildir, vilji Guðs, vilji markaðarins. Guðfræðin að minnsta á sínum betri augnablikum viðurkennir þessa vídd undirmeðvitundar og óraunsæis í eigin vélkerfi. Páll postuli talaði þannig um kristna trú sem hneyksli krossins. Og vegna þessa óörugga jafnvægis í trúarbrögðunum milli þess sem er raunsætt og þess sem er táknrænt og óraunsætt hafa tengslin milli trúar og listar alltaf verið sterk. Kapítalisminn hins vegar biðlar síður til listar en efnahagslegra vísinda. Kapítalisminn tekur sig jafnalvarlega og fúndamentalísk trúarbrögð. Kapítalisminn á sér kennisetningar sem fylgismenn stefnunnar heimta fullkomna hlýðni við, svo að ekki komi kreppa og heimsendir og markaðurinn lendi ekki í lægð eilífrar fordæmingar. Kapítalismi er ríkjandi heimsskoðun á Vesturlöndum, ríkjandi Guð sem er brjálaður og bælir niður þær upplýsingar með ofurröklegum efnahagskerfum. Merkilegur og máttugur guð er Kapítal og hugmyndirnar sem liggja að baki vélinni sem drífur hann áfram eru að mestu einráðar í hinum vestræna heimi.
Deleuze og Guattari benda á að ekki sé auðvelt að finna leiðir framhjá kapítalismanum. Hún er öflugt ástríðubeisli, vel smurð og áhrifamikil vél. Ef marka má Deleuze og Guattari eru kapítalismi og guðfræði þannig dæmi um öflugar ástríðuvélar, sem eru sterkari en venjuleg hugmyndafræði sem hægt er að ræða um og vera ósammála. Þeir segja jafnframt að hugmyndin um hugmyndafræði sé blekking, hugmyndafræði sem slík sé ekki til, heldur fjalli vélarnar um skipulagningu á valdi og ástríðum eftir ákveðnum leiðum. Slíkar ástríðuvélar sækja kraft sinn í að verða einráðar og geta ekki þolað aðra farvegi ástríðnanna. Lausnin liggur heldur ekki í því að afneita ástríðum mannsins eða bæla þær niður. Lausnin að dómi Deleuze og Guattaris liggur ekki í meiri bælingu og beislun, heldur í því að leysa upp vélarnar og skapa ný flæði. Táknmynd þessa frelsis í þeirra augum er schizoinn, ekki vegna þess að sá sem þjáist af geðhvarfasýki sé laus við þrár og ástríður, heldur vegna þess að hann horfist í augu við margbreytileika þeirra og hegðar sér ekki í samræmi við hina einu sönnu vél. Hann getur prófað raddirnar því hann veit að þær eru margar.
Svo máttug vél er Kapítal að fólk á erfitt með að ímynda sér nokkra aðra gerð efnahags og samfélags en þá sem byggir á kapítalískum forsendum. Það er hægt að vera ósáttur við Kapítal og kapítalíska hugsun, en frá falli kommúnismans er fáar vélar eða kerfi sem standast honum snúning. Og því er það að jafnvel þótt fólk hendi eggjum í Alþingishúsið og úði hús auðmanna með rauðri málningu og haldi mótmælafundi fyrir utan alþjóðastofnanir víða um heim, þá á það oft auðveldara með að orða hugsun sína og tilfinningu fyrir náttúruníðslu og félagslegu óréttlæti, heldur en að finna praktískar lausnir á vandanum. Og samt hefur eitthvað gerst á Íslandi í kjölfar kreppu. Þar má finna nýja lýðræðisást, ný teikn á lofti að hin velsmurða vél kapítalismans hökti og skjögti og skili ekki þeim afköstum og arði sem henni var ætlað að gera. Vélin höktir og í skelfingu, upplausn og efnahagshruni þess hökts má líka finna rými fyrir nýja hugsun, nýjar raddir og leiðir sem bylgjast um í óráðinu, en bælir ekki.
Sem lið í þessari leit að því sem hægt er að tala um og gera og finna upp, langar mig til að benda á hinar tíu tesur indverska eðlisfræðingsins og ekófemínistans Vandana Shiva, sem skrifaði bók árið 2005 með yfirskriftinni Earth Democracy: Justice, Sustainability and Peace eða Jarðlýðræði: Réttlæti, Sjálfbærni og friður.
1. Allar tegundir lífvera, fólk og menningarheildir hafa sitt eigið mikilvæga gildi.
2. Samfélag jarðarbúa á að einkennast af lýðræði alls lífs í þeim flókna vef sem vistkerfi heimsins eru.
3. Standa verður vörð um fjölbreytni lífvera og menningar
4. Allar lífverur eiga sér rétt til næringar, vatns og fæðu og rýmis. Engin þjóð á rétt á því að þurrausa þessar lindir eða loka af almenningum sem halda uppi þessu lífi.
