Stjórnarfundur Lýðræðisfélagsins Öldu – 1. desember 2010
Fundur haldinn í Hugmyndahúsinu.

Mætt voru úr stjórn félagsins:
Kristinn Már, Íris, Dóra, Helga, Ingólfur, Sólveig, Björn
Á fundinn komu einnig: Hrönn Guðmundsdóttir, Guðmundur Ágúst
Sæmundsson, Hjálmar Theódórsson, Birgir Smári Ársælsson.

Kristinn Már stýrði fundi og Björn Þorsteinsson ritaði fundargerð.

1. Umræða um stofnfund
Almenn ánægja um fundinn. 43 manns fyrir utan stjórnarmenn teljast
hafa mætt.

2. Fundargerð stofnfundar
Samþykkt að láta frétt á vefsíðu duga.

3. Stofnun málefnahópa
Fyrir fundinn var lögð tillaga um fjóra málefnahópa:

A. Sjálfbært hagkerfi. Hópurinn fjallar um sjálfbærnihugtakið og
hvernig megi breyta hagkerfinu. Skoðaðar verði hugmyndir um nýja
hagfræði (New Economics) og umhverfishagfræði. Á undanförnum
áratugum hefur komið fram margvísleg gagnrýni á hagkerfi og
hagfræði, þ.á.m. að drifkraftar hagkerfisins (hagvöxtur,
gjaldeyrismál, opinber stefnumótun) leiði til ósjálfbærni og
minnkandi velmegunar fyrir stóran hluta almennings. Hópurinn mun
fara yfir þá gagnrýni og vinna tillögur að umbótum á hagkerfinu sem
miðar að því að það grundvallist á sjálfbærni og velmegun fyrir
alla.

Tillögur að efni: Prosperity Without Growth (Tim Jackson), The New
Economics – A Bigger Picture (David Boyle og Andrew Simms), After
Capitalism (David Schweickart).

B. Lýðræðislegt hagkerfi. Hópurinn fjallar um lýðræði á sviði
viðskiptalífsins, atvinnulífsins og fyrirtækjanna. Grundvöllur
samvinnureksturs hérlendis skoðaður sérstaklega. Safnað saman
upplýsingum um samvinnurekstur og umgjörð fyrir lýðræðisleg
fyrirtæki erlendis. Leiða leitað til að fjölga lýðræðislegum
fyrirtækjum hérlendis og auka lýðræði á sviði efnahagslífsins.

Tillögur að efni: After Capitalism (David Schweickart) og
Envisioning Real Utopias – kafli 7 (Erik Olin Wright).

C. Lýðræði á sviði stjórnmálanna. Hópurinn fjallar um lýðræði á
sviði ríkisvaldsins og sveitarfélaganna. Ræddar verða leiðir til
þess að dýpka lýðræðið með því að færa ákvarðanir nær fólkinu.
Sérstaklega verða skoðaðar leiðir til þess að innleiða beint
lýðræði og þátttökulýðræði.

Tillögur að efni: Envirsioning Real Utopias – kafli 6 (Erik Olin
Wright), Asoociations and Democracy (Joshua Cohen og Joel Rogers),
Deepening Democracy (Archon Fung og Erik Olin Wright).

D. Stjórnlagaþingið. Hópurinn fjallar um ferlið fram að kosningum
til stjórnlagaþings og koma með tillögur að betrumbótum. Einnig mun
hópurinn vinna tillögur að breytingum á stjórnarskránni fyrir
stjórnlagaþingið.

Umræður um málefnahópana:
Íris lýsti ánægju með fjölda hópa. Betra að hafa þá ekki of marga
til að byrja með. Kristinn Már benti á að hóparnir geti skipt sér
niður. Skörun milli fyrstu tveggja hópanna. Björn talaði um „efst á
baugi“-hóp. Hægt verður að vera í fleiri en einum hóp! Ekki
nauðsynlegt að stjórnarmenn stýri hópunum. Tillögur um opna
fræðslufundi komi frá hópum og stjórn skipuleggi slíkt. Hóparnir
móti tillögur og skili þeim t.d. af sér í mars 2011. Hóparnir verði
kjarninn í starfi félagsins.

Helga lýsti eftir tillögum að nýjum hópum. Fundarmenn lýstu ánægju
með skipulagið og samþykktu tillöguna.

