Alda hefur unnið drög að skipulagi stjórnmálaflokks í anda alvöru lýðræðis. Hér eru birt lokadrög, með viðbótum frá fyrri útgáfu við inngang og skýringar. Skipulagið sjálft. lagatextinn, hefur verið formlega samþykktur. Tillögurnar hafa ekki verið prófarkarlesnar. Athugasemdir eru vel þegnar.
Rétt er að geta þess að Alda er ekki stjórnmálaflokkur og hefur ekki í hyggju að bjóða fram eða taka þátt í starfi stjórnmálaflokka. Alda vinnur hins vegar tillögur að því hvernig megi dýpka lýðræðið og komu fram óskir þess efnis að Alda ynni tillögu að skipulagi stjórnmálaflokks í anda alvöru lýðræðis. Einnig er rétt að geta þess að Alda telur lýðræðisvæðingu stjórnmálaflokka aðeins lítinn hluta af þeirri lýðræðisvæðingu sem þörf er á. Má þar nefna sérstaklega lýðræðisleg þátttökuferli almennings og lýðræðisvæðingu hagkerfisins.
Tillögurnar voru unnar í ferli þar sem meginlínur voru markaðar og hugmyndir fengnar fram á opnum fundi og fulltrúar þess hóps unnu svo útfærðar tillögur sem svo voru ræddar á opnum fundum og afgreiddar. Lesa má fundargerðir frá þeim fundum hér á vef Öldu. Fulltrúar hópsins sem unnu að því að útfæra hugmyndirnar voru Guðmundur D. Haraldsson, Helga Kjartansdóttir, Hjalti Hrafn Hafþórsson og Kristinn Már Ársælsson. Hér að neðan gefur að líta uppfærð drög að skipulagi stjórnmálaflokks í anda alvöru lýðræðis.
Drögunum má einnig hlaða niður (PDF).
_ _ _ _ _ _ _
Verkefnið
Alda, félag um sjálfbærni og lýðræði hefur tekið sér það verkefni á hendur að teikna upp lýðræðislega skipan stjórnmálaflokks.
Verkefnið samanstendur af tillögum að lögum og skipulagi fyrir lýðræðislegan stjórnmálaflokk, með skýringum og greinargerðum, hugmyndafræðilegum inngangi, ábendingum um verklag og tilvísinum í rannsóknir og fyrirmyndir.
Markmið
Tilgangurinn með verkefninu er að auka lýðræði í innra starfi stjórnmálaflokks og stuðla þannig að framgöngu þátttöku- og rökræðulýðræðis í samfélaginu.
Kreppa lýðræðisins
Íslensk stjórnskipan einkennist af fulltrúalýðræði og felst í því að á Alþingi, sem fer með löggjafarvaldið ásamt forseta, sitja kjörnir fulltrúar almennings. Flokks- og fulltrúalýðræðið (e. representative democracy) hefur á undanförnum árum sætt harðri gagnrýni meðal lærða sem leikna. Sú gagnrýni er í beinum tengslum við hnattvæðinguna, en með tilkomu hennar er gjarnan rætt um kreppu lýðræðisins. Kreppan skapast af því að markaðsöflin hafa brotist undan yfirráðum þjóðríkisins með stofnun yfirþjóðlegs markaðshagkerfis. Lýðræðið, eins og við þekkjum það í dag, er óaðskiljanlegur hluti staðbundins þjóðríkis og eru því bein tengsl á milli hnignunar lýðræðisins og þeirrar staðreyndar að þjóðríkið er að missa völd til viðskiptaheimsins. Afleiðingar þess að fulltrúa- og flokkslýðræðið má sín æ minna gagnvart krafti og kröfum viðskiptalífsins eru að stjórnmál snúast sífellt minna um almannahag og þess meira um að skapa gott umhverfi fyrir alþjóðlegt fjármagn og fyrirtæki. Í kjölfarið minnkar tiltrú almennings á lýðræðinu og fulltrúum þess, sem hafa margir gerst sekir um flokkadrætti, hagsmunapólitík og spillingu.
Starf stjórnmálaflokka hefur veikst á undanförnum áratugum, á heimsvísu, samhliða minnkuðu valdi þeirra. Sú veiklun hefur aukið á spillingu og aukið vald ákveðinna hópa innan flokkana. Þeir hafa og orðið æ háðari fjármagni til starfa sinna. Afleiðingin er sú að flokkar eru, í grófum dráttum, ofurseldir fyrirtækjum og efnuðum einstaklingum. Það skilar sér í störfum þeirra. Samhliða þessari þróun hefur þátttaka í starfi stjórnmálaflokka minnkað jafnt og þétt á undanförnum áratugum. Stjórnmálaflokkar eru ekki lengur sá vettvangur sem þeir voru fyrir umræðu né heldur farvegur fyrir hugsjónir almennings.
Það þarf því ekki að koma á óvart að umræðan um beint lýðræði (e. direct democracy), þar sem almenningi er veitt milliliðalaus aðkoma að valdinu, sé farin að hljóma á torgum og í ljósvakamiðlum. Beinni þátttaka almennings í stjórnmálum er ákveðin leið til þess að endurheimta valdið frá forréttindastéttinni. Útfærslumöguleikarnir eru fjölmargir og það kemur í hlut samtímastjórnmála að finna bestu hugsanlegu lausn til þess að koma á alvöru lýðræði. Kreppu lýðræðisins ber því fyrst og fremst að líta á sem hvatningu til þess að hugsa stjórnmálin uppá nýtt.
Þáttökulýðræði
Sögulega er fulltrúalýðræði mjög ungt stjórnarfyrirkomulag, en það byrjaði ekki að mótast fyrr en í Evrópu 19. aldar í kjölfar Upplýsingarinnar, og þótti þá róttæk stjórnskipan í samanburði við einveldi konungsveldisins. Í samanburði við beint lýðræði, þá er fulltrúalýðræðinu almennt talið til tekna að gera ráð fyrir takmörkunum á sérþekkingu sem þarf til þess að taka upplýstar ákvarðanir. Stór samfélög þarfnast sérhæfðar verkaskiptingar og einmitt þess vegna kýs almenningur sér fulltrúa á þing. Einn helsti gagnrýnandi Upplýsingarinnar Jean-Jacques Rousseau var hins vegar alfarið á móti fulltrúalýðræðinu eins og við þekkjum það í dag. Í bók sinni Samfélagssáttmálinn heldur hann því fram að engum manni leyfist að afhenda öðrum hlutdeild sína í fullveldinu, heldur ber hverjum og einum að taka beinan þátt í setningu laga, en má þó kjósa fulltrúa sem framkvæmir lögin. Rousseau hafnar því ekki algerlega kosnum fulltrúum, en þess í stað setur hann þeim skorður um leið og hann leggur hinum almenna borgara þeim mun meiri pólitíska ábyrgð á herðar.
Þátttökulýðræði (e. participatory democracy), í formi beinnar þáttöku borgara í ákvarðanatöku, er lýðræðisform sem rekur ættir sínar aftur til borgaraþinga forn-Aþenu. Áhugi fyrir þátttökulýðræði hefur ávallt verið til staðar, en þess má geta að það er og hefur verið ástundað, í mismunandi myndum, út um allan heim, þar á meðal í Brasilíu, Bandaríkjunum, Bretlandi og Sviss. Á allra síðustu árum hafa yfirvöld gert nokkar tilraunir með þáttökulýðræði og má nefna til dæmis Porto Alegre í Brasilíu frá árnu 1989, en þar settu borgaryfirvöld hluta fjárhagsáætlunarinnar í hendur borgaranna með góðum árangri. Önnur velheppnuð tilraun í þáttökulýðræði fór fram í Kerala á Indlandi árið 1996, en þar komu tvær milljónir manna að vinna fjárhags- og umbótaáættlun fyrir héraðið. Þessi dæmi hafa sýnt að þáttökulýðræði útilokar ekki fulltrúalýðræði og öfugt, þvert á móti geta þau átt vel saman þegar vandað er til verksins. Kostir þáttökulýðræðis felast einmitt fyrst og fremst í stjórnmálaþátttöku almennings, enda er hvetjandi að sjá að með þátttöku er hægt að hafa raunveruleg áhrif á gang mála. Meðal þess sem rannsóknir benda til að geti leitt af þátttökulýðræði er:
- jafnari dreifing gæða (frá ríkum til fátækari)
- aukinn félagsauður
- dregur úr spillingu eða hverfur
- aukið traust
- hópar sem áður höfðu ekki aðgengi að ákvörðun eiga rödd í fyrsta sinn
Rökræðulýðræði
Rökræðulýðræði (e. discursive democracy) er ekki síður mikilvægur þáttur „alvöru lýðræðis,” en það byggir á hugmyndinni um lýðræði sem aðferð í stað forms eða strúktúrs. Forn-grikkinn Sókrates er gjarnan sagður upphafsmaður rökræðuaðferðarinnar, en hún byggir á þeirri hugmynd að með rökræðu geti einstaklingar með ólíkar skoðanir komist að sameiginlegri niðurstöðu. Rökræðulýðræðið skipar því ekki fólki í flokka, með því að gera ráð fyrir að það búi yfir óbreytanlegum gildum, heldur gerir það ráð fyrir að einstaklingar taki rökum og skipti um skoðun. Rökræðulýðræðið hefur jafnframt þá kosti að draga úr meirihlutaræði, en í almennum kosningum þarf hvorki að semja til að koma málum í gegn né að taka tillit til skoðana minni hlutans. Rökræðulýðræði minnka því ekki lýðræðið niður í meirihlutaræði, heldur gefur það ólíkum þjóðfélagshópum, á borð við jaðar- og minnihlutahópa, tækifæri á því að taka þátt í ákvörðunarferlinu.
