Fundargerð stjórnarfundar 1. febrúar síðastliðinn þar sem meðal annars var rætt um tillögur að stjórnarskrárbreytingum. Fundi var frestað og mun fram haldið þriðjudaginn 8. febrúar.

Kristinn Már stýrði fundi og Björn ritaði fundargerð.
Mætt: Sólveig Alda Halldórsdóttir, Íris Ellenberger, Dóra Ísleifs, Kristinn Már Ársælsson, Björn Þorsteinsson, Örnólfur E. Rögnvaldsson, Gústaf A.B. Sigurbjörnsson, Hjalti Hrafn Hafþórsson, Hjörtur Hjartarson

1. Niðurstaða hæstaréttar og stjórnlagaþingið.
Kristinn Már lagði fram tillögu að ályktun. Tillagan rædd og breytingar gerðar.

2. Tillögur félagsins til stjórnlagaþings.
Tillögurnar lesnar og ræddar. Mikil umræða varð um þá „dýnamík“ sem skapast á þingi sem er saman sett með þeim hætti sem tillögurnar gera ráð fyrir. Björn varpaði fram þeirri spurningu hvort slembivalsfulltrúarnir séu e.t.v. of fáir. Kristinn benti á greinargerðina með tillögunum. Gústaf spurði hvort breytingar á fjölda þingmanna (einkum fækkun þeirra) hefðu verið ræddar. Hjörtur kvað svo vera. Gústaf minnti á greiningu á fjölda þingmanna pr. höfðatölu. Kristinn Már taldi að nær væri að fjölga þingmönnum en fækka og Dóra tók undir það. Hjalti Hrafn minnti á að dýnamíkin á þinginu yrði hvort eð er allt önnur en verið hefði. Íris benti á að í raun þyrftu slembivalsfulltrúarnir að vera jafn margir og hinir fulltrúarnir til samans, svo unnt verði að jafna kynjahlutföll í öllum tilfellum. Íris lýsti öðrum efasemdum um jöfnunarákvæðin. Dóra varpaði fram þeirri hugmynd að jöfnunarreglan verði látin gilda fyrir alla þingmannaflokkana þrjá og tóku fundarmenn undir það. Fram kom tillaga um að tala slembivalsfulltrúa verði breytileg þannig að þeim sé bætt við uns jöfnun og fjöldi þingmanna sé því breytilegur, eins og gert var í stjórnlagaþingskosningunum. Þingmenn verða þá að hámarki 83 talsins.

„Þegnskylda“ slembivalsfulltrúa. Stjórnlagaþingshópur klofnaði í afstöðu sinni til þessa máls. Kristinn Már benti á að reynslan væri sú frá Porto Alegre og víðar að lágtekjuhópar og lítt menntað fólk mæti illa til þings. Gústaf velti fyrir sér hvort launahækkunin sem í þessu felst fyrir lágtekjufólk gætu ekki verið góður hvati. Dóra talaði um rannsóknir sem sýna fram á að fjöldi fólks er ónæmt á peninga sem hvata. Kristinn rakti þau rök Hjartar að þvingunin sem felst í slembivalskerfi með stífri þegnskyldu gæti reynst „counter-productive“. Dóra dró fram hliðstæðu milli þingsetu og fæðingarorlofs. Hjalti Hrafn benti á vandkvæðin sem í því felast að þingmenn þyrftu að flytja til Reykjavíkur. Rætt um að halda þegnskyldunni á lofti eins og hún sé ekkert vandamál, en fara í saumana á vandkvæðum í greinargerðinni. Nefna þar að til greina komi að stytta kjörtímabil slembivalsfulltrúa. Örnólfur spurði hvort rætt hefði verið að hafa slembivalið oftar, t.d. á eins eða tveggja ára fresti. Það var rætt í málefnahópnum. Kristinn Már benti á „málamiðlunartillöguna“, lið (c) í tillögum hópsins, um að fólk megi segja nei við þingsetu en gætt verði að jöfnun m.t.t. kyns, aldurs, menntunar og tekna.

Rætt um greinargerðina með tillögunum og möguleikann á að vísa erfiðum útfærsluatriðum þangað.

Kristinn Már benti á að varaþingmenn verði til staðar í kerfinu.

Hjörtur vakti máls á 70 ára aldurstakmarki slembivalsfulltrúa og Kristinn Már benti á að í greinargerðinni komi fram að fólk megi gefa kost á sér í slembival þótt það hafi náð þessum aldri.

Gústaf spurði um skörun slembivalsfulltrúa milli þinga, þ.e. að kjörtímabil þeirra standist ekki á við kjörtímabil fulltrúa úr hinum hópunum tveimur. Kristinn Már benti á að þá gætu hinir fulltrúarnir myndað blokkir og slembivalsfulltrúarnir einangrast.

Hjörtur og Björn töluðu um mikilvægi þess að tillögurnar væru sem skýrastar og að fram komi í greinargerð að kerfið verði í stöðugri endurskoðun, sérstaklega fyrstu árin eftir að því er komið á. Hjörtur ítrekaði hversu verðmæt slembivalshugmyndin er.

Íris benti á að konur komi iðulega illa út í persónukjöri. Ítrekaði nauðsyn þess að jöfnunarákvæði séu inni í tillögunum. Kristinn Már ítrekaði tillögu Dóru um að 50/50 reglan eigi að gilda í öllum flokkunum þremur.

Kjördæmi. Þau verða flest 21 talsins. Hlynur Hrafn stakk upp á að kjördæmin verði sjö talsins, og hvert kjördæmi hafi þá þrjá þingmenn. Dóra spurði um atkvæðavægi og urðu nokkrar umræður um það. Hjörtur spurði um regluna um einn mann, eitt atkvæði. Kristinn benti á að hagsmunir fari eftir búsetu. Dóra spurði hvort kjördæmin mættu vera tvö. Kristinn taldi að þá yrði slagsíðan of mikil höfuðborgarsvæðinu í vil. Örnólfur benti á að tillögur okkar um kosningakerfið gæti leyst þetta vandamál af sjálfu sér.

Ráðherrar. Rætt um nauðsyn þess að nefna í tillögunum að sjömannanefndin ráði sér starfsmann. Vísa því til greinargerðar. Kristinn benti á að ferlið væri svipað því sem tíðkast þegar skólastjórar eru ráðnir. Þó er nefndin sem ræður þá ekki valin með slembivali.

Fyrirtæki. Bent var á að eignarhald er ekki nefnt í ákvæðinu og er það með ráðum gert.

Borgaraþing. Gústaf benti á nauðsyn þess að taka fram að þetta ákvæði hangi saman við útfærsluna á samsetningu þingsins.

Þjóðaratkvæðagreiðslur. Hjörtur las tillögu sína um slíkar atkvæðagreiðslur. Kristinn spurði um fyrirvara við mannréttindaákvæði og Hjörtur skýrði þau með skírskotun til slæmra fordæma frá öðrum löndum. Kristinn velti fyrir sér eignarréttarákvæðum og benti á að þau ættu ekki að vera undanþegin; fyrirvari ætti að ná til félagslegra mannréttinda einna.

Gústaf vakti máls á mikilvægi þess að auð atkvæði í kosningum séu talin sér, en ekki flokkuð með ógildum atkvæðum.

Kristinn lagði til að fundi væri frestað og var það samþykkt. Boðað verður til framhaldsstjórnarfundar í næstu viku.

Fundi frestað kl. 22:45.