Stjórnarfundur í Öldu 5. júní 2013 kl. 20 á Café Haítí.

Mætt voru Birgir, Guðmundur D., Björn (sem ritaði fundargerð), Hjalti, Metúsalem, Júlíus, Ásta og Ragnar.

1. Málefni hælisleitenda.

Rætt um þessi mál í tilefni af brottvísun króatískra fjölskyldna úr landi. Að mati lögfróðra er sú aðgerð kolólögleg: bannað er að vísa fólki úr landi meðan mál þess er til meðferðar. Vandinn er hins vegar sá að það vantar dóma sem gefa fordæmi hvað þetta snertir. Rætt var um þann möguleika að eiga aðild að dómsmáli þar sem yrði látið á þetta reyna. Peningaskortur stendur í veginum. Rætt um ýmsar leiðir til fjáröflunar og málinu vísað til málefnahóps um alþjóðamál.

2. Húsnæðismál.

Búið er að loka Grasrótarmiðstöðinni sem verið hafði heimili Öldu og fleiri samtaka í rúmlega eitt og hálft ár. Ásta greindi frá því að hún hefði sent formlegt erindi með beiðni um úrlausn í húsnæðismálum grasrótarsamtaka til fjölmargra sveitarfélaga. Ekkert ákveðið hefði komið út úr því ennþá. Rætt um nauðsyn þess að koma á fót Lýðræðismiðstöð!

3. Málefnahópar, staða mála.

Greiningardeildin er í dvala og verður fram á haust.

Sjálfbærniþorp. Ásta greindi frá því að verið væri að vinna í því máli. Til væri félag um sjálfbærniþorp og stæði til að festa kaup á jörð. Gerð hefðu verið tilboð í nokkrar jarðir en það hefði ekki gengið upp ennþá. Fengist hefði einn hektari gefins fyrir austan fjall og þar væri ætlunin að gera tilraunir með permakúltúr. Rætt um samstarf við Landvernd og fleiri aðila í þessu efni.

Stytting vinnutíma. Guðmundur D. og Björn gerðu grein fyrir fundi sínum með Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ, 23. maí. Guðmundur D. hyggst senda bréf (gamaldags, í pósti) til allra stéttarfélaga þar sem sagt er frá þeim ummælum Gylfa að frumkvæðið að tillögum um styttingu vinnutíma þyrfti að koma frá aðildarfélögunum. Rætt um að taka hann á orðinu hvað það snertir.

4. Önnur mál.

Rætt um þingsályktunartillögu um samvinnufyrirtæki sem dagaði uppi á síðasta þingi. Minna þarf Eygló Harðardóttur á málið, hún stóð að tillögunni.

Júlíus sagði frá fundi húmanista með samtökum um betra peningakerfi sl. laugardag. Frosti Sigurjónsson var á fundinum. Júlíus lætur þennan hóp vita af Öldu.

Rætt um nauðsyn þess að fá fleira fólk til að taka þátt í starfsemi Öldu.

Í lok fundar minnti Kristinn Már á að Alda hefði verið mjög mikið í fjölmiðlum á þessu ári og að halda þurfi því starfi áfram, á sem flestum sviðum.

Fleira ekki rætt, fundi slitið um tíuleytið.