Drög að verklagsreglum fyrir lýðræðislegan stjórnmálaflokk
Til þess að auka lýðræði í innra starfi stjórnmálaflokks, álítur Alda, félag um sjálfbærni og lýðræði, að mikilvægt sé að styðjast annars vegar við reynslu manna af þátttökulýðræði og hins vegar rökræðulýðræði.
1. Valddreifing
Til þess að skapa umgjörð fyrir þátttökulýðræði í innra skipulagi stjórnmálaflokks er lykilatriði að tryggja sem jafnasta valddreifingu, en með því er átt við að almenningur hafi jafnan aðgang að völdum og jöfn áhrif til ákvarðanatöku innan flokksins. Í stað hefðbundins valdastrúktúrs, sem er í laginu eins og pýramíti þar sem flokksformaður og stjórn trónir á toppnum, þá er er flöt og formannslaus valdaskipan æskileg. Nauðsynlegt er að hugsa flokkinn sem svo að valdið komi að neðan, frá flokksmönnum sjálfum.
Eitt atkvæði á mann
Til þess að tryggja valddreifingu sem best er mikilvægt að reglan um eitt atkvæði á mann sé virt undantekningarlaust í öllum kosningum innan flokksins. Alda leggur til að allir flokksfélagar hafi á öllum fundum tillögu-, mál- og kosningarrétt. Hver sem er geti skráð sig í flokkinn, einnig þeir sem ekki hafa íslenskan ríkisborgararétt. Aðrir en flokksfélagar megi einnig sitja alla fundi og hafi þá mál- og tillögurétt.
Val á fulltrúum – Persónukjör, slembival og tíð umskipti
Kjörnir fulltrúar fara ekki með meira vald en aðrir flokksmenn, heldur eru þeir framkvæmdaraðilar hans. Mjög mikilvægt er að vanda ferlið til vals á fulltrúum, til þess að tryggja jafna valddreifingu og koma í veg fyrir spillingu og hagsmunapot. Til þess að svo megi verða, leggur Alda til að fulltrúar séu annarsvegar kosnir með persónukjöri og hins vegar valdir með slembivali. Slembival tryggir að fleiri hópar fái fulltrúa, eigi rödd í kerfinu. Það dregur einnig úr hættunni á hagsmunatengslum og klíkumyndum.
Persónukjör
Kostir persónukjörs eru að kjósendum gefst færi á að velja fólk sem býr yfir sérþekkingu, metnaði og einbeittum vilja til þess að starfa fyrir flokkinn. Fjölmargar rannsóknir hafa hinsvegar sýnt að persónukjör hentar sumum einstaklingum og hópum betur en öðrum, þannig koma konur oft verr út úr persónukjöri en karlar. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að huga vel að uppröðun á lista í öllum kosningum innan flokksins, ásamt því að notast við aðrar aðferðir lýðræðisins samhliða persónukjöri.
Slembival
Slembival eða hlutkesti á fulltrúum er lýðræðislega aðferð sem Aþeningar á 5. öld fyrir krist nýttu. Á síðari tímum hefur slembival verið notað með góðum árangri í Bresku Kólembíu í Kanada, en árið 2004 var ákveðið að gera breytingar á kosningalöggjöfinni og farin sú leið að skipa þing með slembivöldum fulltrúum. Valdir voru í handahófi 160 borgarar úr þjóðskrá (með jöfnu kynjahlutfalli), sem komu saman og unnu tillögu um breytingar sem síðan voru lagðar fyrir í fylkiskosningu.
Alda mælir með því að slembival verði nýtt innan lýðræðislegs stjórnmálaflokks, þar sem að hlutkesti tryggir ákveðið pólitískt jafnrétti. Kostirnir felast fyrst og fremst í því að öllum flokksmeðlimum eru veittir jafnir möguleika á því að vera valdir sem fulltrúar. Valið virkar þannig hvetjandi fyrir alla til þess að láta sig málin varða, enda gæti hver sem er orðið fyrir valin. Slembival hentar einnig vel til þess að jafna hlut kynjanna eða annarra hópa. Það hefur einnig sýnt sig að slembivaldir fulltrúar eru líklegri til þess að taka ákvarðanir sem varða almannahag, þar sem að þeir sækjast síður í embætti að hagsmunaástæðum. Stjórnmál varða málefni allra og því rétt að allir komi að þeim.
Tið umskipti
Tíð umskipti á fulltrúum er enn ein lýðræðisaðferðin sem má rekja aftur til forn Grikklands, en þar skiptust t.d. ættbálkar á að fara með völdin í Aþenu, með því að sitja í í stjórn stjórnarráðsins rúmlega einn mánuð í senn. Tíð umskipti ættu fyrst og fremst að nýtast lýðræðislegum stjórnmálaflokk til þess að koma í veg fyrir of langa setu sömu fulltrúa og draga þannig úr spillingu innan flokksins. Jafnframt koma þær í veg fyrir klíkumyndun flokksfélaga.
2. Lýðræðisleg ákvarðanataka
Eins og áður hefur komið fram þá veitir rökræðulýðræði mun breiðari hópi fólks tækifæri til þess að hafa áhrif á samfélag sitt og þá jafnvel hópum sem hafa lítið sem ekkert haft um samfélag sitt að segja hingað. Ennfremur dregur rökræðulýðræði verulega úr meirihlutaræði, en það ætti að vera ein af grunnforsendum lýðræðislegs stjórnmálaflokk að meirihlutinn valti ekki yfir minnihlutann.
Samhljóðan
Alda leggur til að Samhljóða ákvarðanataka (e. consensus decision-making) verði til grundvallar allri ákvarðanatöku. Samhljóðan er aldagömul rökræðuaðferð lýðræðisins og býr því yfir tiltölulega skýru og skilvirku skipulagi sem auðvelt er að nýta. Hún er til í ýmsum myndum, en byggir á þeirri sameiginlegu hugmyndafræði að fólk með ólíkar lífsskoðanir og gildi geti komist að samhljóða niðurstöðu í jafnvel mjög erfiðum álitamálum, hvort sem er í tuttugu manna hópum eða nokkur þúsund manna hópum. Til þess að svo megi verða, þurfa allir þáttakendur að vera virkir og einlægir í vilja sínum til þess að vinna sig að sameiginlegri niðurstöðu. Slík ferli krefst opinnar umræðu, þar sem fólk hefur bæði rými til að tjá hug sinn og treystir öðrum þátttakendum til að vinna að sameiginlegu marki. Jafnframt er nauðsynlegt að tryggja nægilegan tíma til að ná bestu hugsanlegu niðurstöðu. Vert er að taka fram, að samhljóðan ákvarðanataka þarfnast æfingar og góðrar fundarstjórnar til þess að ganga rétt fyrir sig.
3. Opin og upplýst umræða
Ein af grunnstoðum lýðræðisins er gagnsæi í ákvarðanatöku, þar sem öllum er frjálst að kynna sér forsendur og ferli ákvaðarnatökunnar. Takmarkanir á aðgengi að upplýsingum koma í veg fyrir að almenningur hafi tækifæri til að kynna sér forsendurnar og eiga hlutdeild í þeim ákvarðanatökum sem fram fara.
Upplýsingagjöf
Stjórnmálaflokkur sem kennir sig við lýðræði ætti að byggja á opinni og gagnsærri ákvarðanatöku, þar sem aðgengi að fundum og upplýsingum er varða ákvarðantöku fyrir hönd flokksins séu hverjum sem er opið og einfalt. Mikilvægt er að öll gögn varðandi ákvarðanatöku fyrir hönd félagsins séu gerð aðgengileg á skilvirkan hátt þannig að almenningur eigi auðvelt með að fá yfirsýn yfir gögnin og finna þær upplýsingar sem hann sækist eftir. Að sjálfsögðu þarf að gera ráð fyrir takmörkunum á aðgengi almennings að upplýsingum sem falla undir ákvæði um vernd persónuupplýsinga og gögnum sem tengjast beint opnum lögreglurannsóknum.
