Meginhugsjónir Lýðræðisfélagsins Öldu eru tvær: lýðræði og sjálfbærni.
Markmið Lýðræðisfélagsins Öldu er að lýðræðið nái til allra sviða þjóðfélagsins. Þar er svið efnahagslífsins engin undantekning. Raunar sýna fordæmin að það er ekki síst á því sviði sem lýðræðisumbóta er þörf.

Samfélag sem einkennist af óheftri útþenslu og hundakúnstum fjármagnsins verður aldrei lýðræðislegt í raun. Valdið færist frá fólkinu til þeirra sem véla um fjármagnið. Úr verður fámennisstjórn auðmanna og taglhnýtinga þeirra. Útþenslu fjármagns fylgir óhjákvæmilega sóun á auðlindum með tilheyrandi umhverfisspjöllum og röskun á vistkerfi og náttúru.

Lýðræðisleg fyrirtæki
Gegn þessari afbökun lýðræðisins teflir Lýðæðisfélagið Öldu einfaldri grunnhugmynd sem er trú innsta kjarna hugmyndarinnar um lýðræði. Fyrirtæki og stofnanir lúti lýðræðislegri stjórn starfsmanna, eitt atkvæði á mann. Starfsmenn kjósa sér fulltrúa sem stjórna fyrirtækinu. Umboð stjórnenda þarf að endurnýja reglulega. Starfsmenn búa þar að auki yfir úrræðum til að víkja stjórnendum frá þegar þörf krefur og til að leggja einstök mál í dóm starfsmannasamfélagsins með almennum atkvæðagreiðslum.
Eðli málsins samkvæmt munu lýðræðislega rekin fyrirtæki miða að öðru en sem mestum skammtímahagnaði. Þau munu miða að sjálfbærum rekstri, gagnsæjum stjórnarháttum, atvinnuöryggi, launajöfnuði og góðum félagslegum aðbúnaði starfsmanna.

Félagslegt bankakerfi
Til að markmiðið um lýðræðislegt hagkerfi náist þarf að setja útþenslu fjármagnsins verulegar skorður. Lýðræðisfélagið Alda stefnir að því að öll hlutabréfaviðskipti og fjármálagerningar sem grundvallast á ávöxtun fjármagns heyri sögunni til. Fyrirtæki greiði leiguskatt sem renni til fjármögnunar fyrirtækja og nýsköpunar. Leiguskatti er dreift til byggðarlaga miðað við höfðatölu. Þar taka lýðræðislegar og faglegar bankastofnanir við fjármunum og veita styrki til atvinnureksturs. Umsóknir um styrki sem skapa atvinnu hafa forgang.

Markaðurinn áfram
Markaðir fyrir vörur og þjónustu verða áfram líkt og hingað til. Markaðurinn þjónar þeim tilgangi að miðla upplýsingum um framboð og eftirspurn svo fyrirtækin geti tekið skynsamlegar ákvarðanir um framleiðslu. Samkeppnin byggi ekki lengur á því að komast í einokunarstöðu heldur á skynsamlegri framleiðslu.

Velferðarkerfi
Til staðar verði öflugt velferðarkerfi með jöfnum aðgangi að menntun, heilbrigðisþjónustu og lífeyri. Atvinnuleysi verður ekki lengur talið eðlilegt. Stefnt er að fullri atvinnu. Bankakerfið hefur það grundvallarmarkmið að skapa atvinnu, og ríkisvaldið ræður fólk til að halda uppi öflugu velferðarkerfi og styrkja innviði samfélagsins.

Styttri vinnutími – sanngjörn laun
Lýðræðisfélagið Alda vill afnema launamisrétti og vinnuþrælkun og telur vinnutíma of langan. Í dag er tekjumunur innan fyrirtækja jafnvel 500 á móti 1. Í lýðræðislegu hagkerfi má gera ráð fyrir tekjumun innan fyrirtækja upp á u.þ.b. 9 á móti 1. Starfsmönnum gefst loks færi á því að velja á milli hærri launa eða meiri frítíma því ekki er lengur þrýstingur á að vinnandi fólk starfi sem lengst fyrir sem minnst. Markmiðið er sjálfbært hagkerfi jöfnuðar en ekki botnlaus auðsöfnun og auðlindasóun í þágu fárra.

7 Thoughts to “Stefna: Lýðræðislegt hagkerfi”

  1. Nils Gíslason

    Ég hef fylgst með umræðu ykkar af áhuga en eg trúi varla eigin augum varðandi málsgreinina hér ofanvið. þar segir: „Í lýðræðislegu hagkerfi má gera ráð fyrir tekjumun innan fyrirtækja upp á u.þ.b. 9 á móti 1. “ Fyrirgefið mér orðalagið, en eruð íð með öllum mjalla??? Þetta er meira en löglegt er í landinu í dag hjá hinu opinbera!!! af venjuleg laun eru um 200 Þ þá verði topplaun hjá líðræðisgélaginu Aldan 1.800 þ kr. Hvað kom fyrir ykkur. ég var að vona að þett væri stafsetningarvilla fyrst þegarég sá þetta!!
    er tala 3 ekki nær lagi. Hún er alda gömul hér á landi í hlutaskiptum í Útgerð!!
    Sá sem telur sig eiga rétt á að hafa nýföld venjuleg laun þarf að fara í meðferð og er ónothæfur í allri þjóðfélagsmræðu þar til hann hefur náð heilsu.

