Stjórnarfundur í Lýðræðisfélaginu Öldu 7. júní 2011 á Café Haiti kl. 20:00.

Mætt voru Helga, Harpa, Kristinn Már, Sigríður, Björn, Dóra (stjórnarmenn) og Júlíus, Birgir Smári Ársælsson og Metúsalem (almennir félagsmenn).

Helga stýrði fundi og Björn ritaði fundargerð.

1. Umsögn um tillögur Stjórnlagaráðs, sjá http://lydraedi.wordpress.com/2011/05/30/umsogn-um-tillogur-stjornlagarads/#more-412. Kristinn Már reifaði umsögnina. Nokkur umræða hefur skapast um umsögnina á vef Stjórnlagaráðs, sjá http://stjornlagathing.is/erindi/nanar/item33621/. Rætt var um tillögur félagsins til Stjórnlagaráðs og leiðir til að koma þeim á framfæri og helst inn í stjórnarskrártillögu ráðsins sem væntanleg er í júlímánuði. Rætt um borgaraþing og slembival í því sambandi. Samþykkt að málefnahópur um stjórnlagaþing fundi hið fyrsta og marki stefnu hvað þetta varðar.

2. Frumvarp til sveitarstjórnarlaga. Félagið sendi umsögn til þingnefndarinnar (samgöngunefndar) sem hefur frumvarpið til meðferðar, sjá http://lydraedi.wordpress.com/2011/05/30/umsogn-um-frumvarp-til-sveitarstjornarlaga/. Kristinn Már gerði grein fyrir einstökum liðum umsagnarinnar og þeir voru ræddir. Almenn ánægja var meðal fundarmanna með þær lýðræðisframfarir sem felast í frumvarpinu og koma m.a. fram í hugmyndum um borgarafundi og íbúaþing. Sigríður spurði um 3.-4. lið í umsögn félagsins, einkum m.t.t. kosningar framkvæmdastjóra sveitarfélags og velti fyrir sér jafnræðisreglu stjórnsýslunnar í því sambandi. Mikil umræða skapaðist um þetta atriði og voru fundarmenn á því að hér þyrfti að huga vel að því hvernig meginreglan um lýðræðisvæðingu væri útfærð.

Kristinn Már og Dóra ræddu um mikilvægi þess að ákvarðanir borgarafunda væru bindandi og að lækka þyrfti hlutfall þeirra kjósenda sem þarf til að íbúafundur sé haldinn, t.d. niður í 10% (í lögunum er talað um 20%).

Rætt var um að halda málþing í haust um sveitarstjórnarlögin.

3. Málþing um lýðræðisleg fyrirtæki

Helga og Björn sögðu frá málþinginu sem haldið var sunnudaginn 29. maí. Um 20 manns sóttu þingið sem var vel heppnað í alla staði. Rætt um mikilvægi þess að útfæra nánar hugmyndir um lýðræðisvæðingu fyrirtækja og stofnana, t.d. m.t.t. spurninga um atkvæðisrétt. Halda þarf fleiri fundi og málþing um efnið.

4. Störf málefnahópa

Starfsemi málefnahópa, annara en stjórnlagaþingshóps, verður með minnsta móti í júní og júlí en verður endurvakin í ágúst.

5. Viðburðir í haust

Haldið verði málþing um sveitarstjórnarmál (sjá lið 2). Rætt um fund um lýðræðisvæðingu í Arabalöndum, Sigríður skoðar málið. Rætt um fund á vegum málefnahóps um lýðræðislegt hagkerfi, t.d. á sviði félagslegs hagkerfis (lýðræðisvæðing lífeyrissjóða) með þátttöku verkalýðsfélaga.

6. Húsnæðismál

Ýmsir kostir eru í stöðunni, Sólveig Alda sér um málið.

7. Önnur mál

Engin mál voru borin upp undir þessum lið.

Helga sleit fundi kl. 22:00.