Fundur settur klukkan 20:15 þann 4. september 2012. Mætt voru Björn Þorsteinsson (er stýrði fundi), Sólveig Alda Halldórsdóttir, Guðmundur D. Haraldsson (er ritaði fundargerð), Guðni Karl Harðason, Kristinn Már Ársælsson og Hjalti Hrafn Hafþórsson.

Stytting vinnutíma:

Nokkrir fundir hafa verið haldnir með samtökum launþega. Eru það ASÍ, Sjúkraliðafélag Íslands og Félag íslenskra náttúrufræðinga sem fulltrúar Öldu hafa hitt. Verið er að skipuleggja fundi með fleiri félögum. Stefnt er að skrifum í blöð í mánuðnum, áframhald verður svo á því eftir það.

Helstu niðurstöður af fundarhöldum eru 1) hækkun grunnlauna hefur gengið illa, hafa lágir taxtar kalla á sókn í yfirvinnu. Þetta sama kemur fram í tölvupóstum frá félögum. 2) ASÍ getur ekki tekið málið upp af sjálfsdáðum, heldur þarf það að koma frá aðildarfélögum og/eða landssamböndum. Þurfum við því að ýta frekar á eftir stéttarfélögunum. 3) Í kjarasamningum hefur stytting vinnutíma ekki vakið áhuga hjá atvinnurekendum. Og þegar viðbrögð hafa verið eru þau gjarnan neikvæð, en engin sterk rök komið fram.

Atvinnurekendur hafa ekki sýnt tillögum Öldu áhuga. Viðbrögð frá stéttarfélögum hafa hins vegar nær alltaf verið jákvæð, en nær þrjátíu félög hafa svarað tölvupóstum frá Öldu. Einungis tvö neikvæð svör hafa borist. Yfir tíu félag hafa óskað eftir fundi.

Samræðuvettvangur grasrótarhópa:

Öldu hefur borist erindi um að félagið sjái um að skipuleggja samræðuvettvang grasrótarhópanna sem eru innan Grasrótarmiðstöðvarinnar. Einnig hefur borist erindi um að félagið sjái um að miðla málum meðal nokkurra framboða. Er svo að skilja á þeim aðilum sem senda erindin að Öldu sé vel treyst til verksins, félagið sé talið vera hlutlaus aðili.

Málið var rætt. Andmæli voru helst gegn seinna erindinu, vandséð væri hvernig Alda gæti miðlað málum. Var þó ákveðið að Alda myndi sjá um samræðuvettvanginn og að utanaðkomandi félög gætu tekið þátt. Hugsunin er að samræðuvettvangurinn nýtist ólíkum grasrótarhópar til að hittast, vinna saman, stilla saman strengi og svo framvegis. Fulltrúi frá Öldu myndi stýra fundum. Verður fyrsti fundur í september að líkindum.

Ráðstefna um beint lýðræði:

Ráðstefna um beint lýðræði verður haldin 11. nóvember næstkomandi. Fyrirlesarar sem Alda mælti með við Innanríkisráðuneytið fyrr á árinu munu mæta, tveir talsins. Fulltrúar Öldu hittu Ögmund Jónasson innanríkisráðherra í tilefni af ráðstefnunni. (sjá einnig: http://alda.is/?p=1634).

Málefnahópar:

Lýðræðislegt hagkerfi: Fámennur hópur var haldinn. Annar verður haldinn á næstunni.

Hópur um alvöru lýðræði (fyrr málefnahópur um lýðræði á sviði stjórnmála): Hefur nú skipt um nafn (sjá http://alda.is/?p=1684). Hópurinn hefur hitt Dögun til að kynna stefnumál Öldu í lýðræðismálum. Hefur gengið erfiðlega með að hitta aðra stjórnmálaflokka.

Hópnum barst beiðni um að móta siðareglur fyrir stjórnmálaflokka. Því miður varð að vísa því frá, fyrst og fremst vegna skorts á fólki til verksins. Þeim sem óskuðu var bent á Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Sé vilji hjá lesendum að taka að sér verkið er þeim þó velkomið að hafa samband við félagið.

