Fundargerð 29. mars 2012

Fundur settur rúmlega hálfníu. Grasrótarmiðstöðin iðaði af lífi og greinilegt að það er mikið að gerast í grasrótinni.

Mætt voru Hjalti Hrafn, Guðmundur D., Júlíus Valdimarsson og Sólveig Alda sem ritar fundargerð. Guðmundur Ásgeirsson og Þórarinn Einarsson komu uppúr miðjum fundi.

Við ræddum um titill á nýjum lögum um samvinnurekstur og kosti og galla við mismunandi útgáfur. Sammælst um að gefa því tíma og ræða áfram. Mögulegir titlar: Lög um lýðræðisleg fyrirtæki og félög. Lög um lýðræðisleg samvinnufélög starfsmanna. Lög um samvinnurekstur. Lög um efnahagslegt lýðræði. … 🙂

Hjalti velti upp þeirri spurningu hvort við séum að fara of hratt í að vinna tæknimál er varða frumvarp til nýrra laga um samvinnurekstur og hvort ekki væri heillavænlegra að leggja áherslu á þingsályktunartillögu fyrir haustið. Málið skeggrætt.

Eftir góðar umræður um næstu skref og bestu skref í þessari vinnu kom upp sú hugmynd, sem þó er ekki ný af nálinni, að halda málþing eða ráðstefnu og fá hingað til lands fulltrúa frá lýðræðislegum fyrirtækjum eða stofnunum, eða hvern þann er eitthvað markvert hefði til málanna að leggja. Almenningur þarf að fá kynningu á hugtakinu um lýðræði í fyrirtækjum og félögum og blása þarf útaf borðinu þá fordóma sem fyrir eru. Lýðræðisleg fyrirtæki eru efnhagslega ákjósanleg, þau stuðla að meira jafnrétti og veita fólki vald til að taka ákvarðanir á öllum sviðum tilveru sinnar. Við eyðum/verjum stórum hluta lífs okkar í vinnunni og sá hluti á ekki að vera undanskilinn leikreglum lýðræðisins.  Auk þessu sýna slík fyrirtæki meiri samfélagslega og umhverfislega ábyrgð, þau þola sveiflur í efnahagslífinu betur en kapítalísk fyrirtæki og veita meiri stöðugleika. Það er ástæða fyrir því að sameinuðu þjóðirnar hafa lýst árið í ár, 2012, alþjóðlegt ár samvinnureksturs. Sjá http://www.2012.coop/

Það er því mikilvægt að kynna þetta hugtak fyrir fólki enda er það trú okkar að flestir vilji hafa meira um líf sitt að segja og að fólki er fullkomlega treystandi til að taka ákvarðanir um allt milli himins og jarðar í sameiningu. Næstu skref eru því að komast í samband við fulltrúa samvinnureksturs sem geta heimsótt okkur og að athuga leiðir til fjármögnunar við slíkt.

Þórarinn stakk upp á að Alda stofnaði lagahóp. Vel tekið í það og því vísað á næsta stjórnarfund, 2. apríl n.k. Einnig ræddum við hvort þörf væri fyrir Grasrótarmiðstöðina sem slíka að stofna lagahóp.

Frábær fundur í alla staði. 🙂 Mikið hlegið og gert gys. Fundarmenn voru sammála um að fundir ættu að vera skemmtilegir og að starfið í Öldu mætti aldrei vera kvöð.

Fundi slitið kl. 22.37 með marglaga gamansögu. Ekki var kosið um hvort hún væri fyndin eður ei.