Stjórnlagaþingshópurinn hefur rétt rúman mánuð til verksins.

Stjórnarmönnum skipt á hópa.

4. Fundarsköp málefnahópa
Íris lagði fram tillögu um fundarsköp sem miðast við að fundir
verði eins hnitmiðaðir og lýðræðislegir og kostur er. Byggt er á
hugmyndum um „consensus decision making“. Fundarstjóri gegnir þar
lykilhlutverki. Hann er kjörinn fyrir fundinn og undirbýr sig vel.
Fundarritari er kjörinn á fundinum. Tímamörk ákveðin fyrirfram,
málum raðað niður á dagskrána og þeim gefinn ákveðinn tími.
Jafnframt sett mörk á það hversu lengi menn mættu tala, jafnvel
bara tvær mínútur. Ákvarðanir má taka með meirihlutakosningu en
jafnframt mætti prófa „consensus decision making“ sem fer þannig
fram að hugmynd er kynnt, síðan er hún rædd og að lokum reynt að
taka saman ákveðnar tillögur; tillaga er svo borin undir atkvæði en
ekki þarf að vera skýrt með eða á móti og einn einstaklingur getur
stoppað tillögu með afar gildum rökum („lífið liggi við“). Hugsunin
gengur ekki út á að allir séu sammála heldur að allir séu sáttir.
Er nauðsynlegt að allir séu sáttir? Hugsanlega ekki, en hættan er
vissulega sú að allt sem út úr þessu kemur verði „litlaust og
grátt“. Jafnframt að fólk vilji „forðast að gera vesen“.

Helga talaði um notkun handarhreyfinga og bendinga á fundum sem
getur nýst vel til að gera fundina skilvirkari.

Kristinn már leggur til að Íris taki hugmyndina saman á blaði sem
hópstjórar og fundarstjórar geta gengið að. Benti jafnframt á að
rótera eigi fundarstjórunum á stjórnarfundum. Kristinn Már sér um
slembival á röðun fundarstjóra.

Íris lagði til að skipaður yrði tengiliður fyrir þá sem komast ekki
á fundi eða eiga erfitt með að tjá sig. Var samþykkt að svo yrði
gert.

Málefnahóparnir haldi sinn fyrsta fund fyrir jól. Kristinn Már
heldur utan um það.

5. Umræða um stjórnlagaþing og kosningar til þess.
Dóra benti á að 70% nýkjörinna fulltrúa á þingið hafi lýst áhuga á
sjálfbærni. Kristinn Már hefur mestar áhyggjur af auðlindaákvæðinu.
Umræða varð um það hvort stjórnarskráin eigi að vera nákvæm eða
einföld. Kristinn már vill að hún skilyrði ríkisvaldið og
fyrirtækin. Hjálmar talaði um ákvæði um flokkun sorps. Skráin eigi
að taka á grundvallaratriðum. Kristinn Már benti á að þinginu er
skv. lögum skylt til að taka erindi frá almenningi til athugunar.
Nefndirnar þrjár innan þingsins eru mjög afmarkaðar og eins og ekki
sé gert ráð fyrir að taka fyrir alla efnisþætti stjórnarskrárinnar.
Í lögunum eru þó skilgreind níu umfjöllunarefni. Augljóst er af
lögunum að ekki eigi að hugsa um eignarréttarákvæði. Þinginu sjálfu
er heimilt að breyta lögunum um sjálft sig – í samráði við Alþingi.

Rætt um mikilvægi þess að stjórnarskráin verði borin undir
þjóðaratkvæði.

Rætt um það hversu lýðræðisleg vinnubrögðin verði á
stjórnlagaþinginu.

Talað var um að stjórnlagaþingshópurinn setti í forgang að skoða
starfsreglur þingsins og koma með tillögur að breytingum á
stjórnarskránni.

6. Heimasíðumál

– Bréf til félagsins
Guðný Þorsteinsdóttir sendi félaginu bréf og bauð fram aðstoð
varðandi hýsingu á vefnum. Anton Kaldal hefur tekið að sér hönnun
vefsins, með ákveðnum skilyrðum, t.d. því að fá að hanna lógó
félagsins. Dóra sér um samskiptin milli Guðnýjar og Antons. Sólveig
Alda hefur rissað upp grunnskema vefjarins. Ritstjórn vefsins hefur
nokkuð frjálsar hendur varðandi þetta.