Aðalfundur – aldamót:

Aðalfundur Öldu (“Aldamót”) verður haldinn 29. september 2012. Tímasetning er ekki á hreinu, en líklega eftir kl. 14. Stjórn mun njörfa niður tíma. Fundurinn verður auglýstur síðar, bæði á vefsíðu og í tölvupósti.

Í næstu stjórn verða tveir meðlimir Öldu valdir af handahófi úr félagaskrá. Öllum félögum verður gert kleift að segja sig frá handahófsvalinu. Verða samtals níu stjórnarmenn í Öldu.

Vefsíðan:

Guðmundur mun taka saman lista yfir atriði sem þarf að laga á vefnum og hafa samráð við hönnuð og aðra um breytingar. Ýmislegt þarf að laga.

Rætt var um að búa til nokkur kynningarmyndbönd fyrir félagið nú í vetur. Yrðu myndböndin sett á vefsíðu félagsins. Rætt var um að búa til eitt myndband per hóp. Málinu er beint til málefnahópa.

Stjórnarskrártillaga, hin nýrri:

Umræða var í samfélaginu og fjölmiðlum um stjórnarskrártillögu sem var lögð fram af tveimur mönnum (http://www.stjornskipun.is/). Rætt var um að Alda myndi setja saman eigin tillögu að stjórnarskrá, en félagið á nú þegar til tillögur í samfelldu máli að stjórnarskrá (sjá: http://alda.is/?p=340).

Umræður voru nokkrar um málið. Kom fram það sjónarmið að með því að félagið setti fram tillögu, væri verið að mæla gegn tillögum Stjórnlagaráðs. Á móti var bent á það að félagið hefur alltaf gert athugasemdir við tillögurnar og ferlið (http://alda.is/?p=412 og http://alda.is/?p=1446). Var niðurstaðan að lokum að félagið skyldi setja saman sína eigin tillögu. Gæti það m.a. orðið til að vekja athygli á málstaðfélagsins um að stjórarskrá skuli vera sett saman í þágu fólksins, að það skyldi vera unnið í lýðræðislegu ferli og svo frv.

Önnur mál:

Fjölmiðlar: Rætt var um að koma þyrfti á einhvers konar félagi eða hópi sem myndi fylgjast með fréttum, kanna sannleiksgildi ýmissa fullyrðinga og vekja athygli á þeim sem eru ósannar. Áhugasamir lesendur sem hafa áhuga á svoleiðis er bent á að hafa samband við félagið. Lýst var yfir áhyggjum yfir ástandi fjölmiðla almennt.

Aktivismi: Rætt var um hvort Alda ætti að taka þátt í aktívisma. Skipst var á skoðunum um málið. Bent var t.d. á að ef alda tæki þátt í einhvers konar gjörningi – t.d. taka í hurðarhúna á læstum dyrum þar sem á bakvið væri ríkisstjórn á fundi – þá myndi það teljast sem aktívismi. Engin formleg niðurstaða fékkst í málið, fyrir utan að ákvarðanir um aktívisma þyrfti að taka í hverju máli fyrir sig, ákvörðun þyrfti að vera vönduð sem og öll framkvæmd.

Virkni Öldu: Rætt var um virkni innan Öldu. Kristinn Már benti á að hún væri góð miðað við sína reynslu af starfi innan stjórnmálaflokka. Margt fólk er virkt í félaginu og vinnur að ýmsum ólíkum verkefnum. Hann benti á að virknin gæti aðeins minnkað á komandi kosningavetri, vegna þess að nýju framboðin gætu laðað að sér svipaðan hóp fólks og er virkt í Öldu. Þegar kosningum er lokið gæti Alda hins vegar styrkst.

Fundi var slitið klukkan 22:11.

Beðist er velvirðingar á því hve seint fundargerðin skilar sér, en fundarritari hefur átt annríkt upp á síðkastið.