    Nils Gíslason

  2. Kristinn Már Ársælsson

    Sæll Nils,

    Takk fyrir athugasemdina og jú við erum með öllum mjalla. Mér þætti vænt um að þú slepptir þessum upphrópunum og að við skiptumst bara á skoðunum. Ábendingin þín er þörf og góð enda punktur sem hefur margoft verið ræddur í félaginu. Það sem er verið að vísa til þarna með 1 á móti 9 er tekið úr erlendum rannsóknum á samvinnufyrirtækjum sem benda til þess að án sérstakra laga eða þrýstings að þá skili lýðræðisformið, eitt atkvæði á mann, sjálfkrafa jöfnun í för með sér sem gera máð ráð fyrir að minnki launamuninn úr því sem þekkist í dag, upp undir 500 á móti 1 niður í 9 á móti 1 sem verður að teljast verulegur árangur. Innan félagsins er almenn samstaða um að þörf sé á að jafna launamun og margir sammála þér, ég þar á meðal, um að 9 á móti 1 sé enn of mikið. Hins vegar eru skiptar skoðanir um hvort ganga eigi svo langt að kveða á um að það sé reglubundið 1 á móti 1 eða einhver önnur mörk. Hins vegar hefur það líka komið til tals að setja inn í stefnu félagsins að stefnt skuli að 1 á móti 1 samhliða öðrum breytingum á samfélagsgerðinni. Næsti stjórnarfundur er á þriðjudag í næstu viku og þar gefst færi á að breyta og eða bæta við stefnuna. Ef þú hefur áhuga á að mæta eða senda inn tillögu til breytinga er það velkomið. Enn og aftur, takk fyrir ábendinguna og ég vona að þetta hafi skýrt málið eitthvað frekar.

    Kær kveðja,
    Kristinn Már

  3. Nils Gíslason

    Sæll Kristinn. Það lýsir bara hversu fráleit mér virðist þessi hugmynd!,-kominn frá ykkur í lýðræðisfélaginu. Þetta væri ekki vert umræðu ef það hefði komið frá félagi bankastjóra.
    Ég fékk von um að það fólk sem kæmi saman í lýðræðisfélaginu og sýndi þeim hugmyndum áhuga, væri hugsjónafólk sem hefði einhver háleit markmið, en þessar hugleiðingar 9x bendir til þess að drifkraftur sumra að minnsta kosti sé hin gamla og nýja GRÆÐGI. það er alltaf möguleki á að koma sér fyrir með nýföld laun í hugmyndakerfum sem ekki hafa því sterkari og fastari grundvöll að byggja á.
    Svo að mínar skoðanir komi hér fram um Lýðræðisfélagið og það sem ég hef skynjað þaðan er sú hugmynd ykar að LÝÐÆÐI geti leyst allan vanda. Stareynd reynslunnar er sá að það eru ekki til einfaldar patent lausnir. Mér finnst vanta verulega mikið á sjálfs-gagnrýni og gagnrýni á lausnir LÝÐRÆÐIS.
    Þar sem mikið ríður á að alt sé í góðu – fullkomnu lagi, þás treystm við á einræðisherra með aðstoðarmann. Þar má nefna flugstjóra, skipstjóra, lækna, o.sv. frv. Lýðræði er í mesta lagi TÆKI sem hægt er að nota og getur virkað vel við réttar kringumstæður eins og til dæmis skrúfjárn það virkar vel á þær skrúfur sem hæfa því en annars ekki.
    Þetta er mitt innlegg. Það sem verður að vera grundvöllur við að stjórna samfélagi, er að safna saman heilsteyptu fólki með hugsjónir og þekkingu og umfram allt Siðferðilegan grundvöll til að byggja allt á.
    Ég vona að allt gangi ykkur í haginn og óska ykkur alls hins besta.

    Nils Gíslason

  4. Bjartur Thorlacius

    Hvernig á lýðræði innan fyrirtækja að minnka einokun?

  5. Bjartur Thorlacius

    Hvernig dreifist þessi leiguskattur á fyrirtæki?

  6. Bjartur Thorlacius

    Hvernig verður ákveðið hve hár leiguskattur skuli vera? Árlegri þjóðaratkvæðagreiðslu?

  7. Björn Þorsteinsson

    Sæll Bjartur og takk fyrir afar góðar spurningar. Hérna koma svör við þeim:

    (1) Það er auðvitað ekki hægt að fullyrða að lýðræðislegur rekstur allra fyrirtækja komi alveg í veg fyrir einokun. En ætla má að lýðræðislega rekin fyrirtæki verði rekin með annað en takmarkalausan hagnað og útþenslu að leiðarljósi. Þar af leiðandi er líklegra að mörg fyrirtæki þrífist á sama markaði í stað þess að eitt fyrirtæki verði smám saman öflugast og yfirtaki hin, eitt af öðru.

    (2) Leiguskattinum er dreift til sprotafyrirtækja að bestu manna yfirsýn, ef svo má segja, þ.e. ung og upprennandi fyrirtæki sækja um styrki og faglega skipaðar nefndir sjá um að úthluta peningum til þeirra á sama hátt og tíðkast í rannsóknasjóðum á borð við Rannís.

    (3) Ákvarðanir um leiguskattsprósentuna ber að taka á sem lýðræðislegastan hátt. Eðlilegast er að ríkisstjórnin sjái um þau mál að öðru jöfnu en borgararnir geta tekið sig saman og óskað eftir þjóðaratkvæði um prósentuna hvenær sem er, sbr. tillögur Öldu til stjórnlagaráðs hér á vefsíðunni (http://lydraedi.wordpress.com/2011/04/06/tillogur-til-stjornlagarads/).

    Kær kveðja, Björn

Comments are closed.