Sólveig Alda, stjórnarmaður í Öldu, skrifaði grein sem birtist í Reykjavíkurblaðinu og Hafnarfjarðar- og Garðabæjarblaðinu
MAÐURINN ER EKKI VÉL
John Stuart Mill sagði fyrir nokkru síðan: “[maðurinn] er ekki vél, byggð eftir fyrirmynd til að vinna fyrirfram ákveðin verk, heldur tré, sem þarf að vaxa og dafna óhindrað í allar áttir…” Hann vildi meina að það hver við erum sem manneskjur skipti máli, bæði fyrir okkur sjálf, okkar hamingju, og fyrir það sem við gerum, að við setjum okkur sjálf í þau verk sem við innum af hendi.
Langflest okkar verjum einna stærstum hluta lífs okkar í vinnunni. Flest vinnum við fyrir einhvern annan að fyrirfram ákveðnum verkefnum sem við höfum lítil sem engin áhrif á. Við mætum í vinnuna og gerum það sem okkur er sagt að gera. Á vinnustað erum við í besta falli ráðgefandi. Venjan er sú að einhver einn eða fámennur hópur manna á einkafyrirtæki sem skipar allsráðandi forstjóra. Hjá hinu opinbera skipar ráðherra allsráðandi forstjóra. Reglan er sú að rekstur vinnustaða er miðstýrður, með bröttu stigveldi.
Þannig fyrirkomulag hentar vel fyrir vélar til að vinna fyrirfram ákveðin verk en illa fyrir manneskjur sem þurfa að vaxa og dafna í allar áttir. Í miðstýrðu kerfi er minni hvati til þess að vera skapandi og láta að sér kveða. Auðvitað eru margir eftir sem áður skapandi, við erum áfram manneskjur. En tækifærin til að gera meira og betur, til þess að eiga hlutdeild í því framtaki sem fyrirtækið eða stofnunin er, til þess að leggja sitt af mörkum í samstarfi við aðra, eru af skornum skammti þegar valdið situr í höndum eins eða örfárra.
Víða um heim eru fyrirtæki rekin lýðræðislega, eitt atkvæði á mann. Hver og einn hefur sína rödd og sitt atkvæði, til jafns við aðra starfsmenn. Og reynslan sýnir að slíkur rekstur stenst samanburð við miðstýrðan rekstur. Nema að lýðræðislegi reksturinn skilar ýmsum ábata umfram þann miðstýrða, s.s. jafnara launabili, meira til nærsamfélagsins, meira starfsöryggi og – ánægju og betri afkomu þegar þrengir að í kreppum svo eitthvað sé nefnt. Forstjóri McKinsey ráðgjafafyrirtækisins, Dominic Barton, telur að “ársfjórðungslegur kapítalismi leiði ekki til góðrar niðurstöðu – skammtímapressan sé eitruð.” Hann telur að nú “þurfi að horfa til samvinnureksturs.”
Fyrst þannig er í pottinn búið, að hægt er að reka fyrirtæki á skilvirkan og hagkvæman hátt, fáum að vera manneskjur, á lýðræðislegum grunni – eftir hverju erum við að bíða? Það er eins og einhver álög séu yfir okkur, yfir hagkerfinu. Við framleiðum sífellt meira og hraðar, þökk sé tækni- og vélvæðingu, aukinni þekkingu og menntun. En vinnutími okkar stendur í stað áratugum saman. Við erum ekki vélar og eigum skilið meiri tíma með okkar nánustu. Við eigum skilið lýðræði í vinnunni. Leyfum John Stuart Mill að eiga lokaorðin: “Það form skipulags, eigi mannkyn að bæta sig enn frekar, sem að endingu hlýtur að ráða ríkjum, er ekki hvar kapítalistinn er allsráðandi og verkafólk hefur ekki rödd í stjórnun, heldur félagsskapur verkafólksins sjálfs á jafnræðisgrundvelli, þar sem fjármagn til rekstursins er í sameign þess, og unnið er undir kjörnum stjórnendum sem þau sjálf geta losað sig við.”