Félagið hefur þegið boð Húmanistaflokksins um að taka þátt í málþingi næstkomandi sunnudag kl. 13.30 – 17.00 í Grasrótarmiðstöðinni Brautarholti 4. Það er öllum opið og við hvetjum sem flesta til að láta sjá sig. Fjölmargir grasrótarhópar muna taka til máls um málefni sem snertir okkur öll.

Í auglýsingu Húmanistaflokksins á facebook segir:

Á málþinginu verður rædd sú spurning hvort við sem jarðarbúar eigum ef til vill meira sameiginlegt en það sem skilur okkur að.

Fólk um allan heim fer nú út á götur og torg til þess að krefjast alvöru lýðræðis og að allar manneskjur njóti grundvallar mannréttinda. Spurningin stendur hins vegar ekki einungis um lýðræðisumbætur og breytt efnahagskerfi. Raunveruleg mennsk þjóð verður ekki að veruleika nema við losum okkur við þá einstaklingshyggju sem við höfum mótast af og gegnsýrir menningu okkar og lærum að koma fram við hvert annað eins og við viljum að aðrir komi fram við okkur.

Við sem boðum til þessa málþings vonum að það verði góður vettvangur fyrir skoðanaskipti ólíkra hópa og einstaklinga um þessi mál og innlegg inn í þá umræðu sem er að vakna til lífsins á þessum nótum á öllum breiddargráðum.

Eftirtaldir hópar og samtök taka þátt í málþinginu og talsmenn þeirra verða með örstutta framsögu um málefnið – 2-3 mínútur hver:

Alda, félag um sjálfbærni og lýðræði, Anarkistaútgáfan Andspyrna, Attac hreyfingin, Ásatrúarfélagið, Boðskapur Silo, Borgarahreyfingin, Bót – aðgerðarhópur um bætt samfélag, Breytendur – Ungliðahreyfing Hjálparstarfs kirkjunnar, Búddistafélag SGI, Feministafélag Íslands, Félag múslima á Íslandi, Félag nýrra Íslendinga, Félag um samfélagsbanka, Food not Bombs, Frjálslyndi flokkurinn, Samtök fullveldissinna, Heimsfriðarsamtök fjölskyldna, Hernaðarandstæðingar, HOF – Hópur um opna framtíð, Hreyfingin, Húmanistaflokkurinn, IFRI – Icelandic Finance Reform Initiative, Menningar- og friðarsamtökin MFÍK, Múltí Kúltí, No Borders, Ný framtíð, Occupy Reykjavík, Samhljómur menningarheima, Tears Children, Zeitgeist hreyfingin, Þjóðarflokkurinn.

Að lokinni framsögu verður kaffihlé og síðan hópavinna – með hringformi – til að sem flestum gefist kostur á að tjá sig og deila sínum viðhorfum með öðrum.

Fundarstjóri verður Kristinn Már Ársælsson, frá Öldu
Málþingið er öllum opið!