Sérfræðiráðgjöf
Mikilvægt er að lýðræðislegur stjórnmálaflokkur byggi ákvarðanatökur sínar á sem bestri og nákvæmastri sérþekkingu. Mjög skýr ákvæði þurfa að vera í lögum um aðkomu sérfræðinga og úrvinnslu á sérfræðigögnum í verklagsreglum flokksins: annarsvegar til þess að tryggja upplýsta rökræðu í allri ákvarðanatöku og hinsvegar til þess að koma í veg fyrir sérfræðingaræði. Aðkoma sérfræðinga er sérstaklega mikilvæg í flokki sem ástundar þátttökulýðræði þar sem að þátttakendur búa yfirleitt ekki sjálfir yfir sérfræðiþekkingu í málum sem þeir þurfa að taka ákvarðanir um. Að sama skapi er mjög mikilvægt að setja ítarlegar starfreglur um það hvernig sérfræðiálit er notað til sjálfrar ákvarðanartökunnar. Jafnframt þarf að tryggja að þátttakendur í ákvarðanatöku geti ekki stungið sérfræðiáliti undir stól og ættu því að vera til reglur sem segja til upp upplýsingaskyldu á sérfræðiálitum fyrir aðra flokksmenn.
Ábendingar um frekara lesefni
Bækur
- Associations and Democracy, greinasafn í ritstjórn Joshua Cohen og Jeol Rogers sem kom út árið 1995.
- Framtíð lýðræðis á tímum hnattvæðingar, greinasafn í ritstjórn Hjálmars Sveinssonar og Irmu Erlingsdóttur sem kom út árið 2000.
- Deepening Democracy, greinasafn í ritstjórn Archon Fung og Erik Olin Wright sem kom út árið 2003.
- Envisioning Real Utopias, eftir Erik Olin Wright sem kom út ári 2010.
Vefsvæði
- IDEA: http://www.idea.int/
- The Participatory Budgeting Project: http://www.participatorybudgeting.org/
- Participedia: http://participedia.net/
Drög að lögum
1. Kafli – Nafn, aðild og varnarþinga
[Greinargerð:
Í kaflanum ger gert grein fyrir nafni flokksins og varnarþingi hans. Einnig er þar ákvæði sem skýrir rétt manna til aðildar að flokknum en samkvæmt því er öllum heimil aðild að honum eldri en 18 ára. Engar takmarkanir má binda við þá heimild, s.s. ríkisborgararéttur, trúarskoðun eða nokkuð annað sem hugsast getur.]
1. gr.
NAFN FLOKKSINS
2. gr.
VARNARÞING
3. gr.
Öllum sem náð hafa 18 ára aldri er heimil aðild að flokknum.
2. Kafli – Grunnstefna
[Greinargerð:
Flokknum ber að hafa grunnstefnu í stuttu máli sem gerir grein fyrir og afmarkar stefnu hans og markmið. Hugsunin er sú að um sé að ræða stutta afmörkun, s.s. að flokkurinn vinni að þrepskiptu skattkerfi, jöfnuði og friði, eða svo annað dæmi sé tekið, að flokkurinn vinni að ójöfnuði, ófriði og skattkerfi án þrepa. Flokkar með ólíka stefnu geta eftir sem áður unnið samkvæmt leikreglum lýðræðisins.]
1. gr.
GRUNNSTEFNA FLOKKSINS.
3. Kafli – Lýðræðisleg réttindi
[Greinargerð:
Í 3. kafla er gert grein fyrir þeim almennu lýðræðislegu réttindum sem allir flokksmenn njóta í starfi hans. Kaflinn er grundvöllur starfsins. Öll þau réttindi sem getið er um í kaflanum gilda í öllu starfi flokksins.
Meðal þeirra réttinda sem kveðið er á um í kaflanum má nefna að allir félagsmenn hafi eitt atkvæði á mann á öllum fundum flokksins. Aðrir en flokksfélagar hafa málfrelsi og tillögurétt. Þó er ein undantekning frá þessari reglu er varðar úrskurðarnefnd sem ákvarðar um brot á þessum lögum. Ákvarðanir um misbeitingu valds og brot á lögum geta ekki verið háð þeim möguleika að safna fólki á fund og ná meirihluta. Að öðrum kosti gildir reglan. Einnig er kveðið á um að skylt sé að beita samhljóða ákvarðanatöku (consensus). Allir fundir flokksins skulu öllum opnir og upplýsingar öllum aðgengilegar. Gagnsæi er nauðsynleg forsenda lýðræðisins, enda dregur hún úr spillingu, eykur traust og eflir upplýsta umræðu. Sérstaklega er kveðið á um að öllum sé heimilt að stofna málefnahóp þótt síðar í lögunum séu tilteknir málefnahópar tilgreindir. Ástæða þess er sú að tryggja minnihlutahópum vettvang finni þeir sér ekki farveg í föstum málefnahópum. Eftir sem áður fara allar tillögur frá málefnahópum fyrir félagsfundi sem ræða hugmyndir og samræma stefnu.]
1. gr.
Allir flokksfélagar njóta sömu réttinda í hvívetna. Hver félagi hefur eitt, og aðeins eitt, atkvæði komi til atkvæðagreiðslu um mál í starfi flokksins. Á öllum fundum innan flokksins gildir sú regla að hver flokksfélagi hafi eitt atkvæði. Á það einnig við um fundi ráða, nefnda og hverra þeirra stofnana sem eru á vegum flokksins eða fulltrúa hans, s.s. þingflokksfunda. Aðrir en flokksfélagar hafa málfrelsi og tillögurétt á öllum fundum flokksins. Í úrskurðarnefnd hafa nefndarmeðlimir aðeins atkvæðisrétt. Að jafnaði skulu kosningar fara fram með handauppréttingu en sé þess óskað skal fara fram leynileg atkvæðagreiðsla. Í atkvæðagreiðslum þarf 80% greiddra atkvæða til að tillaga sé samþykkt, nema annað sé tekið fram í lögum þessum um þá tegund fundar sem um er að ræða.
2. gr.
Í öllu starfi flokksins skal reynt til hins ítrasta að ná samstöðu um mál og framkvæmd mála með samræðu. Fylgja ber verklagsreglum um málefnastarf, sem miða að því að tryggja jafnræði meðal félagsmanna og vandaða umræðu.
3. gr.
Allir fundir innan flokksins skulu opnir hverjum sem er. Heimilt er að loka fundi ef ræða þarf mál er varða persónuverndarlög og skal fundi þá lokað þá aðeins meðan það mál er rætt. Fundir skulu opinberlega auglýstir með a.m.k. tveggja daga fyrirvara, nema kveðið sé á um annað. Enga fundi má halda sem ekki eru opnir, enda hafi þeir þá ekki gildi í flokksstarfinu. Haldnar skulu ítarlegar fundargerðir í samræmi við verklagsreglur á öllum fundum og þær birtar eins fljótt og auðið er á vefsvæði flokksins. Sé þess kostur skal miðla fundum í gegnum veraldarvefinn og gera hverjum sem er kleift að taka þátt í fundinum. Reynt skal til hins ítrasta að bjóða upp á þjónustu túlka. Tryggja skal aðgengi fólks með fötlun að öllum fundum.
4. gr.
Allir félagsmenn eiga rétt til þess að stofna málefnahóp, enda starfi hann í samræmi við lög flokksins.
5. gr.
Öll gögn flokksins skulu aðgengileg öllum flokksfélögum. Undantekningu má gera ef um er að ræða gögn sem varða lög um persónuvernd. Einnig er óheimilt að birta skrá yfir félaga í flokknum opinberlega. Allir þeir sem bjóða sig fram í forvali innan flokksins skulu fá jafnan aðgang að skrá yfir félagsmenn. Úrskurði úrskurðarnefnd að brotið hafi verið á þessum rétti frambjóðenda skal forvalsferlið endurtekið.
6. gr.
Misbresti í framkvæmd eða brot á lögum þessum skal vísa til úrskurðarnefndar sem úrskurðar í málinu.
4. Kafli – Félagsfundir
[Greinargerð:
Almennir félagsfundir eru hugsaðir sem miðpunktur flokksins. Hugmyndin er að þeir séu haldnir reglulega, og á fyrirsjánlegum tímum. Hugmyndin hér er að almennir fundir séu haldnir, þar sem fólk mætir saman – ekki sem rafrænir fundir. En jafnvel þó svo yrði, gæti rafrænn útgáfa slíks funds einnig átt sér stað, samtímis fundi þar sem fólk hittist. Slíkur rafræn útgáfa gæti náð til kjördæmisins, sveitarfélagsins, eða víðar. En með því móti mætti mögulega samræma fundarhald víða um land (t.d. þegar niðurstöður ýmissa félagsfunda um sömu tillögu eru misvísandi) – þannig að fundurinn sé samtímis haldinn á mörgum stöðum í einu, þar sem fundarstjórar á hverjum stað samræma fundi. Einnig mætti hugsa sér að þeir sem eigi ekki heimangengt geti sótt rafrænan arm fundarins og þannig tekið þátt. Úr gæti orðið stór fundur, víða um land – í mörgum sveitarfélögum – samtímis, ásamt því að fólk sem kemst ekki að heiman, vegna fjölskyldu eða annars, getur einnig fylgst með og tekið þátt. Höfundar hafa enga hugmynd um hvort fyrirkomulag sem þetta sé líklegt til að virka. Þeir hvetja þó eindregið til að það sé prófað. Reynist það illa mætti reyna að þróa formið áfram. Flokkurinn myndi halda reglulega félagsfundi í hverju kjördæmi, sem ætlunin er að félagsmenn á því svæði myndu sækja. Félagsfundir, samkvæmt reglunum, yrðu æðsta ákvörðunarvald flokksins. Allar helstu ákvarðanir yrðu teknar á slíkum fundum, t.d. um stefnu hans, um hvort leggja beri lagafrumvörp fyrir Alþingi fyrir hönd flokksins og svo framvegis.