– Facebook síðan
Skipulagt kaos ríki á síðunni: félagsmenn hafi allir leyfi til að
henda hverju sem er inn á síðuna. Rætt um muninn á fréttaveitu í
nafni Öldu og því þegar félagsmenn setja eitthvað inn á fb-síðuna.
Allir stjórnarmenn sem hafa „admin“-réttindi á síðunni geta ekki
sett efni inn á síðuna nema í nafni Öldu. Rætt um nauðsyn þess að
setja inn „disclaimer“ um skoðanir sem birtast á síðunni. Bent á
mikilvægi þess að skoðanir sem fram koma á síðunni megi vera
„hvassar“.

– Ritstjórn vefsvæðis
Sólveig Alda, Dóra Ísleifs og Kári Páll Óskarsson hafa formlega
tekið að sér ritstjórn og einnig hefur það verið rætt við Einar
Ólafsson. Hugmyndin er svo að fjölga í ritstjórn þegar fram líða
stundir.
Sólveig Alda sér um að hóa saman í fyrsta ritstjórnarfund.

7. Fjármál félagsins.
Guðrún Ásta stofnar kennitölu og reikning fyrir félagið. Greiða
þarf útlagðan kostnað, dreifa honum á stjórnarmenn. Lén,
kaffiveitingar, lyklagjald í Hugmyndahúsi. Lyklagjaldið er 2000 kr.
á mánuði og því fylgir ótakmarkaður aðgangur. Málefnahóparnir geta
því t.d. haldið fundi hér. Getum e.t.v. fengið fleiri lykla. Rætt
um að hafa ekki félagsgjöld, þó kannski leiðbeinandi félagsgjald,
en taka við frjálsum framlögum á vefsíðu og láta bauk ganga á
fundum o.s.frv. Samþykkt að sett verði þak á frjáls framlög og
þiggja ekki framlög frá (skráðum) stjórnmálaflokkum. Setja reglur
um að framlög umfram ákveðna upphæð séu nafnlaus? Eða að fjármunir
umfram ákveðna fjárhæð fari til góðgerðarsamtaka. Bent á að ekki
verði líklegt að Alda fái há fjárframlög frá fylgismönnum óbreytts
fyrirkomulags í þjóðfélagsmálum. Umræðu frestað.

8. Önnur mál
Rætt um tímamörk á stjórnarfundum. Almennt viðmið verði 1,5 klst.
en fundurinn geti samþykkt að sitja lengur.

Tímasetning stjórnarfunda. Stjórnarmenn fari aðra umferð yfir
„net-bókunarkerfið“ sem ætlunin er að nota til að finna tíma.
Stjórnarfundir verða á föstum tíma mánaðarlega þannig að allir geti
gengið að því vísu hvenær þeir eru haldnir.

Rætt um jafnvægið milli þess að álykta um hitt og þetta áður en
grunntillögur liggja fyrir. Jafnframt um að skipuleggja félagið,
setja markmið og skilgreina leiðir að þeim.

Setja ábendingar um lesefni, og áskoranir um að benda á frekara
lesefni, á vefsíður félagsins.

Panta þarf fleiri bækur á bókasöfn. Kristinn Már sér um það.

Vantar tengiliði úti á landi. Stjórnarmenn leiði hugann að því
hvort þeir þekki fólk sem megi hnippa í. Senda fréttatilkynningu á
alla héraðsmiðlana. Rannsókna- og háskólasetur gætu reynst haukar í
horni hvað þetta varðar.

Tala félagsmanna er um 75. Öllum svarað. Margir senda inn hugmyndir
og tillögur.

Rætt um hvort rétt sé að senda auglýsingu um stjórnarfundi á
netfangalista félagsins. Samþykkt að gera það og bæta við klausu um
að fólk geti skráð sig af netfangalistanum sé ónæði að sendingunum.

Kynna málefnahópana á netfangalistanum. Senda þessa fundargerð
jafnframt á listann.

Spurt um það hvernig hóparnir taki til starfa. Starfsemi þeirra
verður kynnt með öllum tiltækum miðlum og tilkynnt hvenær fyrsti
fundur verður, og allir velkomnir að mæta. Fyrsti fundur verði í
desember til að koma starfi hópanna af stað og fólk geti farið að kynna
sér áhugavert efni.

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið.