Fyrsti stjórnarfundur ársins 2011 var haldinn í Hugmyndahúsin kl. 20:30 þriðjudaginn 4. janúar.
Mættir: Kristinn Már Ársælsson, Íris Ellenberger, Harpa Stefáns, Ármann Gunnarsson, Gústaf Adolf Bergmann Sigurbjörnsson, Geir Guðmundsson, Hulda Björg Sigurðardóttir, Þórarinn Einarsson, Hjörtur Hjartarson, Dóra Ísleifsdóttir, Helga Kjartansdóttir, Andri Leó Lemarquis og Björn Þorsteinsson.
Kristinn Már stýrði fundi og Sólveig Alda ritaði fundargerð.
Fundur settur kl. 20.45
1. Störf ársins 2011
Áfram unnið í málefnahópum og allir beðnir að leggja höfuð í bleyti um hvernig hægt sé að nýta sumarið til að vekja athygli á sjónarmiðum félagsins. Allar ábendingar vel þegnar.
2. Málefnahópar.
Málfefnahópar haldi fundi í janúar og komi starfi í gang. Auglýstir á næstu dögum. Þeir skili af sér einhverju haldbæru sem marki grunnstefnu félagsins í þeim málaflokki. Komi frá sér fyrstu tillögum í mars. Sjálfbærnihópur stefnir á málþing í júní.
Hjörtur spurði um stjórnlagaþingshópinn.
Stjórnalagaþingshópurinn þarf að vera kominn með eitthvað í lok janúar en þingið sjálft kemur saman ekki seinna en 15. febrúar. Stjórnlagaþingið er skyldugt til að skoða allar tillögur sem því berst. Ekki er enn á hreinu hvernig þingið á að vinna.
Svo þarf að meta hvort stjórnalagaþingshópur starfar áfram eftir að þingi er lokið. Meginmarkmið hans er að koma tillögum inn á þingið og fylgja þeim eftir.
Áhyggjur af því að stjórnmálaflokkar hafi áhrif á stjórnlagaþingið, þó ekki nema í gegnum óbeinan þrýsting þar sem þingmenn stjórnlagaþingsins fari að velta fyrir sér hvað þingið kunni að samþykkja, gera málamiðlanir. Fundarmenn sammála um að stjórnlagaþingið eigi að skila af sér sjálfstæðum tillögum enda kjörnir beint af fólkinu í landinu – hafa sjálfstætt umboð.
Rætt var um hvort félagið ætti ekki að hvetja almenning til að senda tillögur á stjórnlagaþing. Lítið hefur farið fyrir umræðu um þetta atriði að hverjum sem er sé frjálst að skila tillögum inn á þingið og að þingi sé skylt að skoða allar tillögur. Rætt var um að félagsmenn myndu senda greinar í blöðin, vekja athygli á þessu.
Rætt var um að þótt kosningaþátttaka hafi verið dræm í kosningum til stjórnlagaþings felist ekki í því að almenningur hafi ekki áhuga að ræða og kjósa um tillögur um breytingar á stjórnarskránni. Það hefur enginn afsalað sér réttinum til að kjósa um tillögurnar. Áhugi var fyrir því að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaþingsins áður en þær kæmu til kasta Alþingis.
Skemmtilegar umræður um stjórnlagaþingið.
3. Vefsvæði félagsins
Dóra kynnti. Ritstjórn hittist á fundi fyrr í dag. Rætt um stemningu á síðunni, skipulag, útlit og skilaboð fólgin í því. Síðunni er ætlað að vera hugmyndaveita fyrir allt sem viðkemur lýðræði og sjálfbærni, ásamt því að skýra frá starfsemi félagsins.
Lýðræðisfélagið er komið með grafískan hönnuð, Anton Kaldal, sem mun vinna útlit síðunnar. Félaginu vantar þó enn forritara en hefur fengið ábendingu um einn slíkan og mun setja sig í samband við hann. Ábendingar um allt og alls kyns varðandi síðuna eru vel þegnar og má senda á netfangið: solald@gmail.com
Einnig eru félagsmenn beðnir um að sanka að sér tenglum, upplýsingum, greinum ofl. því sem erindi ættu inn á síðuna og senda á sama netfang.
4. Wikileaks
Kolbeinn Stefánsson hafði ætlað að kynna hugmyndir að umræðufundi um Wikileaks málið en hann var því miður fjarverandi.
Rætt um Wikileaks: Margir ráðamenn á Vesturlöndum tóku þá ólýðræðislegu ákvörðun að berjast gegn birtingu gagnanna. Jafnframt tóku fyrirtæki, sem eiga að vera í þjónustu við almenning, þá afstöðu að hindra fólk í að styðja og styrkja starf Wikileaks.
Rætt um framsögumenn á umræðufundi og koma margir góðir til greina.
5. Önnur mál
Rætt um verkaskiptingu í stjórninni. Ákveðið að hver stjórnarfundur útnefni fundarritara og fundarstjóra næsta fundar þar á eftir.
Stjórnarfundir eiga sér fastan sess, fyrsta þriðjudag í hverjum mánuði en gott er að ítreka þá engu að síður með tilkynningu á heimasíðu, á feisbúkk og í tölvupósti til félagsmanna.
Ræddar hugmyndir að titli lýðræðisfélagsins upp á enska tungu. Margt sniðugt lagt til en ekkert í hendi. Allar ábendingar vel þegnar.
– The Democracy Movement. – Alda. Movement for Democracy. – Wave. 😉
Það er nóg að tveir stjórnarmenn eða fimm félagsmenn óski eftir stjórnarfundi til að hann verði haldinn. Hvetjum alla til að kynna sér lög félagsins.
Kristinn Már kosinn tengiliður milli funda og heldur utan um að boða til aukafunda og taka við ábendingum um málefni sem kalla á vinnu eða viðbrögð á vegum félagsins.
Fundarstjóri stillir upp dagskrá fyrir stjórnarfund en getur óskað eftir að annar stýri honum. Eins og löng hefð er fyrir í frjálsum félagasamtökum voru fjarverandi stjórnarmenn kjörnir til að sinna verkefnum: Sigurður Eyberg kosinn fundarstjóri næsta fundar, fundarritari Ingólfur Gíslason.
Siðfræðistofnun heldur fyrirlestraröð: Björn heldur fyrirlestur þar og ætlar að fjalla um lýðræðislegt hagkerfi. Viðburðurinn verður auglýstur hjá félaginu. Íris minnti Björn á að hann væri fastur penni hjá Vefriti hugvísindastofnunar Hugrás og að hann gæti hugsanlega ritað grein þar út frá efni fyrirlesturs síns. Íris er í ritstjórn vefritsins.
Fundi slitið 21.52.