Alda, félag um sjálfbærni og lýðræði tók að sér það verkefni að teikna upp lýðræðislega skipan stjórnmálaflokks. Verkefnið samanstendur af tillögum að lögum og skipulagi fyrir lýðræðislegan stjórnmálaflokk, með skýringum og greinargerðum,  hugmyndafræðilegum inngangi, ábendingum um verklag og tilvísinum í rannsóknir og fyrirmyndir. Þess ber að geta að Alda er ekki og hyggst ekki verða stjórnmálaflokkur.

Hópur – Lýðræði á sviði stjórnmálanna

Tillögurnar voru unnar í opnu ferli þar sem rædd voru markmið og leiðir að þeim á fundum og fulltrúar hópsins fengnir til að útfæra þær nánar. Þær tillögur voru svo ræddar frekar, unnar áfram og loks samþykktar á stjórnarfundi í félaginu. Fulltrúar hópsins sem unnu tillögurnar voru: Guðmundur D. Haraldsson, Helga Kjartansdóttir, Hjalti Hrafn Hafþórsson og Kristinn Már Ársælsson.

Markmið

Tilgangurinn með verkefninu er að auka lýðræði í innra starfi stjórnmálaflokks og stuðla þannig að framgöngu þátttöku- og rökræðulýðræðis í samfélaginu. Hugmyndin um stjórnmálaflokk – sem vettvang og farveg fyrir almenning til þess að koma saman, móta hugmyndir, leysa vandamál og koma stefnu á framfæri og í framkvæmd – er góð. Hins vegar hefur sú hugmynd farið út af sporinu einhvers staðar á leiðinni eða aldrei náð að verða að veruleika. Undanfarna áratugi hefur þátttaka í stjórnmálaflokkum farið dvínandi á Vesturlöndum, traust og áhugi á stjórnmálum farið minnkandi. Eftir hrunið er traust á stjórnmálum lítið sem ekkert. Ljóst er að bregðast þarf við þessum vanda. Alda telur einsýnt að endurskipuleggja þurfi stjórnmálaflokka með það að augnamiði að þeir verði í raun vettvangur fyrir almenning. Til þess að svo megi verða þarf að breyta skipulagi stjórnmálaflokka þannig að áhrif þeirra sem taka þátt í starfinu, grasrótinni, séu aukin og tryggð.