Fulltrúar Öldu hafa nú farið á fund fimm samtaka launþega til að ræða um styttingu vinnutíma. Allstaðar hefur hugmyndum Öldu verið vel tekið. Að sjálfsögðu hafa vaknað spurningar hjá fólki við lestur bæklingsins sem við sendum í sumar. Þeim spurningum hafa fulltrúar félagsins reynt að svara eftir fremsta megni.

Yfir 30 félög hafa haft samband við Öldu vegna málsins og kemur oft fram í samskiptum að stéttarfélögin hafa sett skemmri vinnutíma fram sem kröfu á undanförnum árum, en árangurinn hefur verið lítill. Það er því greinilegur áhugi – svarhlutfallið er yfir 25% – en baráttan er erfið.

Til að auðvelda baráttuna hafa fulltrúar Öldu beint því til stéttarfélaganna, á fundunum, að vinna með öðrum stéttarfélögum að málinu. Mun Alda halda því áfram, einnig með formlegum hætti.

Framundan eru tveir stórir fundir um styttingu vinnutíma þar sem Alda mun verða með fulltrúa. Eru báðir fundirnir fyrir hópa launþega. Annar fundurinn verður hjá Hjúkrunarráði Landspítala en nýlega hafði fulltrúi þess samband við Öldu. Hinn fundurinn verður hjá Bandalagi Háskólamanna.

Áhugafólki um skemmri vinnutíma er bent á að hafa samband við sitt stéttarfélag með hugmyndir Öldu. Það er nauðsynlegt að meðlimir í stéttarfélögum láti heyra í sér. Þannig verða stéttarfélög vör við áhuga.

Aðrir lesendur sem hafa áhuga á fyrirlestrum, til dæmis fyrir sitt stéttarfélag, er bent á að hafa samband við Öldu. Hafa má samband í gegnum netfangið gudm.d.haralds [-hjá-] gmail.com

One Thought to “Stytting vinnutíma: Nýjustu tíðindi”

  1. Skúli Guðbjarnarson

    Athyglisvert að hjá ríkisstofnunum sem reka heilbrigðisþjónustu að gert er ráð fyrir að næturvinnufólk vinni langtum fleiri vinnutíma en vitað er að valdi heilsutjóni. Nágrannalöndin hafa stytt vinnutíma næturvinnufólks í fullri vinnu verulega.

Comments are closed.