Fundinn sátu Sólveig Alda Halldórsdóttir, Kristinn Már Ársælsson, Helga Kjartansdóttir, Björn Þorsteinsson, Dóra Ísleifsdóttir. Fundurinn var haldinn á Café Haiti.
Fundarstjóri var Kristinn Már, Dóra ritar fundinn.

1. Stjórnlagaráð
2. Dagskrá haustsins (málefnafundir, aðalfundur)
3. Önnur mál

1. Kristinn leggur til að Aldan lýsi í megindráttum yfir stuðningi við tillögu stjórnlaganefndar en geri tillögur í átt að beinna lýðræði í samræmi við stefnu Öldunnar þar sem það á við. Það er samþykkt. Rætt er um framgang fjölmiðla og hvernig umræðan virðist vera að þróast í að fjalla aðeins um stjórnlaganefndina sjálfa fremur en að snúast efnislega um tillögu að stjórnarskrá. Björn leggur til að Aldan haldi málþing um tillögur stjórnlaganefndar síðari hluta septembermánaðar.

2. Lýðræðislegt hagkerfi (Björn segir frá). Stefna er mótuð og komin á blað. Nú liggur fyrir að skoða lífeyrissjóðina og lýðræðisvæðingu þeirra. [Ath. stofnaður hefur verið hópur á FB sem ber yfirskriftina „Lífeyrissjóðina til fólksins“, e.t.v. rétt að kanna það og skoða samstarf.]
Fulltrúar málefnahópanna fara yfir stöðuna í hverjum hópi. Stefnt að því að halda fund í þeim öllum strax eftir mánaðarmót. Fram kemur að hökt hefur verið í starfi málefnahóps um sjálfbært lýðræði en aðrir hópar hafa náð meiri árangri. Ætlunin er að halda málþing um störf hópanna og málefnin á tímabilinu fram að aðalfundi. Helga leggur til að sent verði erindi út til félagsmanna og annarra sem vitað er að vinna að málefnunum í anda Öldunnar og fólk hvatt til að skrá sig í hópastarfið.

3. Félagatal: Björn leggur til að gert verði skipulegt átak í að stækka félagið. Sólveig segir frá því að fólk hafi skráð sig í félagið yfir sumarið.
Rætt er um undirbúning og boðun aðalfundar. Kristinn Már setur fram til umhugsunar hvort betur færi á að fækka stjórnarmönnum niður í níu með fjórum til vara. Ákveðið er að ræða það nánar á næsta stjórnarfundi. Helga leggur til að bréf verði sent út til félagsmanna þar sem þeir eru hvattir til að bjóða sig fram til stjórnar.
Fjármál félagsins eru rædd lauslega. Húsnæðismál eru í ólestri eftir lokun Hugmyndahúss þó félaginu hafi verið vel tekið á Café Haiti. Félaginu býðst aðild að félagi leigutaka — samkrull ýmissa grasrótarhópa — að Brautarholti 4 og er ákveðið að skoða það áfram. Engin niðurstaða næst í fjáröflunarumræðu nema að halda henni áfram á næsta stjórnarfundi.

Heimasíða er rædd stuttlega. Dóra segir frá því að endurhönnun sé lokið (Anton Kaldal) og nú sé framhaldið í höndum forritara (Guðný Þorsteinsdóttir) og ritnefndar. Enska heiti Öldunnar er rætt og niðurstaðan er (að svo stöddu): Alda – Association for sustainable democracy.

Kristinn Már segir frá því að Guðmundur Hörður hjá Landvernd hafi haft samband við félagið og óskað eftir samstarfi. Kristinn mun fylgja því eftir.