Fundur í stjórn Öldu 14. desember 2010 í Hugmyndahúsi kl. 20:30. Meðal þess sem var rætt voru málefni níumenninganna og Wikileaks. 

Mætt voru úr stjórn félagsins: Kolbeinn, Íris, Helga, Björn, Sigríður, Guðrún Ásta og Halldóra.

Á fundinn komu einnig: Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson, Kári Páll Óskarsson, Hulda Björg Sigurðardóttir.

Sigríður stýrði fundi og Björn ritaði fundargerð.

1. Málefni níumenninganna

Samþykkt var eftirfarandi ályktun:

Lýðræðisfélagið Alda fordæmir málareksturinn gegn níumenningunum svokölluðu sem ákærðir eru fyrir brot á 100. grein hegningarlaga sem lýtur að „árás á Alþingi“ þannig að „sjálfræði þess hafi verið hætta búin“. Í umræddum mótmælum fór hópur fólks inn um opnar dyr Alþingishússins og upp á þingpalla þar sem lesin var upp yfirlýsing. Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja í samtímanum og mörg dæmi eru um það að valdhafar ákæri og fangelsi mótmælendur til þess að hræða fólk frá því að tjá hug sinn með aðgerðum. Með ákærunni eru níumenningarnir gerðir að blórabögglum á gerræðislegan hátt öðrum til viðvörunar. Alda krefst þess að málið verði fellt niður hið fyrsta og að Alþingi og aðrir valdhafar snúi sér að því að færa ákvarðanir nær fólkinu.

Lagt var til að ályktunin yrði send ríkissaksóknara og fjölmiðlum og auk þess birt á vefsíðu félagsins.

Samþykkt samhljóða.

2. Wikileaks

Dóra reifaði málið. Sigríður spurði fundarmenn hvernig þeir vildu að félagið brygðist við. Dóra talaði um nauðsyn þess að standa vörð um tjáningarfrelsi og upplýsingaskyldu stjórnvalda í lýðræðisríkjum, einnig um ritskoðun. Gústav talaði um „gagging order“, sbr. það þegar RÚV var bannað að fjalla frekar um lánabók Kaupþings eftir að hún var birt á Wikileaks sumarið 2009. Helga talaði um mikilvægi þess að blanda ekki saman efnisatriðum í málarekstri gegn stofnanda Wikileaks og meginatriðum sem lúta að tjáningarfrelsi. Hún lagði til að félagið ályktaði um síðara atriðið en ekki það fyrra. Kolbeinn minnti á að betra væri að félagið sendi ekki frá sér fleiri en eina ályktun sama kvöldið. Hann lagði til að haldinn yrði opinn fundur um málið. Samþykkt var að stjórnin ynni áfram með tillöguna í tölvupóstum fram að næsta stjórnarfundi og tók Kolbeinn að sér að vinna að tillögum.

3. Málefnahópar

Dóra ræddi um sjálfbærnihóp og fyrirhugaðan fund hans á fimmtudag. Sigríður lagði til að hópurinn tæki ákvarðanir um fundarhaldið sín á milli. Kári Páll spurði hvort hægt væri að koma inn í hópana núna, úr því að þeir væru komnir af stað, og var honum sagt að svo væri.Allir velkomnir hvenær sem er. Hann spurði um lesefni í málefnahópunum og bent var á að það væri yfirleitt tiltækt á vefnum, sbr. fundargerðir á vefsíðu Öldu. Sumar bækurnar sem um ræðir væru einnig til á Borgarbókasafni.

4. Önnur mál

Guðrún Ásta tilkynnti að hún færi brátt úr landi og myndi ekki sitja fundi á meðan. Hún mun sækja um kennitölu fyrir félagið. Kári Páll spurði um vefsíðumál, enda hefur hann tekið að sér ritstjórn vefjarins ásamt öðrum. Dóra upplýsti hann um stöðu mála og að fyrirhugað væri að halda fund í ritsjórn með vefhönnuðum. Helga benti á að gott væri að fá greinar um málefni (1) og (2) á vefsíðu félagsins. Íris á í fórum sínum grein um níumenningana og töldu fundarmenn einboðið að birta hana á vefsíðu Öldu. Sigríður talaði um „consensus“-aðferðir við fundarstjórn og notkun handarhreyfinga. Hún velti upp spurningunni um muninn á „facilitator“ og fundarstjóra.

Fundargerð lesin og hún samþykkt.

Fleira var ekki rætt. Fundi slitið kl. 21:40.

2 Thoughts to “Fundargerð: Stjórnarfundur 14. desember”

  1. Halldór Úlfarsson

    Hæ og takk fyrir ályktun um mál 9menninganna.

    Tvennt.

    Er stemming fyrir því að falast eftir óformlegum fyrirlestrastrum um málefni sem félagsmönnum kynnu að þykja áhugaverð? Í samhengi við Wikileaks datt mér í hug Lára Hanna sem bloggaði ansi hressilega um lækkaða orkuskattinn-

    http://blog.eyjan.is/larahanna/2010/12/14/hvada-jafnr%C3%A6di-og-hverra/

    En þökk sé WL vitum við af íputtun bandarískra erindreka í því máli.

    Hitt.

    Er það Dóra Ísleifs sem er sprauta í sjálfbærnihópnum? Ég myndi koma að borði þar með pælingar um MIPS greiningu sem hefur verið í þróun hjá Whuppertal stofnuninni þegar hægist á hjá mér (þegar aðeins er komið inn í næsta ár) en myndi kannski gefa mig aðeins á tal við hana áður.

    Bestu kveðjur

    1. Hæ hæ! Afsakið seina svarið! En jú, það er svo sannarlega stemning fyrir því að halda fyrirlestra, málfundi og hvað svo sem annað um áhugaverð málefni! Dóra Ísleifs er ein af umsjónarmönnum í sjálfbærnihópnum og endilega settu þig í samband við hana.

Comments are closed.