Lýðræði, alvöru lýðræði
Flokka-fulltrúalýðræðið er í kreppu af ýmsum sökum, m.a. vegna þess hversu vald virðist þjappast innan kerfisins og innan flokkanna og þeirra stofnana sem þeir tengjast. Stjórnmálakerfið í heild býður upp á spillingu með því að vald getur safnast saman á fárra hendur, fáir koma að ákvarðantökunni og upplýsingagjöf er ekki opin að ónefndum beinum löglegum hagsmuna- og fjárhagstengslum sem geta haft óeðlileg áhrif á niðurstöðu mála.
Rannsóknir hafa sýnt fram á að nokkur munur er á hagsmunatengslum og því hverju ráði ákvarðanatöku fulltrúa sem valdir eru með ólíkum hætti, s.s. flokkakjöri, persónukjöri og slembivali. Slembivalsfulltrúar líta að jafnaði á sig sem beina fulltrúa allra meðan flokkakjörnir eru fulltrúar eigin kjósenda. Alda telur nauðsynlegt að fjölga þeim aðferðum sem notaðar eru við val á fulltrúum almennings í opinber embætti á borð við þingmennsku. Í því sambandi þarf slembival og persónukjör að koma til viðbótar flokkakjörinu og tilnefningum stjórnmálaflokka í embætti.
Alda hefur þegar lagt til að á Alþingi verði fulltrúar valdir með þremur leiðum: flokkakjöri, persónukjöri og slembivali. Einnig hefur félagið lagt fram tillögur um að dómarar verði valdir með slembivali að undangengnu hæfnismati og að ráðherrar séu kosnir beinni kosningu að undangengnu forvali slembivalsnefndar almennra borgara og opnu umsóknarferli. Margar fleiri slíkar lýðræðislegar leiðir eru hugsanlegar við val á fulltrúum og embættismönnum sem tryggja aðkomu almennings að ákvarðanatöku, dreifa valdinu og draga úr líkum á spillingu.
Jafnrétti er forsenda lýðræðis og mikilvægt að sem flestir þjóðfélagshópar komi að borðinu. Tryggja þarf jöfn hlutföll kynjanna í allri ákvarðanatöku. Einnig er æskilegt að leitað sé leiða til að tryggja þátttöku annarra minnihluta- og jaðarhópa, t.d. hinsegin fólks, fólks með fötlun og láglaunafólk svo dæmi séu tekin. Rannsóknir sýna að ýmsir hópar samfélagsins hafa hlutfallslega mun færri málsvara við opinbera ákvarðanatöku. Nauðsynlegt er í lýðræðisríki að gæta þess að allir þjóðfélagshópar eigi beinan þátt í ákvarðanatöku.
Upplýsingagjöf
Ein af grunnstoðum lýðræðisins er gagnsæi í ákvarðanatöku, þar sem öllum er frjálst að kynna sér forsendur og ferli ákvaðanatöku. Takmarkanir á aðgengi að upplýsingum koma í veg fyrir að almenningur hafi tækifæri til að kynna sér forsendur og eiga hlutdeild í þeim ákvarðanatökum sem fram fara.
Samfélagsgerð sem kennir sig við lýðræði hlýtur að byggja á opinni og gagnsærri ákvarðanatöku þar sem aðgengi að fundum og upplýsingum er varða ákvarðantöku fyrir hönd almennings séu hverjum sem er opið og einfalt. Erfitt er að átta sig á hvernig hagsmunum almennings er betur borgið í lýðræðisríki með því að ákvarðanir séu teknar í ógagnsæu og lokuðu ferli – líklegra er að slíkt ferli þjóni hagsmunum annarra hópa.
Alda leggur til að allir opinberir fundir verði opnir almenningi og öll gögn varðandi ákvarðanatöku fyrir hönd almennings séu gerð aðgengileg á skilvirkan hátt þannig að almenningur eigi auðvelt með að fá yfirsýn yfir opinber gögn og finna þær upplýsingar sem hann sækist eftir. Þó má gera ráð fyrir takmarkanir á aðgengi almennings að upplýsingum sem falla undir ákvæði um vernd persónuupplýsinga og að gögnum sem tengjast beint opnum lögreglurannsóknum. Félagið leggur einnig til að almenningi sé gert kleift að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri á beinan hátt við þá sem hann hefur kosið til að fara með vald sitt.