Félagsfundir yrðu opnir, eins og aðrir fundir í flokknum. Allir sem hann sitja hefðu jafnan atkvæðisrétt. Atkvæðagreiðslur á almennum félagsfundum myndu eiga sér stað, samkvæmt reglunum á sama hátt og í málefnahópum og það af sömu ástæðum. Ítrekað er, að það að krefjast 80% greiddra atkvæða, til að tillaga sé samþykkt ásamt miklum rökræðum, minnkar líkur á klofningi.
Félagsfundir myndu taka við tillögum málefnahópa, til afgreiðslu, en félagsfundur getur þó ekki afgreitt tillögur á fyrsta fundi um þær. Reglan hér er sú, að félagsfundur gæti fyrst tekið afstöðu um tillögu, ef tillagan hefur verið rædd á fyrri félagsfundi. Tillögurnar yrðu að hafa verið öllum aðgengilegar á milli fundanna, á vefsíðu flokksins. Tilgangurinn er að félagsmenn gætu kynnt sér tillögurnar áður en þær væru afgreiddar.
Felli almennur félagsfundur tillögu málefnahóps, má málefnahópurinn, samkvæmt reglunum, taka málið upp aftur og vinna frekar að tillögunum, sem eftir frekar vinnslu er hægt að leggja aftur fyrir félagsfund.
Samþykki almennur félagsfundir tillögur málefnahóps teljast þær vera orðnar hluti af stefnu flokksins fyrir Alþingi og/eða samfélaginu í heild sinni.]
1. gr.
Félagsfundir eru æðsta ákvörðunarvald í málefnum flokksins. Á félagsfundum er stefna flokksins, sem unnin hefur verið í málefnahópum, tekin til samþykktar eða synjunar að lokinni umræðu. Félagsfundi er ekki heimilt að samþykkja mál frá málefnanefnd á fyrsta félagsfundi sem það er tekið fyrir á nema að sá fundur hafi verið boðaður með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara og að 80% viðstaddra samþykki þá málsmeðferð. Félagsfundur getur einnig vísað málefni aftur til málefnanefndar án afgreiðslu, óski a.m.k. þriðjungur viðstaddra þess. Máli sem félagsfundur hefur vísað til málefnanefndar er ekki hægt að vísa aftur til málefnanefndar nema með samþykki 60% viðstaddra á félagsfundi.
2. gr.
Félagsfundi skal halda a.m.k. mánaðarlega en oftar ef þurfa þykir. Til félagsfundar geta boðað a) 5% flokksfélaga eða b) X fjöldi flokksfélaga og/eða c) framkvæmdarráð. Fundina skal auglýsa með a.m.k. viku fyrirvara í tölvupósti til flokksfélaga og á vefsvæði flokksins.
3. gr.
Framkvæmdarráð ber ábyrgð á framkvæmd félagsfunda. Framkvæmdarráð.
4. gr.
Ef upp kemur ágreiningur milli félagsfunda innan flokksins um einstök málefni, eða ganga þarf frá samræmdri stefnu flokksins, s.s. fyrir kosningar, skulu félagsfundir velja sér fulltrúa, að hámarki þrjá hver. Fulltrúarnir skulu vinna í opnu ferli skv. verklagsreglum flokksins um málefnastarf að samræmingu tillagna sem svo eru lagðar fyrir í almennri kosningu í flokknum skv. 5. gr. 10. Kafla þessara laga. Náist ekki samstaða um tillögur sker almenn kosning innan flokksins úr um niðurstöðu málsins. Sé tillagan felld í kosningu skulu félagsfundir velja nýja fulltrúa sem gera nýja tillögu.
5. 10% flokksfélaga hafa heimild til þess að óska eftir því að samþykkt/synjun félagsfundar verði tekin fyrir að nýju á næsta félagsfundi og tekur ákvörðunin þá ekki gildi fyrr en að þeim fundi loknum. Krafan skal berast framkvæmdaráði í samræmi við verklagsreglur þar að lútandi. Einungis er heimilt að beita þessu ákvæði einu sinni við afgreiðslu hvers einstaks máls.
5. Kafli – Framkvæmdaráð
[Greinargerð:
Framkvæmdarráð flokksins sinnir rekstri flokksins og gætir þess að starfsemi hans sé lögum hans samkvæmt. Ráðið er að hluta til kjörið og að hluta til slembivalið. Ýmis ákvæði eru sett til þess að gæta þess að völd þjappist ekki á hendur fárra. Takmörk eru á því hversu lengi menn geta setið í ráðinu. Völd þess eru takmörkuð og snúa fyrst og fremst að rekstri flokksins og boðun funda. Kjörnir fulltrúar til annarra embætta fyrir flokkinn geta ekki setið í ráðinu. Framkvæmdarráð hefur ekkert með stefnu flokksins eða aðrar ákvarðanir sem varða afstöðu flokksins til málefna eða ákvarðana. Ráðið hefur umsjón með starfsmannamálum, húsnæðismálum, upplýsingamálum og öðru sem viðkemur rekstri hans. Loks skal ráðið hafa umsjón með fræðslu til flokksmanna, s.s. um samhljóða ákvarðanatöku og skipulag flokksins.]
1. gr.
Framkvæmdaráð ber ábyrgð á og hefur umsjón með starfsemi flokksins. Starfsmenn flokksins heyra undir framkvæmdarráð.
2. gr.
Í framkvæmdaráði sitja níu manns. Fimm eru kjörin í kosningu skv. 2. gr. 10. Kafla þessara laga. Fjögur skulu valin með slembivali skv. 3. gr. 10. Kafla þessara laga. Kosningar og val á fulltrúum skal fara fram á tímabilinu 20. ágúst til 1. október ár hvert. Hver kjörinn flokksfélagi má aðeins sitja þrjú ár í framkvæmdaráði, og telst þá með hafi viðkomandi setið í framkvæmdaráði sem slembivalsfulltrúi. Slembivaldir fulltrúar skulu aðeins valdir einu sinni til setu í framkvæmdaráði.
3. gr.
Kjörnir fulltrúar flokksins geta ekki átt sæti í framkvæmdaráði. Sömuleiðis skulu framkvæmdarráðsmenn ekki gegna öðrum trúnaðarembættum innan flokksins. Framkvæmdaráðsmenn skulu skila inn hagsmunaskráningu í samræmi við verklagsreglur eigi síðar en tveimur vikum eftir kjör/val þeirra.
4. gr.
Framkvæmdaráð ber ábyrgð á ráðningu starfsmanna. Auglýst skal eftir starfsmönnum opinberlega á grundvelli faglegra hæfniskrafna. Umsóknarferlið skal opið þar sem framkvæmdaráð vinnur tillögu að ráðningu starfsmanns til félagsfundar sem samþykkir ráðningu starfsmanns. Synji félagsfundur að ráða einn umsækjenda skal aftur auglýst um stöðuna. Starfsmenn flokksins eru ráðnir til fimm ára og geta aðeins fengið endurráðningu einu sinni.
5. gr.
Framkvæmdaráði ber að haga rekstri félagsins í samræmi við tekjur þess og er óheimilt að stofna til skulda sem eru umfram 20% af ársveltu flokksins.
6. gr.
Framkvæmdaráð skal gæta þess að fræðsluefni um lög, verklagsreglur og skipulag flokksins séu öllum aðgengilegar. Sérstaklega skal kynna starfsemi flokksins fyrir nýjum flokksfélögum. Nýir málefnahópar skulu fá kynningu á samhljóðan-ákvarðanatöku. Reglulega skulu haldin námskeið um hvernig megi stýra málefnastarfi með lýðræðislegum hætti.
6. Kafli – Úrskurðarnefnd
[Greinargerð:
Spilling er vandamál sem hefur fylgt íslensku samfélagi lengi, og eru stjórnmálaflokkar þar ekki undanskildir. Úrskurðarnefnd flokksins hefði það hlutverk að gæta þess að reglum flokksins yrði fylgt, að koma í veg fyrir spillingu og misferli.
Úrskurðarnefnd skal skipuð með slembivali úr hópi allra félagsmanna. Slembival er líklegt til að tryggja að nefndin starfi faglega, án þess að ósanngirni eða klíkuskapur komi við sögu. Alda telur líklegt að slembival myndi tryggja fagleg störf nefndarinnar, vegna þess að þá raðist líklega í nefndina fólk sem þekkist ekki, hefur ólíkan bakgrunn, en líka vegna þess að það er skipað til að sinna störfum fyrir flokkinn sem heild. Rannsóknir á slembivali hafa einmitt sýnt að slembivaldir hópar séu líklegir til að hafa hagsmuni heildarinar að leiðarljósi – má ætla að það sama myndi gerast hér. Í reglunum er tekið fram að valið skuli í nefndina reglulega. Er það gert til að minna líkur á að meðlimir nefndarinnar kynnist um of eða myndi hagsmunahópa.
