Fundargerð stjórnarfundar 1. mars síðastliðinn þar sem meðal annars var rætt um stjórnlagaráð.

Mættir voru: Helga Kjartansdóttir, Íris Ellenberger, Björn Þorsteinsson, Sigríður Guðmarsdóttir, Kristinn Már Ársælsson er ritaði fundargerð og Halldóra Ísleifsdóttir er stýrði fundi. Einnig komu á fundinn, Eygló Þóra Harðardóttir, Hjörtur Hjartarson, Gústav A. B. Sigurbjörnsson og Hjalti Hrafn.

1. Stjórnlagaráð og tillögur til stjórnlagaþings

Skiptar skoðanir voru um ágæti tillögu þingmannanefndar um að skipa þau 25 sem voru efst í kosningu til stjórnlagaþings. Sumir töldu að tillaga Alþingis gengi ekki gegn ákvörðun nefndar Hæstaréttardómara og það rétt þingsins að skipa slíka nefnd en aðrir að hugsanlega væri verið að setja varhugavert fordæmi með því að þingið skipi eftir sem áður þá fulltrúa sem valdi voru í kosningu sem ákvörðuð var ógild. Stjórnin taldi mikilvægt að halda á lofti fyrri ákvörðun um að að ef ekki yrði boðað til kosninga bæri að velja stjórnlagaþingsfulltrúa með slembivali. Ákveðið að þeim tillögum yrði komið á framfæri við meðferð málsins í þinginu og óskað eftir því að fulltrúar félagsins kæmu að umræðum í allsherjarnefnd. Spurt var um hvort viðbrögð hefðu fengist við ályktun félagsins frá þingmannanefndinni sem fjallaði um framtíð stjórnlagaþingsins en ekki var vitað til þess. Einnig var ákveðið að Kristinn og Íris myndu skipuleggja fund/málþing um tillögur félagsins til stjórnlagaráðs/stjórnlagaþings. Rætt var um mikilvægi þess að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur frá stjórnlagaþingi þar sem kosið yrði um hverja grein fyrir sig og vísað til fyrri umræðu á fundum í félaginu þess efnis. Minnt var á mikilvægi þess að breytingar á stjórnarskrá séu gerðar af borgurunum með beinum hætti og að ferlið sé hafið yfir allan vafa. Í því sambandi var vísað í stjórnarskrártillögur félagsins, sérstaklega hvað varðar breytingar á stjórnarskrá þar sem gert er ráð fyrir stjórnlagaþingum sem á sitja fulltrúar þjóðarinnar. Von er á lokaútgáfu stjórnarskrártillagna félagsins á næstunni. Kynnt var ályktun frá Hirti Hjartarsyni (sem sjá má að neðan) og hún rædd en ákveðið að félagið leggði áherslu á uppkosningu og slembival að svo stöddu a.m.k. – og samþykkt að ný ályktun í þeim anda yrði samin og samþykkt í rafpósti milli stjórnarmanna.

2. Fundur um upplýsingamál (Wikileaks).

Ákveðið var að skipa nefnd sem hefur það hlutverk að koma með tillögu að þessum fundi fyrir næsta stjórnarfund. Í nefndina skipuðust, Kristinn Már, Kolbeinn, Helga og Hjalti. Lesið var upp bréf frá Málfríði Garðarsdóttur sem stendur að miðlinum Krítík sem til stendur að gefa út. Erindi Fríðu varðaði annars vegar um rekstur lýðræðisleg fyrirtækis og var því vísað til hóps um lýðræðisleg fyrirtæki til afgreiðslu, og hins vegar um fund umm upplýsingamál og fjölmiðla. Haft verður samband við Málfríði og henni boðið að taka þátt í skipulagningu fundarins. Forsaga þess að ákveðið var að halda slíkan fund var rakin – harkaleg viðbrögð fyrirtækja og opinberra aðila við það að Wikileaks birti gögn um störf opinberra starfsmanna, sem starfa í þágu og umboði almennings.

3. Deildir, skráningar og kynning.

Félaginu barst bréf þar sem lýst var áhuga á því að stofna deild úti á landi. Var tekið vel í þá hugmynd en vangaveltur hvort tímasetningin væri heppileg. Ákveðið var að hafa samband við þann sem lýsti áhuga og heyra nánari hugmynd og að hún yrði svo rædd. Varðandi skráningar var ákveðið að skrifaðar yrðu fleiri greinar um starfið í félaginu til að vekja á því athygli.

4. Þjóðaratkvæðagreiðsla um IceSave.

Félagið hafði áður samþykkt tillögur um að forsetaembættið yrði lagt af í núverandi mynd og að málskotsréttur útfærður þannig að minnihluti þings og/eða tilgreindur hluti kjósenda geti knúið á um þjóðaratkvæðagreiðslu. Almenn samstaða var um það á fundinum að slíkt vald ætti ekki að vera í höndum eins manns, stefna félagsins væri að dreifa valdi. Rætt um mikilvægi þess að haldnar séu þjóðaratkvæðagreiðslur um stór mál. Minnt var á mikilvægi upplýsingamiðlunar þegar í hönd fara þjóðaratkvæðagreiðslur, og rætt var um hlutverk RÚV í því sambandi.

5. Dómur í málin níu-menninganna.

Nokkrar umræður urðu um málaferlin en flestir á því að það sé mjög alvarlegt að Alþingi ákæri fyrir árás gegn Alþingi, sem við liggur a.m.k. árs fangelsi. Sumir töldu mikilvægt að horfa á formið, það sé afar sjaldgjæft að mótmælendur séu ákærðir fyrir slík brot í lýðræðisríkjum en hins vegar algengt í einræðisríkjum og þar sem verulega skortir upp á lýðræðið. Ákæran séu skilaboð valdastofnunar til mótmælenda. Velt var upp þeirri spurningu hver sé réttur almennings til þess að fylgjast með þingstörfum en bent var á að gripið var inn í för fólksins áður en það kom á þingpalla og/eða truflaði eða reyndi að ráðast gegn sjálfræði þingsins. Birni var falið að kanna nánar hvort ástæða sé til þess að kallað verði eftir rannsókn á málatilbúnaði Alþingis og málaferlinu í heild.

6. Önnur mál.

Rætt var um málefni hópanna. Stjórnlagaþingshópur hefur lokið tillögugerð en á eftir að skila lokatillögum með ítarlegri greinargerðum, þeirra er að vænta. Hópurinn mun fylgja eftir tillögunum með því að koma þeim á framfæri við stjórnlagaþing/stjórnlagaráð, halda opinn fund og með öðrum leiðum eftir því sem þurfa þykir. Málefnahópar um lýðræðislegt hagkerfi og um lýðræði á sviði stjórnmálanna funda á næstunni. Starfið í fyrrnenfnda hópnum hefur gengið sérlega vel en margir hafa sótt þar fundi og mikill áhugi. Síðarnefndi hópurinn hefur legið svolítið í dvala á meðan hópurinn um breytingar á stjórnarskránni lauk verkum en fer aftur af stað á næstu dögum. Sérstaklega var rætt um málefni hóps um sjálfbært hagkerfi en þar þykir mönnum svolítið vanta upp á. Ákveðið var að félagsmenn myndu ýta við áhugasömum til að koma hópnum af stað en einnig var rætt um að félagið léti meira til sín taka hvað varðar umhverfismálin og bent á að félagið hafi ekki ályktað á því sviði.

Halldóra sleit fundi um 22:30.