Haldinn að Grensásvegi 16a. – fundur settur 20:00

Mætt eru Hulda Björg, Hjalti Hrafn, Björn Þorsteinsson, Guðmundur D., Ásta Hafberg, Birgir Smári, Júlíus Valdimarsson og Sólveig Alda sem ritaði fundargerð.
Síðar á fund mætti Þórgnýr Thoroddsen.

Dagskrá fundar snerist að mestu um skipulag vetrar og húsnæðismál en einnig var rætt um stjórnarástand og fleira því tengt. Fundarmenn koma góðir undan sumri og til í veturinn.

Húsnæðismál Öldu eru í ólestri síðan Grasrótarmiðstöðin lokaði. Við þurfum nauðsynlega að hafa fastan fundarstað og ætlum við að halda áfram leitinni. Sólveig ætlar að tala við forsvarsmenn hjá Reykjavíkurborg og sjá hvort þar sé eitthvað í boði.
ALDA var búin að senda bréf á sveitastjórnir og borg varðandi húsnæðismál grasrótarhópa. Einhver svör hafa borist í sumar. Vitað er af nokkrum svörum sem komu bréfleiðis en stjórnarmaður gleymdi að koma með þau á fundinn.
Fyrir þennan stjórnarfund fengum við fundaraðstöðu að láni hér á Grensásvegi og þökkum við fyrir það.

Skráningar í félagið eru alltaf stöðugar og áhugi mikill en okkur langar að sjá fleiri koma á fundi og taka þátt í starfinu. Alda virkar jú þegar fólk mætir.

Rætt um sýnileika ÖLDU. Heilmikið má bæta í þeim málaflokki og fólk þarf að herða sig þar. Við myndum vilja sjá fleiri myndir úr starfi Öldu, og meira líf á heimasíðu. Hún er uppfull af góðu efni en það vantar upp á lífleikann.
Á heimasíðu þarf að laga möguleikann á að setja myndir með.

Guðmundur D. sagði frá því að hópur um styttingu vinnutíma hefði sent bréf á öll aðildarfélög ASÍ er varðar það baráttumál. Það verður spennandi að sjá hvaða svör við fáum. Þessi málaflokkur þarf svo að fá umfjöllun í fjölmiðlum.

Stefna félags rædd. Hún er aðgengileg á heimasíðunni en það þarf að draga hana fram og gera sýnilegri. Draga út aðalatriði og minna á að ALDA er lausnamiðað félag sem styðst við góðar hugmyndir sem hafa verið reyndar og rannsakaðar víðs vegar um heiminn.

Þórgnýr Thoroddsen kom á fund og bar upp tillögu á fundi. Hann hefur verið að þróa hugmynd að tilraunaverkefni fyrir börn og ungmenni sem miðar að því að gefa röddum þeirra meira vægi og vera valdeflandi. Hann hyggst sækja um styrk til SÞ vegna þessa tilraunaverkefnis og spyr hvort Alda vilji taka þátt í því að þróa verkefnið með honum. Eftir umræður um eðli verkefnisins er ljóst að það lýtur að öllum meginmarkmiðum Öldu og ósk eftir þátttöku var samþykkt af öllum viðstöddum. Verkefnið sett undir menntahóp og boðaður verður fundur. Lagt til að hann sé næsta fimmtudagskvöld klukkan 20.00 en umsókn um styrk til SÞ þarf að vera klár fyrir 10. sept.

Rætt um samvinnufélög sem hafa verið stofnuð á landinu nýlega og hugmynd um að hafa samband við þau og fá af þeim fregnir. Umræður um lýðræðisleg fyrirtæki koma alltaf upp og ljóst er að áhugi er til staðar. Stjórnarmaður, Kristinn Már, var nýverið á útvarpsstöðinni X-inu í viðtali um lýðræðisleg fyrirtæki en hann var einnig með námsstofu um það efni í Róttæka Sumarháskólanum sem er að ljúka.

Næsti stjórnarfundur er fyrsta miðvikudag í september, 4. sept. Fundarstaður auglýstur síðar.

Fundi slitið 22:10