Úrskurðarnefndin skal hafa sættir að leiðarljósi, fyrst og fremst. Fundir nefndarinnar skulu vera opnir, eins og aðrir fundir flokksins, nema hvað að einungis nefndarmenn hefðu atkvæðisrétt. Rétt eins og með aðra fundi í flokknum, mætti þó loka fundi á meðan mál þar sem persóonuverndarlög krefðust að friðhelgi einkalífs sé tryggt, væru rædd.
Vert er að taka fram að úrskurðarnefnd ætti að sjá um deilumál er varða vefsvæði, þar sem félagsmenn gætu stundað umræður sín á milli. Forðast skal að umsjón með því vefsvæði sé á ábyrgð eins einstaklings. Nær væri að það væri í verkahring nokkurra einstaklinga til þess að dreifa valdi.]
1. gr.
Úrskurðarnefnd tekur fyrir og úrskurðar um misbresti í framkvæmd og brot á lögum, verklagsreglum og samþykktum flokksins. Niðurstaða Úrskurðarnefndar er endanleg.
2. gr.
Í Úrskurðarnefnd skulu sitja 15 manns. Allir meðlimir nefndarinnar skulu valdir með slembivali skv. 3. gr. 10. Kafla þessara laga. Hver flokksfélagi getur aðeins setið einu sinni í Úrskurðarnefnd. Valið er í Úrskurðarnefnd til árs í senn á tímabilinu 15. apríl til 15. maí.
3. gr.
Erindi til Úrskurðarnefndar skulu berast skriflega og gerð opinber áður en þau eru tekin til umfjöllunar. Úrskurðarnefnd ber að kanna mál til hlítar og ræða við alla hlutaðeigandi nema þeir synji því að gera grein fyrir máli sínu.
4. gr.
Gæta skal þess að afgreiðsla mála dragist ekki lengur en í þrjá mánuði hið mesta.
7. Kafli – Málefnahópar
[Greinargerð:
Málefnahópar yrðu margir, fjöldi þeirra breytilegur eftir áhuga félagsmanna. Málefnahópar yrðu starfræktir í hverju kjördæmi, og jafnvel margir innan kjördæmis. Er þetta hugsað til að fólk geti sótt málefnafundi í sínu kjördæmi.
Fundir málefnahópa skulu vera opnir. Opnir fundir eru einstaklega mikilvægir í tilfelli málefnahópanna, því það er í málefnahópum þar sem vinna á bakvið möguleg lagafrumvörp og almenna afstöðu flokksins (t.d. í málum sem liggja fyrir Alþingi) ætti sér stað. Það er mikilvægt að raddir sem flestra fái að heyrast á fundum, þar sem umræður og ákvarðanir eru teknar. Opnir fundir virka auk þess hvetjandi til að fólk utan flokks mæti og taki þátt í stjórnun samfélagsins sem það lifir í. Það að geta mætt án nokkurra kvaða, er gott fyrir þá sem vilja taka þátt, en vilja ekki skuldbinda sig til að byrja með. Það að geta haft atkvæði án þess að skuldbinda sig, getur skapað þá tilfinningu hjá þeim sem mæta í fyrsta sinn á slíka fundi, að þeir geti haft áhrif. Sama gildir líka um það að hafa tillögurétt og málfrelsi.
Á fyrsta fundi (eða fyrstu fundum) málefnahóps skal mynduð tímaáætlun, kostnaðaráætlun og eftir þörfum, nánari markmið málefnahópsins. Er þetta hugsað til að starf málefnahóps snúist um viss málefni, og aðeins um þau. Vilji málefnahópur taka upp ný viðfangsefni, eða skipta, sendir hann tilkynningu um það á félagsfund.
Málefnahópar yrðu grunneining flokksins, ef frá eru skyldir félagsmenn. Í þeim færi fram umræða um tiltekin málefni. Tillögur málefnahópsins yrðu að fara fyrir félagsfund, sem tekur endanlega afstöðu til þeirra, áður en þær yrðu afstaða flokksins. Málefni gætu verið af mjög misjöfnum toga, allt frá því að endurskoða umferðarreglur – sem dæmi – upp í að vera skuggaráðuneyti. Með því hugtaki er átt við að hópurinn taki að sér að fylgjast með öllum þeim málum sem tiltekið ráðuneyti er með í vinnslu – breytingar á lögum og slíkt – og móti afstöðu og skrifi jafnvel breytingartillögur um lagafrumvörp sem ráðuneytið leggur fram. Málefnahópar gætu því verið misstórir og haft mismörg mál í sinni umsjá. Í samræmi við mjög mismunandi hlutverk málefnahópa, myndu tillögur sem þeir flyttu fyrri félagsfundi vera af ýmsum toga; allt frá því að vera almenn yfirlýsing um stefnu sem er dreift sem hluta af kynningarstarfi, upp í umsagnir um lög og jafnvel lagafrumvörp til Alþingis. Málefnahópar gætu líka lagt fram tillögu um ályktun flokksins um þau mál sem hópurinn hefði umsjón með.
Í málefnahópum er ætlast til að notast yrði við samhljóðan-ákvörðunartöku, en þegar hún þrjóti skal viðhöfð atkvæðagreiðsla í samræmi við ákvæði 3. kafla laganna. Málefnahópar skulu almennt notast við umræður og upplýsingaöflun til að komast að niðurstöðu, sama á hvaða stigi mál er til umræðu. Samhljóðan-ákvarðanataka er að mati höfunda talin líkleg til að skila árangri, fram yfir einfaldar atkvæðagreiðslur, því að með öflugum og virkum umræðum teljum við að komast megi að sameiginlegri niðurstöðu – eða allavega að stór meirihluti málefnahóps geri það – í fleiri málum en ef ekki er lögð slík áhersla á umræðu. Slíkt er líklegra til að þjappa hópnum saman, almennt, frekar en ef mikið sé notast við atkvæðagreiðslur, sem hætt er við að sundri hópum. Framkvæmdaráð ber ábyrgð á að félagsmönnum bjóðist fræðsla og þjálfun í notkun samhljóðan-ákvarðanatöku, auk þess að hvetja til notkunar á aðferðafræðinni.
Áhersla er lögð á að áreiðanlegum og vönduðum upplýsingum um málefni hópsins sé safnað og þau séu rædd á opinskáan hátt. Lögð er áhersla á í reglunum að allar aðkeyptar skýrslur og álit séu rædd, – þetta gert vegna þess að tilhneigingin er oft sú að óþægilegum skjölum sé „stungið“ undir hinn fræga „stól“, þögn ríki um þau. Mælst er til þess, að ef málefnahópur sækir sér ráðgjöf eða álit utanaðkomandi aðila, um eitthvað mál, þá séu það helst tveir aðilar sem helst hafi ekki sambönd sín á milli svo vitað sé, sem séu beðnir um álit. Hópurinn hefði val um hvort þessir aðilar fengju að vita af vinnu hvors annars fyrir flokkinn, á meðan hún stæði yfir. Ekki ætti að koma til þess að viljandi sé reynt að koma í veg fyrir að slíkar upplýsingar dreifist utan hópsins, t.d. með því að nefna ekki nöfn aðilanna í fundargerðum. Mælst er til þess að aðkeypt álit og skýrslur séu kynnt af höfundum þeirra, eins og mögulegt er – slíkt skyldi ákveðið fyrirfram, áður en áliti væri skilað til flokksins. Tilgangurinn með þessu er að lágmarka líkurnar á að boðskapurinn misskildist og til að koma í veg fyrir að eitthvað sem kann að vera óþægilegar upplýsingar fyrir afstöðu hópsins á þeim tímpunkti, bærist samt til félaga í málefnahópnum.
Ákvörðunarferli innan málefnahópa yrði mestmegnis undir þeim sjálfum komið, fyrir utan það sem hefur verið talið upp hér að framan. Næðist samhljómur um endanlegar tillögur sem ætlunin væri að leggja fyrir félagsfund, teldust þær samþykktar samkvæmt reglunum. Ef samhljómur næðist ekki, þyrfti að greiða atkvæði og telst tillaga samþykkt ef 80% þátttakenda á fundi væru hlynntir tillögunni. Þetta há prósentutala er lögð til, vegna þess að þá neyðist hópurinn til að ná fram sem mestri sátt. Það er von Öldu að með þessu séu minnkaðar líkur á að ákveðinn hluti flokksins – meirihluti þó – geti ítrekað komið í gegn sínum málum, án þess að minnihlutinn hafi tæki til að bregðast við, tól sem gætu hjálpað honum við að ná fram breytingum sem miðast meira við hans hugmyndir um hvað skuli gert í málinu. Hafa ber í huga að þetta getur komið í veg fyrir að flokkurinn klofni.