Borgaraþing
Í sönnum lýðræðisríkjum á aðkoma almennra borgara að ákvarðanatöku að vera tryggð. Sem stendur hefur almenningur fá úrræði utan almennra þingkosninga fjórða hvert ár. Víða um heim eru haldin borgaraþing þar sem ákvarðanir eru færðar í opið lýðræðislegt ferli með aðkomu almennra borgara og má í því sambandi nefna tvö dæmi.
Stór hluti fjárhagsáætlunar brasilísku borgarinnar Porto Alegre hefur verið ákveðinn í þátttökuákvörðunarferli þar sem um 8% borgarbúa taka þátt árlega í ferlinu. Í borginni búa um 1,4 milljónir manna og hefur þessi aðferð verið notuð frá lokum 9. áratugar síðustu aldar með góðum árangri. Meðal þeirra breytinga sem leitt hafa af lýðræðisvæðingunni eru:
1. Spilling hvarf, enda ferlið opið og gagnsætt – engar leiðir innan kerfisins til þess að lauma fjármagni til tengdra aðila.
2. Fjármagn fluttist í meira mæli til fátækari svæða frá ríkari svæðum.
3. Grasrótarstarf efldist verulega, fólk tók sig saman um að stofna félög um forgangsröðun verkefna innan hverfa og svæða borgarinnar.
Í Bresku Kólumbíu í Kanada var ákveðið að gera breytingar á kosningalöggjöfinni og farin sú leið að skipa slembivalsþing. Þar voru valdir með handahófi úr þjóðskrá 160 borgarar (með jöfnu kynjahlutfalli) sem komu saman og unnu tillögu sem svo var lögð í fylkiskosningu.
Alda leggur áherslu á að borgararþing séu kölluð saman sem oftast, bæði á sveitastjórnastigi og landsvísu. Þegar um er að ræða mál sem krefjast þess víðtæks samráðs við almenning er æskilegt að halda umræðu- og kynningarfundir um allt land, efna til víðtækrar umræðu og kynningar í fjölmiðlum og langur tími gefinn til að ljúka ferlinu. Í hvívetna ætti að velja fulltrúa án þann hátt að borgaraþingið endurspegli ólíka hópa meðal almennings.
Við val á borgaraþingsfulltrúum má notast við persónukjör eða slembival. Slembival er gott tæki til að auka fjölbreytileika þingfulltrúa og viðleitni til að láta hann endurspegla samsetningu samfélagsins. Þó þarf að ríkja meðvitund um að meðlimir jaðarhópa og tekjulágir einstaklingar eru líklegri til að heltast úr lestinni og því þarf að vega upp á móti því að raddir þeirra glatist. Það má t.d. gera með því að forrita slembivalið þannig að það velji sjálfkrafa borgaraþingsfulltrúa úr skilgreindum hópum. Auk þess má kanna hvort innlima mætti frjáls félagasamtök jaðarhópa frekar inn í lýðræðislegt ferli borgaraþinga.
Stjórnlagaþing
Íslenska stjórnarskráin er grundvallartexti íslenskrar stjórnskipunar. Því þykir Öldu brýnt að stjórnarskráin sé lifandi skjal sem taki mið af raunveruleika íslensks samfélags hverju sinni. Því leggur félagið til að Alþingi framselji vald sitt reglulega til stjórnlagaþings til að fara yfir stjórnarskrána og gera nauðsynlegar breytingar á henni. Stjórnlagaþing ætti að vera borgaraþing með lýðræðislega kjörnum fulltrúum almennings. Alþingi og almenningur ættu einnig að geta kallað saman stjórnlagaþing líkt og önnur borgaraþing. En þar sem stjórnarskráin er grundvallarplagg ætti e.t.v. að herða skilyrði varðandi fjölda þeirra þingmanna og almennra borgara sem geta knúið fram stjórnlagaþing.
Þjóðaratkvæðagreiðslur og frumkvæði almennings
Lýðræðið grundvallast á að almenningur og fulltrúar hans fari með stjórn ríkisins. Því er afar mikilvægt að til séu úrræði sem geri almenningi kleift að hafa bein áhrif á löggjöf landsins. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru meðal slíkra úrræða. Þær færa valdið frá ríkisvaldinu til heldur almennings og tryggja honum ríkari rétt til þátttöku í stjórn landsins.
