Við höfum, ásamt fjölmörgum grasrótarhópum, tekið húsnæði að Brautarholti 4 til leigu. Húsið gengur nú undir nafninu Grasrótarmiðstöðin. Alda fagnar því að vera komin með samastað en hvetur félagsmenn til að mæta og leggja hönd á plóg við að koma húsinu í stand. 🙂

Alda hefur sent eftirfarandi hvatningu til ráðherra, forseta Alþingis, þingmanna og forsvarsmanna sveitarfélaga.

Lýðræðisfélagið Alda hvetur ríkisstjórn Íslands, Alþingi, Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög til þess að útvega grasrótarfélögum húsnæði og aðstöðu.
Grasrótarstarf félagasamtaka er mikilvægur hluti lýðræðisins, þar sem fólk kemur saman og vinnur að málefnum og uppbyggingarstarfi. Grundvöllur slíks starfs er aðgengilegt húsnæði.
Rannsóknir hafa sýnt að virkni félagasamtaka er til marks um heilbrigt samfélag og hefur í för með sér jákvæð áhrif langt út fyrir félagsstarfið sem slíkt. Í kjölfar hrunsins hafa vaknað til lífsins fjölmargir hópar sem láta sig varða málefni samfélagsins sem hafa ekki aðgang að húsnæði.

Og félaginu berast viðbrögð…

„Í Svalbarðsstrandarhreppi leggjum við félögum í sveitarfélaginu til aðstöðu til fundarhalda og annars félagsstarfs án endurgjalds sé eftir því leitað. Nokkur félög sem starfa í sveitarfélaginu fá auk þess styrki til að mæta kostnaði sem til fellur við rekstur þeirra. Við viljum, eins og þið, hvetja til þátttöku íbúa í félagsstarfi, enda er það mikilvægur þáttur í að skapa og viðhalda samfélagi eins og okkar. Því meira sem félags- og grasrótarstarfið er því meira lifandi er samfélagið“ sagði Jón Hrói, sveitarstjóri í bréfi til félagsins.