Lýðræðisfélagið Alda fagnar framkominni tillögu allsherjarnefndar Alþingis um að ríkisstjórnarfundir verði hljóðritaðir en fordæmir að almenningur þurfi að bíða í 30 ár eftir því að heyra upptökurnar. Almenningur á rétt á því að vita án tafar hvað fulltrúar þeirra ræða við ákvarðanatöku opinberra mála. Réttast væri að fundirnir væru í beinni útsendingu.

Alda vill í þessu sambandi einnig minna á að nefndarfundir Alþingis eru lokaðir, þar eru ekki haldnar fundargerðir og fundir ekki hljóðritaðir. Sömuleiðis eru upplýsingalögin í landinu að meginstefnu til undanþágur fyrir stjórnmálamenn.

Alda krefst þess að allir fundir þar sem fulltrúar almennings ræða opinber málefni og taka ákvarðanir séu opnir og að fundargerðir eða hljóðritanir frá þeim séu aðgengilegar eins fljótt og auðið er. Réttast væri að ákvarðanir fulltrúa almennings taki ekki gildi fyrr en almenningur hefur fengið tækifæri til þess að hlýða á og gera athugasemdir við málflutning fulltrúa sinna. Alda leggur því til að ákvarðanir ríkisstjórnarinnar héðan í frá taki ekki gildi fyrr en eftir 30 ár, eða þegar almenningur hefur fengið að heyra upptökur frá fundum hennar.

Þess má geta að allir fundir Lýðræðisfélagsins Öldu eru opnir, þar haldnar ítarlegar fundargerðir sem birtar eru opinberlega eins fljótt og auðið er.