Starf málefnahópa myndi líka fara fram á veraldarvefnum, á sérstöku vefsvæði. Vefsvæðið myndi vera öllum opið, en eðlilegt væri að þurfa að skrá sig til að geta tekið þátt í umræðum á vefsvæðinu. Hömlur á skráningu ættu að vera engar. Hins vegar myndi úrskurðarnefnd sjá um að taka ákvarðanir um að útiloka skemmdarverkamenn, eyðingu óæskilegs efnis og annað í þeim dúr. Slíkt skal ekki vera í höndum eins manns. Þetta fyrirkomulag er hugsað til að koma í veg fyrir ritskoðun, mögulega kúgun, eða spillingu af einhverjum toga.
Málefnahópum yrði heimilt samkvæmt reglunum að skipa fulltrúa til að vinna að tilteknum málum. Þessir fulltrúar væru valdalausir; einungis tilnefndir til að vinna viss störf, en ekki að taka ákvarðanir fyrir hönd félagsmanna. Þessi störf gætu til dæms falist í því að safna gögnum, vinna tillögur að ályktun eða lögum og svo framvegis. Fulltrúarnir myndu skuldbinda sig til að afhenda félaginu og félagsmönnum afrit af öllum vinnugögnum þeirra, sé þess óskað af fundi málefnahóps. Þessir fulltrúar myndu jafnframt bera þungann af þeirri vinnu sem þyrfti að eiga sér stað, til að flokkurinn gæti starfað um allt land. Þessir fulltrúar myndu hitta fulltrúa sams konar málefnahópa, annarsstaðar af landinu og/eða eiga í ríku samstarfi við þá.
Málefnahópar myndu skipa sér talsmenn til ákveðins tíma, eins og skilgreint er í reglunum, sem og ritara til ákveðins tíma. Í reglunum er tekið fram að þeir skuli ekki vera endurkjörnir oftar en einu sinni, í röð. Er þetta gert til að koma í veg fyrir klíkumyndun og samþjöppun valds. Talsmaður hefði það eina hlutverk að tjá sig við fjölmiðla og aðra utanaðkomandi um málefnis flokksins. Hans hlutverk yrði fyrst og fremst að flytja afstöðu þeirra sem eru hluti af málefnahópnum og að gera það vel. Hans grundvallarviðmið ætti í öllum tilvikum að vera að flytja sannleikann – ekki markaðs- eða ímyndarsköpun. Ritari hefur umsjón með varðveislu fundargerða, í samræmi við reglur flokksins, auk þess sem hann sæi um utanumhald á upptökum funda og allra gagna málefnahóps sem ritari starfar fyrir. Fundarstjóri skal valinn á hverjum fundi. Í reglunum er mælst til að fundarstjóri sé ekki sami einstaklingur ítrekað; er það gert til að koma í veg fyrir klíkumyndun og spillingu.]
1. gr.
Málefnahópar vinna stefnu og stefnumörkun flokksins sem lögð er til samþykktar/synjunar á félagsfundum. Á fundum málefnahópa skulu rædd þau málefni er snúa að málefnum hópsins. Málefnahópar starfa í kjördæmum, sbr. ákvæði 8. kafla.
2. gr.
Málefnahópar starfa í samræmi við verklagsreglur flokksins og skal reynt til hins ítrasta að ná samstöðu um málefni. Fundarstjóri og ritari eru skipaðir í upphafi hvers fundar málefnahóps. Rædd eru málefni fundarins og að honum loknum valdir fulltrúar til þess að vinna tillögur til afgreiðslu. Fulltrúar samsvarandi málefnahópa milli landshluta skulu samræma störf sín eftir því sem kostur er. Fulltrúum er skylt að afla sér bestu gagna, reynslu og þekkingar og vanda ætíð vinnu við gerð tillagna.
3. gr.
Hver málefnahópur skal hafa þrjá talsmenn sem eru talsmenn flokksins í viðkomandi málaflokki. Þeir skulu kjörnir í nóvember ár hvert á fundi málefnahópsins og eru þá talsmenn hans til árs. Talsmenn má aðeins kjósa tvö tímabil í röð.
4. gr.
Málefnahópur velur sér ritara til að sjá um að halda utan um gögn málefnahópsins, fundargerðir, upptökur af fundum og öðru efni sem safnast í störfum hópsins. Fundarritari hvers fundar er valinn í það skiptið. Heimilt er að fela starfsmanni flokksins hlutverk ritara.
5. gr.
Kaupi málefnahópur skýrslur eða álit af sérfræðingum, skal reynt eins og kostur er, að slíkt sé keypt frá tveimur mismunandi aðilum sem ekki hafa náin tengsl, svo vitað sé. Leitast skal, eftir því sem mögulegt er, að höfundar skýrslna og álita kynni niðurstöður þeirra fyrir félagsmönnum.
6. gr.
Tillögur málefnahópa skulu vera skriflegar og sendar framkvæmdarráði sem leggur þær fyrir næsta félagsfund sem ekki hefur þegar verið boðað til.
7. gr.
Skylt er að starfrækja einn málefnahóp fyrir hvert ráðuneyti og samsvarandi þingnefnd. Einnig skal sérstakur málefnahópur starfa um lýðræðismál óháð málaflokkum.
8. gr.
Til að stofnun málefnahóps í nafni flokksins geti átt sér stað, þarf að samþykkja stofnun hans á félagsfundi. Tillaga um stofnun flokksins þarf að berast fundinum skriflega, og fylgja skal stutt lýsing á viðfangsefni hópsins með tillögunni. Félagsfundur getur ákveðið að málefnahópur skuli lagður niður, eftir að hann hefur verið stofnaður. Sé málefnahópur stofnaður, skal semja tímaáætlun um starf hópsins, kostnaðaráætlun og eftir þörfum, nánari markmið málefnahópsins, á fyrstu fundum hans.
8. Kafli – Kjördæmafélög
[Greinargerð:
Í kaflanum er kveðið á um hvernig starfsemi flokksins skuli háttað í kjördæmum. Í stuttu máli er í hverju kjördæmi fyrir sig starfrækt smærra framkvæmdarráð sem starfar í samræmi við ákvæði 5. kafla laganna og málefnahópar sem starfa í samræmi við ákvæði 7. kafla að ofan. Framkvæmdarráð flokksins í heild er jafnframt framkvæmdarráð kjördæmanna á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavík norður og suður sem og Suðvesturkjördæmis. Ekki eru gerðar eins strangar kröfur um tíð umskipti í framkvæmdarráðum kjördæma af praktískum ástæðum þar sem færra fólk býr og lengra er milli byggða.]
1. gr.
Í hverju kjördæmi skal starfrækt þriggja manna framkvæmdarráð þess kjördæmis, kjördæmisráð, sem ber ábyrgð á starfsemi flokksins í því kjördæmi skv. ákvæðum 5. kafla þessara laga. Skulu fulltrúar í framkvæmdarráði kjördæmis kjörin skv. 2. gr. 10. Kafla þessara laga á tímabilinu 20. ágúst til 1. október ár hvert. Hverjum flokksfélaga er aðeins heimilt að sitja átta sinnum í kjördæmisráði. Framkvæmdarráð flokksins er jafnframt framkvæmdarráð kjördæmanna á höfuðborgarsvæðinu.
2. gr.
Málefnahópar starfa skv. ákvæðum 7. kafla í hverju kjördæmi fyrir sig. Heimilt er að starfrækja samtímis marga samsvarandi málefnahópa innan kjördæmis, s.s. í mismunandi byggðarlögum. Ákvarðanir málefnahópa fara fyrir félagsfund viðkomandi kjördæmis sem starfa skv. ákvæðum 4. Kafla þessara laga.
9. Kafli – Aðalfundur
[Greinargerð:
Flokkurinn myndi halda aðalfundi, að jafnaði á tveggja ára fresti. Meginhlutverk aðalfunda er að gera nauðsynlegar breytingar á lögum þessum til þess að tryggja enn frekar í sessi grunnforsendum lýðræðisins. Stefna flokksins í allra grófustu dráttum er einnig mótuð þar. Er þar átt við stefnu eins og: „Flokkurinn hefur lýðræði og jafnrétti kynja og ólíkra kynþátta að leiðarljósi.” Nánar útfærð stefna yrði útfærð á annan hátt, samanber lögin. Aðalfundur myndi einnig fjalla um starfsemi flokksins á liðnu tímabili og annað slíkt. Aðalfundir yrðu á flesta vegu ólíkir landsfundum hefðbundinna stjórnmálaflokka, en þeir hafa gjarnan einkennst af „smölun” og spillingu. Alda mælir eindregið gegn því að aðalfundur líkist á nokkurn hátt meira en nú þegar er í lögunum, landsfundum hefðbundinna stjórnmálaflokka.]
1. gr.
Á aðalfundi er ákvarðað um grunnstefnu og skipulag flokksins, s.s. lög og verklagsreglur.
2. gr.
Aðalfundur skal að jafnaði haldinn annað hvert ár. Óski 15% félagsmanna eftir því að haldinn verði aðalfundur skal það gert. Framkvæmdarráð ber ábyrgð á aðalfundi og skal boða til hans með a.m.k. þriggja mánaða fyrirvara. Boðað skal til fundarins með tölvupósti til allra félagsmanna og á vefsvæði flokksins. Framkvæmdaráð skal halda undirbúningsfundi þar sem teknar eru ákvarðanir um fundarstað, fundartíma og dagskrá.
