Stjórnarfundur í Öldu þriðjudaginn 1. nóvember 2011 kl. 20:30 í Grasrótarmiðstöðinni.
Mætt voru Júlíus Valdimarsson, Sigrún Birgisdóttir, Guðni Karl Harðarson, Dóra Ísleifsdóttir, Kristinn Már Ársælsson, Björn Þorsteinsson, Guðmundur D. Haraldsson, Helga Kjartansdóttir, Valgerður Pálmadóttir, Hjalti Hrafn Hafþórsson, Magnús Bjarnarson, Þórarinn Einarsson.
Júlíus stýrði fundi og Björn ritaði fundargerð.
1. Kynning á nýrri stjórn og lagabreytingum frá aðalfundi
Nýir stjórnarmeðlimir kynntu sig í fáeinum orðum. Kristinn Már kynnti lagabreytingarnar sem samþykktar voru á aðalfundinum 15. okt. sl.
2. Umræður um starfið framundan og skipulag félagsins
Kristinn Már greindi frá því að stjórnarmenn væru nánast búnir að ganga frá verkaskiptingu sín á milli. Ákveðið var að verkefni um sjálfbærniþorp félli undir sjálfbærnimálefnahópinn og að verkefni um styttingu vinnutíma félli undir málefnahóp um lýðræðislegt hagkerfi. Til stendur að stofna fleiri hópa, t.d. um innra starf félagsins og alþjóðahóp/miðlunarhóp. Þar að auki má minna á ritnefndina sem sér um vefsíðuna. Sólveig Alda hefur tekið að sér að gegna hlutverki framkvæmdastjóra og Hjalti hlutverki umsjónarmanns málefnastarfs. Kristinn Már gegnir hlutverki gjaldkera.
Kristinn Már sagði frá því að beiðni hefði borist frá Eva Joly Foundation (EJF) um samstarf við Öldu. EJF óskaði eftir því að Alda skilgreindi tvö verkefni sem EJF sér síðan um að afla fjár til. Verkefnin eru:
– Vefsvæði um stjórnarskrárgerð af hálfu almennings (How to make a constitution by the public)
– Gagnagrunnur um raunhæfar lausnir eða valkosti (This is what real democracy looks like!)
Kristinn Már lagði drög að lýsingum þessara verkefna fram til kynningar.
Rætt var um fjárframlög til félagsins. Unnið er að verklagsreglum fyrir félagið um þau efni. Nokkur umræða skapaðist um verkefnin og það hvaðan fjármagnið kæmi. Eftir því sem stjórnarmenn komast næst er fjármagns einkum leitað hjá öðrum sjóðum og stofnunum sem láta sig samfélagsmál og stjórnmál varða.
3. Vefsvæði félagsins
Dóra sagði frá stöðu mála varðandi vefinn. Enskan texta vantar ennþá en að öðru leyti er vefurinn kominn í fullbúið horf og er á mikilli siglingu. Dóra minnti á þann möguleika að hver sem er getur sent inn efni til birtingar á vefnum (áberandi „takki“ sem gegnir þeim tilgangi blasir við á síðunni). Mikilvægt er að félagið haldi úti frjórri og skapandi umræðu – og gjarnan ritdeilum! Rætt um skort á myndefni. Það stendur til bóta. Dóra stakk upp á að setja yfirlit um efni og stöðu þess inn á GoogleDocs og var tekið vel í það.
4. Önnur mál
Magnús Bjarnarson kynnti fyrir fundarmönnum aðferð sína til að efla tilfinningagreind og bæta líðan fólks. Samþykkt að stofna sérstakan málefnahóp um menntamál og vísa málinu þangað. Magnús tók vel í það og lagði fram gögn sín um málefnið sem fundarmenn tóku fagnandi. Valgerður bauðst til að sjá um að koma menntamálahópnum af stað.
Hjalti sagði frá Occupy-hreyfingunni sem fór af stað sunnudaginn 30. okt. með tjaldbúðum á Austurvelli. Stemningin í kringum hreyfinguna væri með eindæmum góð. Þarna færi þing fólksins fram í fyrsta sinn. Tjaldbúðirnar draga að sér fólk, þar á meðal lögregluna sem skar upp tjöld og handtók einn tjaldbúa fyrir óljósar sakir. Borgarráð sendi tjaldbúum boð um að það hefði ekki beðið um að láta fjarlægja tjöldin. Töluvert var rætt um vandkvæðin við að fá fólk til að verja tíma í tjaldbúðunum, a.m.k. „venjulegt fjölskyldufólk“. Rætt um takmarkanir í lögum um það hvar megi tjalda og stjórnarskrárvarinn rétt fólks til mótmæla. Dóra benti á að Occupy-hreyfingin væri ekki mótmælahreyfing heldur „meðmælahreyfing“, jákvætt innstillt og leitar nýrra leiða og lausna á yfirstandandi kreppu í lýðræðinu.
Rætt var um hugsanlegt samstarf Betri Reykjavík-vefsins og vefsíðu Occupy-hreyfingarinnar.
Þórarinn ræddi um samfélagsbanka og þörfina á að taka upp nýjan gjaldmiðil. Júlíus stakk upp á því að stofnaður yrði málefnahópur um þessi mál.
Júlíus ræddi einnig um það hvernig kerfið ver sig gagnvart lýðræðinu og hvernig beita má borgaralegri óhlýðni við slíkar aðstæður. Alda sé í góðri aðstöðu til að hamra á réttinum til að koma saman. Helga benti á að hvetja mætti fólk til þátttöku í Occupy-hreyfingunni á vefsíðu Öldu. Einnig að félagsmenn geti tekið það að sér að skýra sjónarmið Occupy-hreyfingarinnar í fjölmiðlum.
Að lokum greindi Kristinn Már frá því að unnið væri að því (óháð Öldu) að koma á fót metnaðarfullum vefmiðli með hágæða fjölmiðlaefni.
Fleira gerðist ekki.
Fundi slitið kl. 22:45.