Fundur í málefnahópi um lýðræði á sviði stjórnmála
Grasrótarmiðstöðinni 28. febrúar 2012 kl. 20.

Mætt voru Kristinn Már (sem stýrði fundi), Guðni Karl, Sigríður Þorgeirsdóttir, Sigurður Ingi, Guðmundur Ásgeirsson og Björn (sem ritaði fundargerð).

1. Real Democracy User Guide. Rætt um fjáröflun til verkefnisins með liðstyrk Eva Joly Foundation. Samþykkt að byrja á verkefninu strax og að Kristinn Már tæki það að sér. Rætt um að auglýsa verkefnið á vefsíðu Öldu og bjóða fólki að koma með tillögur og ábendingar og taka almennt þátt í vinnunni.

2. Þátttökufjárhagsáætlanagerð. Samþykkt að Kristinn Már búi til grunntexta um fyrirbærið, almennan texta á íslensku og ensku ætlaðan til upplýsingar. Rætt um að taka þetta mál eindregið upp á komandi mánuðum og þrýsta t.d. á sveitarfélög.

3. Tillaga að lögum lýðræðislegs stjórnmálaflokks. Breiðfylkingin svokallaða hefur tekið tillögu Öldu upp að miklu leyti. Lokagerð tillagna Öldu, í endanlegu útliti, liggur fyrir fljótlega. Gengið verður á fund stjórnmálaflokkanna með tillögurnar. Rætt um virka þátttöku félagsmanna í stjórnmálaflokkum, slembival og uppstillingarnefndir. Einnig um samhljóða ákvarðanatöku og stjórnmálamenningu. Fram kom í umræðunni að Alda leggi megináherslu á þátttöku borgaranna í ákvörðunum, þjóðaratkvæðagreiðslur séu ekki aðalatriði heldur þrautarlending í því sambandi. Rætt var um meginregluna um að „þau sem mæta, ráða“.

4. Stefna lýðræðislegs stjórnmálaflokks í lýðræðismálum. Á vegum félagsins stendur til að taka saman drög að slíkri stefnu. Í raun ættu slík drög að endurspegla grunnstefnu Öldu þannig að efniviðurinn er til. Kristinn Már hefur hafið þessa vinnu. Sigríður benti á að stefna Öldu gangi þvert á þá viðteknu skoðun að borgararnir væru ánægðir þegar þær væru lausir við pólitík. Í framhaldinu var rætt um „sláandi“ hugmyndir sem ná athygli fjölmiðla og fjöldans og var hugmyndin um lýðræðisvæðingu efnahagslífsins nefnd í því sambandi. Samþykkt að halda fund í málefnahópnum fljótlega og leggja þá fram drög að umræddri stefnu.

5. Önnur mál.
a) Umsögn um breytingu á sveitarstjórnarlögum (258. mál á Alþingi). Öldu barst beiðni frá þingnefnd um að senda inn slíka umsögn. Breytingartillagan er ættuð frá Hreyfingunni og er að miklu leyti samhljóða tillögum Öldu um breytingar á lögunum. Þó vantar ákvæði um þátttökufjárhagsáætlanagerð og almennt má segja að tillögurnar séu í anda fulltrúalýðræðis en ekki þátttökulýðræðis. Björn tekur saman umsögnina.

Í framhaldi af þessum lið spannst umræða um vald lítilla sveitarfélaga yfir miklum auðlindum.

b) Ráðstefna um sjálfbærniþorp. Guðni Karl er að vinna að því að halda slíka ráðstefnu og hefur fengið jákvæð viðbrögð víða. Til stendur að fá sérfræðinga til að halda fyrirlestra. Alda, Framtíðarlandið og fleiri komi að málinu. Kristinn Már lagði til að málefnahópur um sjálfbærni ræði málið á næsta fundi sínum.

Sigurður Ingi bað Guðna Karl að skýra hugmyndir sínar nánar og benti í framhaldinu á svokallaða „transition towns“ á Bretlandi, í Portúgal, Þýskalandi og víðar. Í framhaldinu var rætt um fæðulýðræði.

c) Deiglan erlendis. Björn ræddi um nauðsyn þess að félagsmenn fylgdust vel með þeirri hugmyndavinnu um nýja möguleika í samfélagsmálum sem nú fer fram víða um heim í framhaldi af arabíska vorinu, mótmælum í Evrópu og Bandaríkjunum o.s.frv. Fréttum af slíku megi síðan miðla á vefsíðu Öldu. Jafnframt rætt um kynningu á hugmyndum Öldu erlendis. Kristinn Már lagði áherslu á mikilvægi þess að velja samstarfsaðila af kostgæfni.

d) Þemahefti um lýðræði. Kristinn Már hefur verið Menntamálaráðuneytinu til ráðgjafar við vinnslu á slíku hefti, ætlað til notkunar í skólum landsins.

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 21:45.