3. gr.
Allir flokksfélagar eiga rétt á því að sitja aðalfund og skal velja fundarstað með tilliti til fjölda skráðra þátttakenda á fundinum. Vilji fleiri sitja aðalfund en fáanlegt húsrúm leyfir skal slembivelja úr hópi skráðra.
5. gr.
Vinnulag og skipulag aðalfundar skal vera með sama sniði og önnur starfsemi félagsins. Hver maður hefur eitt atkvæði. Mál skulu rædd þannig að reynt sé til hlítar að ná samstöðu um niðurstöðu máls.
6. gr.
Lagabreytingatillögur skulu berast framkvæmdarráði a.m.k. 16 dögum fyrir aðalfund og þær kynntar ítarlega í tölvupósti og á vefsvæði flokksins eigi síðar en 14 dögum fyrir aðalfund.
7. gr.
Tillögur að breytingum á grunnstefnu skulu berast framkvæmdarráði a.m.k. 16 dögum fyrir aðalfund og þær kynntar ítarlega í tölvupósti og á vefsvæði flokksins eigi síðar en 14 dögum fyrir aðalfund.
10. Kafli – Kosningar og val á fulltrúum
[Greinargerð:
Í kaflanum er gert grein fyrir hvernig fulltrúar skulu valdir, hvernig persónukjör og slembival skuli framkvæmt sem og um almennar kosningar innan flokksins, t.d. um málefni. Ætíð skal velja á framboðslista flokksins með persónukjöri og slembivali. Prófkjör þekkja flestir og voru kynnt til sögunnar til þess að auka lýðræðisleg áhrif almennra flokksmanna og draga úr vægi forystunnar í gegnum uppstillingarnefndir. Mjög er rætt um kosti persónukjörs hérlendis þessi misserin og hefur það bæði kosti og galla. Kostir persónukjörs er að flokksfélögum gefst færi á að velja sér færa einstaklinga til þess að tala máli hans. Flokksfélagarnir sjálfir velji sér fulltrúa. Gallar þess eru að rannsóknir benda til að þau henti betur körlum en konum sem og að ákveðnir hópar fólks eigi auðveldar með að ná í þeim árangri en aðrir. Þar getur fjármagn skipt miklu máli eins og þekkist í Bandaríkjunum sem og aðgengi að fjölmiðlum. Alda leggur til nokkrar leiðir til þess að koma til móts við þessa ókosti og má þar nefna takmörk á nýtingu fjármagns í forvali, fléttulista og slembival. Slembival tryggir aðkomu allra hópa jafnt. Með því fá hópar sem almennt eiga ekki upp á pallborðið rödd auk þess sem slembivalsfulltrúar eru líklegastir allra fulltrúa til þess að hafa heildarhagsmuni að leiðarljósi. Með fléttulista má tryggja jafnt hlutfall karla og kvenna meðal fulltrúa hans, enda jafnrétti mikilvæg forsenda lýðræðisins. Loks er mikilvægt að takmörk séu fyrir því hversu miklu fjármagni frambjóðendur geti beitt fyrir sér í samkeppni um sæti á lista. Forval ætti auðvitað að snúast um verðleika til þess að verða fulltrúi en ekki þau verðmæti sem frambjóðandi hefur yfir að ráða.]
1. gr.
Val á framboðslista flokksins skal fara fram með tvennum hætti, annars vegar forvali og hins vegar slembivali. Allir framboðslistar flokksins skulur vera fléttulistar forvalsfulltrúa og slembivalsfulltrúa. Fyrsti maður á lista er sá sem varð efstur í viðkomandi forvali, þá næst kemur fyrsti slembivalsfulltrúi og svo koll af kolli.
2. gr.
Ætíð skal halda forval þegar flokkurinn hyggst bjóða fram fulltrúa. Auglýsa ber forval með að lágmarki mánaðar fyrirvara. Kosning skal fara fram rafrænt meðal allra flokksfélaga og gildir félagatal þegar kosning hefst. Framkvæmd skal fara eftir verklagsreglum þar sem leynd er tryggð í kosningunni. Félögum skal tryggt tækifæri til þess að kjósa leynilega á skrifstofum flokksins kjósi þeir þess. Atkvæði sem greitt er á skrifstofu flokksins gildir. Röðun á kjörseðli skal valin með slembivali. Merkja skal við a.m.k. þrjá frambjóðendur á lista og að hámarki sex. Sá sem hlýtur flest atkvæði raðast í fyrsta sæti á forvalslista og í annað sætið sá frambjóðandi af gagnstæðu kyni sem hlaut flest atkvæði og svo koll af kolli. Hljóti tveir fulltrúar jafn mörg atkvæði skal varpa hlutkesti um röðun viðkomandi frambjóðenda.
3. gr.
Framkvæmdaráð framkvæmir slembival fyrir opnum tjöldum í viðurvist a.m.k. tíu flokksfélaga. Nota skal vottaðan tölvubúnað til þess að slembivelja úr flokksfélagatali. Flokksfélögum skal gefinn kostur á því að segja sig frá slembivali og skal það auglýst með a.m.k. mánaðar fyrirvara. Geti slembivalinn flokksfélagi ekki tekið það trúnaðarstarf er hann valdist til, s.s. vegna veikinda eða annarra þátta, skal velja annan í hans stað með slembivali.
4. gr.
Gæta skal jafnræðis í kynningu á frambjóðendum í forvali og upplýsingar um þá aðgengilegar flokksfélögum. Öllum frambjóðendum ber að fylgja verklagsreglum forval. Frambjóðendum skal óheimilt að verja fjármunum til kynningar umfram X krónur. Verði frambjóðandi uppvís að brotum á verklagsreglum eða greinum þessara laga er snúa að forvali er úrskurðarnefnd heimilt að ógilda framboð viðkomandi.
5. gr.
Heimilt er að kjósa rafrænt innan félagsins um málefni og fer kosning þá eftir 2. gr. 10. Kafla þessara laga.
11. Kafli – Fulltrúar flokksins
[Greinargerð:
Þingmenn flokksins yrðu fyrst og fremst í því hlutverki, innan Alþingis, að fylgja vilja félagsmanna í flokknum, eins og félagsmenn hafa komist að samkomulagi um, eða greitt atkvæði um, á almennum félagsfundum. Þingmennirnir yrðu skuldbundnir félagsmönnum, í einu og öllu, án undantekninga, að fara eftir vilja félagsmanna – en ekki eigin sannfæringu. Þessu er auðvitað ómögulegt að framfylgja með valdi, en félagsmenn gætu þó komið sér saman um að fulltrúanum skyldi víkja frá störfum fyrir flokkinn – hann yrði enn í embætti, en sjálfstæður. Ástæða þess að fulltrúum ber að fylgja vilja flokksins en ekki eigin vilja er sú að þeir eru fulltrúar flokksins en ekki síns sjálfs. Persónukjörnir fulltrúar eru fulltrúar eigin persónu en flokkakjörnir fulltrúar eru það ekki, þeir eru fulltrúar flokka. Og í því felst styrkleiki og kostur flokka, að þeir nýta vit og kraft margra en ekki fárra. Í flokkum geta margir komið saman, unnið tillögur og málefnum brautargengi. Í flokki þar sem flokksfélagarnir geta ekki treyst á fulltrúa sína til þess að vinna í samræmi við stefnu flokksins er líklegt að dragi úr virkni og áhuga flokksfélaganna og að völdin þjappist á hendur fulltrúanna. Mikilvægt er að fulltrúar ræki hlutverk sitt sem fulltrúar annarra, sem er verðugt og göfugt hlutverk.
Alda telur fremur ólíklegt að þingmenn myndu taka upp á því að kjósa eftir eigin höfði, í trássi við vilja flokksmeðlima, eins og ákveðið var á félagsfundi. Ástæður þess eru: Þeir sem myndu veljast til að verða þingmenn fyrir hönd flokksins, væru að öllum líkindum þar vegna áhuga á að vinna fyrir flokkinn í heild sinni, en þar að auki kemur til að þingmenn myndu veljast með þeim hætti, að aðeins þeir traustustu – heiðarlegustu, þeir sem væru fylgnastir eigin orða – myndu veljast til að verða þingmenn. Aðeins þeir traustustu kæmust að, vegna þess að félagsmenn vissu, auðvitað, að þeir yrðu að velja mjög traust fólk – því þeir gætu ekki knúið þingmenn flokksins til að kjósa í samræmi við vilja flokksins. Þingmennirnir vissu jafnframt að ef þeir tækju upp á því að kjósa eftir eigin höfði, yrði þingseta þeirra aðeins út það kjörtímabil þar sem þeir tækju upp á því, og að starfi þeirra fyrir flokkinn væri lokið.
Í reglunum er gert ráð fyrir að þingmaður geti kallað inn varaþingmann fyrir sig, reynist honum ofboðið að greiða atkvæði á Alþingi um tiltekið mál, samvisku sinnar vegna.
