Alda sendi nýlega bækling til flestra stéttarfélaga á Íslandi. Í bæklingnum eru reifaðar tillögur Öldu, um styttingu vinnudags. Bæklingurinn var einnig sendur til Samtaka Atvinnulífsins, Viðskiptaráðs og nokkurra ráðuneyta ríkisins. Viðtakendur voru samtals um 130 að tölu.

Bæklingnum var fylgt eftir með ósk um fund með fulltrúum Öldu. Bæklinginn má nálgast hér að neðan:

Stytting vinnutíma

Á Íslandi vinnur fólk lengur en á Norðurlöndum og einna mest í samanburði við ríki Evrópu. Árið 2010 vann meðal vinnandi maður á Íslandi 23 vinnu-dögum meira en í Svíþjóð. Það er næstum því heilt sumarleyfi. Auk þess er atvinnuþátttaka hérlendis sú mesta af Norðurlöndum og mjög mikil miðað við önnur Evrópuríki. Alda – félag um sjálfbærni og lýðræði telur nauðsynlegt að stytta vinnudaginn á Íslandi. Víða í Evrópu hefur vinnudagurinn gagngert verið styttur síðastliðna áratugi. Reynslan af því er almennt góð – rétt eins og gildir um styttingu vinnudagsins í gegnum söguna.

Alda minnir á að stytting vinnudags er ekki nýtt fyrirbrigði, heldur gömul og gild leið til að auka lífsgæði almennings. Vélvæðing – aukin sjálfvirkni og framleiðni – á að skila sér beint í minni vinnu, en ekki atvinnuleysi. Stytting vinnudagsins er fyrir löngu tímabær aðgerð.

Kjarabarátta hefur að langstærstum hluta snúist um kaupmáttar- og hagvaxtaraukningu sem og atvinnuþátttöku. Enda hafði tekju- og framleiðslu-aukning umtalsverð áhrif til þess að auka lífsgæði og hamingju. Rannsóknir benda til þess að á þessu sé orðin breyting á Vesturlöndum. Í ríkari löndum eru lítil tengls milli tekju- og framleiðniaukningar og bættra lífsgæða og hamingju. Aðrir þættir vega nú þyngra en áður í því að auka lífsgæði og hamingju og má þar nefna sérstaklega þrjá þætti: félagsleg tengsl, jöfnuð og umhverfisgæði. Stytting vinnutímans gerir okkur kleift að rækta félagsleg tengsl, taka þátt í samfélaginu og njóta umhverfisgæða. Sömuleiðis er stytting vinnutímans líkleg til þess að draga úr streitu sem hefur neikvæð heilsuáhrif og þar með auka lífsgæði. Alda leggur því til að:

  1. Venjuleg vinnuvika verði stytt í 30-32 vinnustundir á tveggja ára tímabili.
  2. Tryggja þarf að aukin framleiðni skili sér í fleiri frístundum hjá vinnandi fólki. Þessu markmiði skal vera náð fyrir árslok 2015.
  3. Fyrrgreindum markmiðum skal náð þannig að kaupmáttur standist í stað eða aukist.