Laugardaginn 9. Febrúar tók Alda þátt í málþingi á vegum húmanistaflokksins. Hjalti Hrafn sem fulltrúi Öldu flutti þar stutt erindi um hugarfarsbreytingu. Eftirfarandi er texti framsögunnar.

________________________________________

Er þörf á hugarfarsbreytingu?

Nei (og já). Það þarf að breyta meira en bara hugarfari. Við þurfum að ganga skrefi lengra.

Við erum núna að ganga í gegnum tímabil í mannkynssögunni sem á sér ekkert fordæmi. Við stöndum frammi fyrir því að lífsstíll vesturlanda og þau framleiðsluferli sem viðhalda þeim lífsstíl hafa leitt okkur að barmi umhverfisslyss af ófyrirsjáanlegri stærðargráðu. Svo ekki sé mynnst á þá ómældu mannlegu eymd sem kapítalísk framleiðsla hefur valdið.
Jörðin getur ekki meira. Það kerfi sem við lifum innan og hugsum innan er jafna sem gengur ekki upp. 2+2 verður aldrei 5.

Hugmyndir verða ekki til í tómarúmi. Þær verða til innan ákveðins ramma, þær hafa aðeins merkingu þegar þær eru settar í samhengi innan ákveðin hugsanakerfis eða viðmiðs (paradigm upp á enskuna). Hugmyndir og hugarfar geta þróast innan viðmiðs, en þegar viðmiðið sjálft breytist verður bylting. Það breytir því ekki aðeins hvað við hugsum heldur hvernig við hugsum.

Ríkjandi pólitískt og efahagslegt viðmið varð til í röð blóðugra byltinga fyrir rúmum 200 árum. Þar varð til hugsanakerfi þar sem hugtök á borð við þjóðríki, lýðræði, kapítalismi og mannréttindi höfðu merkingu. Innan þess viðmiðs sem ríkti þar á undan voru þetta merkingarlaus hugtök.

Þróun hugmynda á sér stað innan viðmiðs og stundum leiðir slík þróun til hugarfarsbreytingar. Innan pólitísks viðmiðs sveiflast áherslur til og frá. Stundum leiðir þróunin einnig til mótsagna.Þegar gallar kerfisins og mótsagnir byrja að koma í ljós er yfirleitt reynt í lengstu lög að laga viðmiðið eða fela gallana.
Það verður alltaf einhver sem reynir að halda því fram í fullri alvöru að 2+2 séu 5 til þess að halda í það viðmið sem öll hans hugsun byggir á.

Við þurfum meira en hugarfarsbreytingu, við þurfum byltingu, við þurfum nýtt viðmið, nýjan ramma sem við getum hugsað innan.

Nú þegar eru hugtök gamla viðmiðsins byrjuð að virðast merkingarlaus. Þau ganga ekki upp þegar við yfirfærum þau á þann veruleika sem við okkur blasir. Þegar umræðan snýst að „hagvexti“ getur maður lítið annað gert en að hrista hausinn. Að samþykkja það að slíkt hugtak hafi merkingu er fullkomin firring. Líkt og að segja að 2+2 séu 5 en verið bráðum 6.

Stóru vandamálin sem mannkynið stendur frammi fyrir verða ekki leyst innan ríkjandi viðmiðs. Þjóðríki og stjórnmálaflokkar, fyrirtæki og hagfræðikenningar geta ekki einu sinni byrjað að takast á við þessi vandamál. Þetta eru hlutar úrelts viðmiðs þar sem orðaforðinn til að ræða vandamálin er ekki til staðar, hvað þá getan til að leita lausna.

Það er okkar að ræða þessi vandamál, að búa til orðaforðann, að leita lausnanna, að hugsa út fyrir núverandi ramma. Í þessu er lýðræðisfélagið Alda einn lítill vettvangur, en ég býð ykkur öllum að taka þátt í þessu verkefni með okkur.