Einnig er kveðið á um að hlutfall þingamanna flokksins geti kosið á ákveðinn átt í atkvæðagreiðslu á Alþingi, en annar hluti þingmanna floskksins á annan hátt. Hlutföllin myndu fylgja því hlutfalli atkvæða, sem féllu á félagsfundi þar sem tillaga um málið var afgreitt. Lagt er til að þetta sé gert í þeim málum þar sem samhljómur næst ekki á félagsfundi og greiða þarf atkvæði á fundinum. Sem dæmi, ef félagsfundur afgreiðir tillögu, með 90% greiddra atkvæða sem falla á þann veg að samþykkja tillöguna, en 10% greiddra atkvæða eru gegn tillögunni, og flokkurinn hafi tíu fulltrúa á Alþingi, myndu níu þingmenn flokksins greiða atkvæði með, en einn á móti. Alda telur að fyrirkomulag eins og þetta geti skapað samstöðu innan flokksins; komið í veg fyrir klofnun, og með þessu móti sé tveimur öflum innan sömu hreyfingar gert að starfa saman, þó erfitt kunni að vera á stundum.
Nær allt ofangreint á ekki síður við um alla aðra kjörna fulltrúa flokksins við opinberar valdastofnanir. Gildir vitanlega það sama við um þá, eins og þingmenn. Hér er til dæmis átt við fulltrúa flokksins í sveitarstjórnum, ráðuneytum eða öðru.]
1. gr.
Allir fulltrúar flokksins, hvort sem er kjörnir eða slembivaldir skulu fylgja honum að málum. Fulltrúum er skylt að fylgja eftir ákvörðunum félagsfunda. Geti þeir það ekki samvisku sinnar vegna skulu þeir víkja sæti í þeim málum þegar svo ber við.
2. gr.
Flokksfélagi getur aðeins tekið tvisvar við opinberu embætti á vegum flokksins og má bjóða sig fram í forvali þar til þeim áfanga hefur verið náð. Hver flokksfélagi má aðeins einu sinni vera valinn í slembivali til setu á framboðslista eða í embætti.
3. gr.
Allir fulltrúar og frambjóðendur flokksins skulu skila hagsmunaskráningu í samræmi við verklagsreglur eigi síðar en viku efti að þeir ná kjöri eða veljast á framboðslista. Skulu þær upplýsingar öllum aðgengilegar á vef flokksins. Dragist skil á skráningunni skal fulltrúinn víkja sæti þar til skilyrðið hefur verið uppfyllt.
4. gr.
Sé ágreiningur innan flokksins um málefni sem fulltrúar hans þurfa að taka afstöðu til í atkvæðagreiðslu skal kosið um málið á félagsfundi og hlutfallstala þeirra sem eru fylgjandi og mótfallnir ákvörðuð. Fulltrúar flokksins skulu kjósa í samræmi við þá hlutfallstölu með námundun.
5. gr.
Fulltrúum skal skylt að mæta á framkvæmdarráðsfundi, félagsfundi og málefnahópsfundi óski a) 2% flokksfélaga þess eða b) X fjöldi flokksfélaga. Fulltrúum ber einnig skylda að gera grein fyrir verkum sínum og afstöðu óski flokksfélagi þess og skal það birt á vefsvæði flokksins.
6. gr.
Fulltrúar flokksins skulu ætíð halda formlega fundi, s.s. þingflokksfundi og fundi sveitarstjórnarmanna, sem um gilda öll ákvæði þessara laga. Lokaða fundi skulu þeir ekki halda, enda hafi þeir ekki gildi í starfi þeirra né flokksins.
12. Kafli – Stjórnarsáttmálar og stjórnarsamstarf
[Greinargerð:
Sérstakar reglur eru settar varðandi þátttöku í meirihlutasamstarfi og eru fyrir því ríkar ástæður. Dæmin sýna að fámennur hópur í flokksforystu ákvarðar yfirleitt stefnu og skipan fulltrúa í embætti í meirihlutasamstarfi sem flokksfélagar hafa lítið um að segja og jafnvel aðeins til málamynda samþykkja með stuttum fyrirvara. Í kaflanum eru sett skýr ákvæði sem tryggja aðkomu almennra félagsmanna að mótun meirihlutasáttmála og samþykki meirihlutasamstarfs fyrir hönd flokksins. Félagsfundur skal samþykkja slíkt samstarf og skal gefinn góður tími til umhugsunar fyrir slíkan fund, eða a.m.k. tvær vikur. Samstarfssáttmálar skulu unnir í málefnahópum og af fulltrúum þeirra. Félagsfundi ber að samþykkja slíkan sáttmála. Val á fulltrúum skal annaðhvort háð samþykki félagsfundar eða kosningu skv. ákvæðum 10. kafla laganna. Í tilviki ráðherra skal auglýst opinberlega eftir frambjóðendum en ekki aðeins velja úr hópi félagsmanna – enda markmiðið að velja þann sem flokksfélagar telja hæfastan til að fylgja eftir stefnumiðum flokksins og sé hann að finna utan flokksraðanna er það aukaatriði.}
1. gr.
Þátttaka í meirihlutasamstarfi er háð samþykki félagsfundar og samþykki félagsfundar á samstarfssáttmála þess meirihlutasamstarfs, enda hafi það hlotið afgreiðslu í málefnahópum flokksins. Komi til atkvæðagreiðslu þarf aukinn meirihluta. Boða skal til félagsfundar með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara og skulu samhliða öll gögn liggja fyrir, s.s. stjórnarsáttmáli og önnur samkomulagsatriði.
2. gr.
Ætíð þegar flokkurinn hyggst ganga í meirihlutasamstarf skal unninn samstarfssáttmáli í málefnahópum flokksins. Fulltrúar málefnahópa flokksins miðla upplýsingum milli flokka eftir þörfum. Skrifleg tillaga að sáttmála skal lögð fyrir félagsfund.
3. gr.
Val á ráðherrum flokksins skal annaðhvort háð samþykki félagsfundar eða almennri kosningu skv. 2. gr. 10. Kafla þessara laga. Í báðum tilvikum skal auglýst opinberlega eftir frambjóðendum til ráðherraembættis með a.m.k. mánaðar fyrirvara. Öllum sem uppfylla skilyrði landslaga til setu í ráðherraembætti er frjálst að bjóða sig fram. Bjóði fulltrúar flokksins sig fram og hljóta samþykki eða ná kjöri skulu þeir víkja sæti sínu.
13. Kafli – Fjármál
[Greinargerð:
Síðasti kafli laganna er mikilvægur og fjallar um fjármál. Í kaflanum eru sett takmörk fyrir hversu háaum fjárhæðum flokknum er heimilt að taka við og frá hverjum. Flokknum er t.d. ekki heimilt að taka við framlögum frá lögaðilum enda hafi þeir ekki atkvæðisrétt. Eina undantekningin frá þeirri reglu eru fjárframlög frá sjóðum hins opinbera til stjórnmálaflokka, enda séu framlögin veitt á jafnræðisgrundvelli. Allar upplýsingar um fjármál flokksins skulu opin og aðgengileg, frá því skulu ekki vera neinar undantekningar né undanbrögð.]
1. gr.
Flokknum skal heimilt að taka við fjárframlögum frá einstaklingum og úr sérstökum sjóðum hins opinbera er styrkja stjórnmálaflokka á jafnræðisgrundvelli. Berist framlag frá óþekktum aðila skal gefa styrkinn til líknarsamtaka skv. ákvörðun stjórnar.
2. gr.
Heimilt skal að taka við styrkjum sem nema allt að 500.000 krónum á ári frá einstaklingum. Móttaka hærri framlaga er heimil frá opinberum sjóðum á Íslandi er styrkja stjórnmálasamtök á jafnræðisgrundvelli. Skal framkvæmdaráð fjalla sérstaklega um móttöku slíkra styrkja eða boða til almenns félagsfundar til þess að ræða styrkveitinguna. Telja skal veitta afslætti, eftirgjöf krafna og allan anna tilflutning á verðmætum sem styrk í þessu samhengi.
3. gr.
Flokksfélagar skulu ávallt hafa aðgang að upplýsingum um styrktarmenn félagsins, form styrksins og verðmæti hans. Flokkurinn skal jafnframt birta opinberlega lista yfir styrktaraðila og verðmæti styrkja.
4. gr.
Reikingar flokksins skulu útbúnir með skýrum og greinargóðum hætti. Í þeim skal getið um samtölu styrkja. Skal jafnframt getið um styrki sem ekki hafa áhrif á reikninga félagsins svo sem notað lausafé eða aðrar gjafir sem erfitt er að telja sem fjárhagsleg verðmæti. Skal fylgja ársreikning listi yfir stærstu styrkveitendur.
5. gr.
Verði rekstrarafgangur af starfsemi flokksins skal hann færður í sjóði félagsins. Skal við slit flokksins gefa þá fjármuni sem flokkurinn kann að eiga til líknarfélaga. Endurvinnanlegu lausafé skal koma til endurvinnslu.
6. gr.
Framkvæmdarráð ber ábyrgð á fjármálum flokksins.
[…] getur lesið tillögur Öldu hér. Svo langar mig til að benda þér á það sem er að gerast í grasrótinni heima á Íslandi […]