Nýverið kom út merkileg skýrsla frá Alþjóðlegu vinnumálastofnuninni (International Labour Organization) um stöðu samvinnufélaga í heimskreppunni. Það kemur á daginn að á meðan flest fyrirtæki á Vesturlöndum eiga undir högg að sækja þá standa samvinnufélög kreppuna mun betur af sér og sækja jafnvel í sig veðrið. Þetta er ekki aðeins tilfellið með núverandi heimskreppu heldur hafa samvinnufélög í gegnum söguna staðið betur af sér kreppur en hefðbundin fyrirtæki.
Það þarfnast hugsanlega útskýringar hvað hér er átt við með hugtakinu samvinnufélög. Alþjóðlegu samvinnufélaga samtökin (International Co-operative Alliance) notast við þá skilgreiningu að samvinnufélög séu: „ Sjálfstæð samtök fólks sem taka höndum saman til að mæta sameiginlegum efnahagslegum, félaglegum eða menningarlegum þörfum og löngunum, með rekstri í sameiginlegri eigu og undir lýðræðislegri stjórn allra sem að honum koma.“ Einnig er talað um að samvinnufélög fylgi sjö grunn gildum: Hver sem er getur gerst félagi, lýðræðisleg stjórn félaga, fjárhagsleg þátttaka félaga, sjálfstæði og sjálfræði félagsins, menntun, þjálfun og upplýsingamiðlun, samvinna á milli samvinnufélaga, og ábyrgð gagnvart samfélaginu.
Í stuttu máli þá má tala um fjórar mismunandi gerðir samvinnufélaga: Neytendasamvinnufélög eru samtök neytenda um að útvega vöru eða þjónustu á sem hagstæðustum kjörum. Framleiðslusamvinnufélög sem eru samtök um framleiðslu einhverrar vöru, hugsanlega vöru sem þörf er á í samfélaginu en erfitt er að nálgast á markaði. Starfsmannasamvinnufélög eru fyrirtæki sem eru í eigu, og undir lýðræðislegri stjórn starfsmanna og eru þannig leið fyrir fólk til að hafa atvinnu en jafnframt stjórn yfir vinnuaðstæðum sínum. Og að lokum fjármálasamvinnufélög sem eru hvers kyns samvinnubankar, tryggingasamvinnufélög og lána- og sparisjóðir sem hafa ofangreind gildi að leiðarljósi.
Heimskreppan sem nú gengur yfir byrjaði sem fjármálakreppa. Það var fjármála- og bankakerfið sem fór úr böndunum. Það kom á daginn að stjórnendur fjármálafyrirtækja settu sér ekki sjálfir reglur til að vernda hagsmuni hluthafa. Fjármálasamvinnufélög eru aftur á móti bæði í eigu og undir stjórn félagsmanna sinna og megin hvatinn á bakvið félagið er ekki gróði heldur þjónusta við félagsmenn. Menn eru varkárari með sína eigin peninga en peninga annarra og það sést vel á því að fjármálasamvinnufélög taka að öllu jöfnu minni áhættur. Á meðan að þjóðríki víðsvegar um heiminn hafa eytt hundruðum miljarða í að bjarga stóru bönkunum þá hafa fjármálasamvinnufélög í flestum tilfellum verið að dafna og stækka.
Fjármálasamvinnufélög halda áfram að veita örugg lán og sinna fjárhagslegum þörfum félagsmanna sinna á ábyrgan hátt og það er lykilatriði við það að vinna sig út úr kreppu. Önnur form samvinnufélaga eru einnig byggð á mun traustari grunni og lifa betur af kreppur en hefðbundin fyrirtæki. Sprotafyrirtæki í samvinnufélagaforminu eru líklegri til að lifa af og endast lengur. Samvinnufélög almennt draga úr áhrifum kreppu með því að halda áfram að starfa og láta hjól atvinnulífsins snúast á meðan önnur fyrirtæki lenda í kröggum. Reyndar hefur það sýnt sig í núverandi heimskreppu að samvinnufélög hafa mörg hver farið að leggja aukna áherslu á grunngildi sín og þá einkum ábyrgð sína gagnvart samfélaginu. Samvinnufélög hafa verið að skapa atvinnu með því að stofna ný starfsmannasamvinnufélög og með því að taka yfir fyrirtæki sem eru á barmi gjaldþrots og endurskipuleggja þau yfir í samvinnufélagaformið. Þetta er mögulegt jafnvel á tímum þegar lítið er um lánsfé af því að samvinnufélög eru fjármögnuð af félagsmönnum sínum.
Jafnframt hefur það sýnt sig að samvinnufélög ná hvað best til þeirra sem þurfa mest á þeim að halda á krepputímum. Neytendasamvinnufélög gegna mikilvægu hlutverki í því að keyra niður verð á vöru og þjónustu sem er gífurlega mikilvægt fyrir fátækari hluta samfélaga. Fjármálasamvinnufélög hafa einnig gegnt mikilvægu hlutverki í að draga úr fátækt víðsvegar um heiminn einkum vegna áherslunnar sem þau leggja á að spara frekar en að taka lán.
Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst því yfir að árið 2012 sé alþjóðlegt ár samvinnufélaga. Bæði sameinuðu þjóðirnar og alþjóðlega vinnumálastofnunin horfa til samvinnufélaga sem leiðar út úr heimskreppunni og til að draga úr fátækt og auka velmegun um allan heim. Þessa umræðu þarf að taka upp á Íslandi. Eftir hrunið var hér hávær krafa um grundvallar kerfisbreytingu og breyttan hugsunarhátt. Leiðin út úr kreppunni er ekki að búa til sama samfélag og var hér fyrir kreppu, það samfélag var byggt á ótraustum grunni. Samvinnufélög eru traustara og sjálfbærara form af rekstri en hefðbundin fyrirtæki og að hlúa að rekstri samvinnufélaga er ekki aðeins leið út úr núverandi kreppu heldur rennir það stoðum undir sjálfbært hagkerfi sem hefur burði til að standa af sér efnahagsstorma framtíðarinnar.
Hjalti Hrafn Hafþórsson
Heimildir:
Skýrsla alþjóðlegu vinnumálastofnunarinnar
Alþjóðlegu samvinnufélagasamtökin
Alþjóðlegt ár samvinnufélaga
Takk fyrir góða og þarfa grein Hjalti.
Leiðin út úr kreppunni er svo sannarlega ekki sú að halda öllu sama áfram. Heldur þarf að byggja á allt öðru eins og tildæmis að fólk í lægri tekjuflokkum verði tryggð afkoma. Það væri tildæmis hægt með raunverulegu Samvinnufélagaformi sem og Sjálfbærni. Einnig væri samvinnuform á sparisjóðum góður kostur fyrir fólk til að byggja sig upp.
Bestu kveðjur,
Guðni Karl