5. Jarðlýðræði er byggt á lifandi hagkerfum og lýðræðislegri hagfræði, þar sem öll hagfræðin þarf að byggjast á sjálfbærri nýtingu og fjölbreyttum og fjölhyggjulegum kerfum sem fólk velur sér og er öllum til hagsbóta.
6. Lifandi hagkerfi eru byggð á staðbundnum hagkerfum í stað þess að keyra staðbundin kerfi í þrot.
7. Jarðlýðræði er lifandi lýðræði. Í lifandi lýðræði hefur fólk eitthvað um það að segja hvað það leggur sér til munns, vatninu sem það drekkur og þeirri menntun og heilbrigðisþjónustu sem það á kost á. Jarðlýðræði er byggt á hugmyndum um hið veitula (inklúsífa), fjölbreytta og hugmyndum um vistfræðilega og félagslega ábyrgð. Jarðlýðræði byggir á dreifræðisreglu (principle of subsidiarity), sjálfræði og sjálfstjórnun.
8. Jarðlýðræði byggir á lifandi menningarheildum. Jarðlýðræði gerir þannig ráð fyrir fjölhyggju þar sem ólíkar lífsskoðanir, sjálfsmyndir og trúarbrögð fá rými og þar sem samræða er stunduð um sameiginleg gildi og markmið jarðsamfélags.
9. Lifandi menningarheimar næra lífið en draga ekki úr því máttinn. Lifandi menning þarf að byggjast á reisn og virðingu fyrir öllu lífi, bæði manneskjum og öðrum, fólki af öllum kynjum, nútíðar og framtíðar kynslóðum.
10. Jarðlýðræði hnattvæðir frið, umhyggju og samúð í veröld sem of oft einkennist af græðgi, ójafnræði og neysluhyggju.
Svo máttug vél er Kapítal að þau sem leyfa sér að benda á að hann er brjálaður eiga á hættu að fá á sig stóra stimpla. Þeim er sagt að þau þekki ekki lífið og ástríður mannanna. Þau eru spurð hvort þau viti ekki að hver maður er aðeins drifinn áfram af einni spurningu, möntru kapítalismans um að hver maður leggi sig fram að því einu að hann sjái einhverja hagnaðarvon í verkinu fyrir sjálfan sig og að sú hagnaðarvon leiði til hagsbóta fyrir alla. Þau sem tengja Kapítal við eignaréttinn, sem helgasta djásn allra manna bregðast ókvæða við, ef einhver reynir að skrúfa sundur hin heilögu vé, eða hina heilögu vél. Ertu á móti kapítalisma? Hvað heldurðu að verði um eignaréttinn? Og framleiðnina? Og þjóðarhaginn? Þau eru beðin um að skilgreina sig nánar vegna þess að það séu svo margar tegundir til af kapítalisma og sumar bara mjög lýðræðisvænar og umhverfisvænar. Og þeir sem ekki verða reiðir setja gjarnan upp þennan undarlega svip umhyggjusamrar vorkunnar sem einkennir þau sem horfa á börn á róluvöllum. Æi, blessuð, er hún nú komin upp í rennibrautina, vonandi á hún ekki eftir að meiða sig. Óttalega flýgur þessi róla hátt. Þessi sandkastali er dæmdur til að mistakast hjá stráknum. Blessaðir óvitarnir. Við höfum séð þetta allt saman áður. Þeim sem pota í guðinn Kapítal er sagt að þau séu barnaleg og að lausnir þeirra hafi allar verið reyndar áður.
Lýðræðisfélagið Alda sem stofnað er í dag er þannig barnalegur félagsskapur, félagsskapur sem vill vinna að því að skrúfa sundur vélar og leita fleiri leiða til að lifa saman í samfélagi þar sem hlustað er á margar raddir, lýðræði sem er sjálfbært jarðlýðræði, lýðbært samfélag, líf-ræði.
Lýðræðisfélagið Alda er félagsskapur sem leggur áherslu á lýðræði og sjálfbærni á jörðu sem að ber ekki guðinn Kapítal mikið lengur og í samfélagi sem hefur fengið að upplifa það hversu valdleysi, óvirkni, náttúrusukk og skortur á réttlæti er dýru verði keypt. Ekkert okkar veit almennilega hvernig á að fara að því, annars væri engin þörf á félagsskapnum. Svo vitnað sé í Deleuze einu sinni enn í sama viðtali þegar hann var spurður um það hvert eðli þessarar ástríðumaskínu kapítalismans er og hvernig ætti að finna leiðir framhjá henni: „Ef maður vissi þetta, þá þyrfti ekkert að tala um það, maður myndi bara gera það.“ (2)
1. “Capitalism: A Very Special Delerium,” Desert Islands, 262.
2. Desert Islands.
Sigríður Guðmarsdóttir