Alda telur mikilvægt að almennir kjósendur geti, með söfnun undirskrifta knúið fram bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um afnám gildandi almennra laga eða lagaákvæða, frumvarp til laga sem þeir sjálfir leggja fram og tillögu að breytingum á ákvæðum stjórnarskrár, annarra en mannréttindaákvæðum. Félagið telur mikilvægt að einfaldur meirihluti kjósenda ráði úrslitum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Einnig telur félagið rétt að tryggja að minnihluti þingmanna geti vísað málum til þjóðarinnar og þannig komið í veg fyrir að meirihlutinn knýi umdeild frumvörp í gegn. Alda telur jafnframt rétt er að tryggja kjósendum sveitarfélaga sambærileg tækifæri til lýðræðislegra áhrifa.
Rétt er að hafa þjóðaratkvæðagreiðslur sem kjósendur kalla fram bindandi, þannig að þeir séu hvattir en ekki lattir til að lýðræðislegra athafna. Jafnframt skal varast að gera óhóflegar kröfur um fjölda undirskrifta til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslur. Í löndum þar sem kröfur eru gerðar um að 15% kjósenda þurfi til eru slíkar atkvæðagreiðslur nánast orðin tóm. Kröfur um hátt hlutfall undirskrifta hygla almennt séð sterkum pólitískum öflum og valdamiklum sérhagsmunahópum.
Fjármál stjórnmálaflokka
Lýðræði snýst um það grundvallaratriði að borgararnir hafi jöfn tækifæri til áhrifa. Fjármagnseigendur og fyrirtæki eiga ekki, í krafti fjármagns, að geta haft áhrif á stjórnmálin sér í hag. Þá á að fylgja þeirri grundvallarreglu að hver maður hafi eitt atkvæði en ekki að tiltekið fjármagn sé að bakvið hvert atkvæði. Því telur Alda mikilvægt að stjórnmálasamtökum og öðrum frambjóðendum til kosninga, sem beint eða óbeint bjóða fram í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna, séu settar skorður við að taka við fjárhagslegum stuðningi frá öðrum en einstaklingum. Einnig telur félagið rétt að takmarkanir gildi fyrir önnur félög sem taka þátt í stjórnmálaumræðunni, sérstaklega hvað varðar aðgengi að upplýsingum. Mikilvægt sé t.d. að alltaf sé ljóst hver standi að baki pólitískum skilaboðum, s.s. í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðslur.
Félagið telur óeðlilegt að stjórnmálaflokkum sé heimilt að taka við fé frá fyrirtækjum. Jafnframt telur félagið réttast að setja beri þak á upphæðir frá hverjum einstökum stuðningsmanni. Þá á stuðningur hins opinbera skal felast í öðru en beinum fjárframlögum, t.d. í því að búa stjórnmálasamtökum aðstöðu til að sinna lýðræðislegu hlutverki sínu. Ætla má að slíkur stuðningur geti fremur orðið til þess að jafna aðstöðu flokka en beinn fjárhagslegur stuðningur.
Auglýsingar í sjónvarpi og útvarpi eru dýrar, og peningar og valdaaðstaða geta ekki ráðið úrslitum í kosningabaráttu, eigi slík barátta að heita lýðræðisleg. Jafnræði er grundvallaratriði. Eins mega áhrifamestu fjölmiðlar ekki verða háðir auglýsingatekjum frá tilteknum stjórnmálasamtökum. Þessi sjónarmið eru almennt viðurkennd í lýðræðisríkjum og af fræðimönnum. Því er brýn nauðsyn að setja í grundvallarlög skýr ákvæði sem tryggja að sett verði almenn lýðræðisleg löggjöf um pólitískar auglýsingar og kynningar í öflugustu fjölmiðlum. Þannig skal takmarkað hversu miklu fé stjórnmálaflokkar mega eyða í auglýsingar fyrir kosningar en jafnframt tryggt að stjórnmálaflokkar fái jafnan aðgang að útvarpi og sjónvarpi og öðrum áhrifaríkustu fjölmiðlunum hverju sinni til að kynna stefnumál sín.