Alda félag um sjálfbærni og lýðræði: fundur í Málefnahóp um lýðræðislegt hagkerfi

Þriðjudagur 10. Janúar 2012

Fundur settur kl 21:00 í Grasrótarmiðstöðinni

Mættir voru: Júlíus Valdimarsson, Guðmundur Haraldsson, Sólveig Alda, Hjalti Hrafn, Sigfús og Haraldur Ægir

Fundarstjóri: Sólveig Alda

Ritari: Hjalti Hrafn

 

Sólveig fór yfir stöðuna, ekkert svar hefur borist frá ICA. Ekkert svar hefur heldur borist frá þingmönnum um væntanlegan fund vegna samvinnufélagalaga. Forgangsatriði núna ætti að vera að skerpa á þeim markmiðum sem við viljum fá fram með breytingum á samvinnufélagalögum.

Júlíus benti á að það sé mikilvægt að skoða fyrirtæki sem þegar eru til staðar því þau geti veitt ráðgjöf, í framhaldi af því var rætt um að hafa samband við Rainbow Groceries ef að ICA svarar ekki ítrekuðum beiðnum.

Rætt var um það hvað nákvæmlega við viljum leggja fyrir þingmenn þegar að fundinum kemur. Niðurstaðan var sú að við viljum hafa einhverja lagabeinagrind sem og skýr markmið um það hverju samvinnufélagalög eiga að ná fram. Hafa má hliðsjón af the Rothsdale Principles.

Júlíus benti á að það hljóti líka að vera til fordæmi til dæmis Equal Exchange.

Í fljótu bragði sættist fundurinn á eftirfarandi markmið sem ný samvinnufélagalög ættu að ná fram:

  • Lýðræðisleg stjórnun fyrirtækja þar sem eitt atkvæði á mann er meginreglan.
  • Gagnsæi í stjórn.
  • Trygg réttindi starfsfólks.
  • Sveigjanleiki fyrir ný samvinnufélög, t.d. í sköttum og endurgreiðslu lána.
  • Grundvöllur fyrir endurskipulagningu núverandi fyrirtækja.
  • Gjaldþrotalög sem virða rétt starfsfólks til lífsviðurværis framar rétti skuldhafa og gefa starfsfólki möguleika á að taka yfir gjaldþrota fyrirtæki og reka það sem lýðræðislegt samvinnufélag.

Halldór benti á að það þyrfti að gera greinamun á reglum sem að fyrirtæki setja sér og svo því sem er í lögum. Lagaramminn má ekki vera of þröngur.

Einnig benti Halldór á að mismunandi reglur og viðmið gætu átt við um fyrirtæki sem stunda verslun og svo þau sem stunda framleiðslu.

Júlíus benti á að gömlu kaupfélögin hafa slæmt orð á sér og orðið „samvinnufélag” gæti því unnið gegn okkur. Það kom upp úr þessu umræða á fundinum um það hvaða orð væri hægt að nota til að aðgreina þau lýðræðislegu fyrirtæki sem Alda sér fyrir sér frá gamla kaupfélaga fyrirkomulaginu sem var allt annað en lýðræðislegt. Niðurstaðan var að nota hugtakið „starfsmanna samvinnufélög”.

Að lokum var útdeilt verkefnum fyrir næsta fund sem verður haldinn að viku liðinni.

Fundi var slitið kl. 22:40