Haldinn var fundur um umbætur í lýðræðismálum í Garði að frumkvæði N og Z lista til sveitarstjórnar miðvikudaginn 28. maí síðastliðinn. Kristinn Már, stjórnarmaður í Öldu, hélt framsöguerindi þar sem hann fór yfir hvernig megi mæla gæði og virkni lýðræðis sem og kosti og galla ólíkra útfærslna á lýðræði. Meðal þess sem kynnt var má nefna þátttökufjárhagsáætlunargerð, slembival í Oregon, rökræðukannanir og almennar atkvæðagreiðslur.

Þónokkur áhugi er meðal íbúa í Garði um persónukjör og nýjar leiðir í lýðræði. Yfir helmingur þeirra er hafa kosningarétt í sveitarfélaginu rituðu undir yfirlýsingu áður en boðað var til kosninga þess efnis að frekar ætti að fara fram persónukjör en listakjör. Fundurinn var vel sóttur og sköpuðst á honum góðar umræður.