Stjórnarfundur í Öldu, haldinn 1. maí 2013 kl. 11 í Grasrótarmiðstöðunni við Brautarholt.

Mætt voru Júlíus, Elín, Helga María, Ásta, Sólveig Alda, Birgir Smári, Arnold, Bjartur, Björn (sem ritaði fundargerð), Kristinn Már og Guðmundur D.

Efni fundarins var almennt spjall um starf félagsins og ástand mála vítt og breitt.

Mikil umræða spannst um nýafstaðnar kosningar og þátt fjölmiðla í þeim. Ásta sagði frá reynslu sinni af því að reyna að koma litlu framboði (Dögun) á framfæri í fjölmiðlum. Hún talaði í því sambandi um brot á fjölmiðlalögum í sambandi við það hvernig framboðum er mismunað. Fjölmiðlar slái hring um ríkjandi ástand í skjóli „ritstjórnarlegs valds“. Rætt um að málefnahópur Öldu um fjölmiðla taki samband lýðræðis og fjölmiðla til sérstakrar skoðunar.

Kristinn Már minnti á tillögur Öldu um að lýðræðisvæða fjölmiðla.

Elín tók til máls og lauk lofsorði á starfsemi Öldu. Hún tók undir gagnrýni á þátt fjölmiðla í kosningabaráttunni, tekist hefði að einskorða umræðuna að miklu leyti við skuldir og peninga.

Júlíus benti á að ný framboð þyrftu meiri kynningu en þau gömlu, ekki minni.

Ásta sagði frá fundum framboðanna um hámarks-birtingarkostnað vegna kosningabaráttunnar. Fulltrúar fjórflokksins vissu ekki hvert þeir ætluðu þegar Ásta nefndi töluna 3,5 milljónir króna.

Elín benti á að auglýsingar væru í eðli sínu andlýðræðislegar – lýðskrum.

Ásta benti á að fjölmiðlanefnd hefði komist að þeirri niðurstöðu að kosningaumfjöllun Stöðvar 2 hefði verið mjög skoðanamyndandi. Benti Ásta á bréf fjölmiðlanefndar þessu til stuðnings.

Undir lok fundar var rætt um starfið framundan og hvort breyting yrði á starfsemi Öldu eftir að nýja ríkisstjórnin tók við. Kristinn Már lagði til málefnahópar tækju að einbeita sér að því að búa til kynningarefni og senda frá sér „konkret“ tillögur. Jafnframt var rætt um að halda fundi með stjórnmálaflokkunum milli kosninga, en ekki aðeins í aðdraganda þeirra.

Kristinn Már benti á að Alda gæti lagt sitt af mörkunum til að flokkar á vinstri kantinum sameinuðust – Alda gæti lagt til þá heildarsýn sem til þyrfti! Þessi hugmynd fékk góðar undirtektir, en jafnframt var varað við því að Alda tæki upp á því að tengjast tilteknum flokkum.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 12:40.