Starfsemi í félaginu hefur verið með minna móti undanfarið. Ekki hefur þó dregið úr mikilvægi þeirra mála sem Alda hefur lagt áherslu á. Þörf er á að félagið láti til sín taka á komandi misserum.

Í stað þess að senda marga tölvupósta eru nokkur atriði sameinuð í einu bréfi hér:

  1. Aðalfundur
  2. Framboð til stjórnar
  3. Lagabreytingatillögur


Aðalfundur

Ekki var haldinn aðalfundur í haust (á tímabilinu 15. september – 15. október) eins og lög félagsins kveða á um. Því er boðað til aðalfundar þann 4. janúar næstkomandi. Fundurinn verður haldinn á Stofunni við Vesturgötu 3 í Reykjavík og hefst klukkan 20. Allir eru velkomnir.

Samkvæmt lögum félagsins ber að slembivelja tvo stjórnarmenn í kjölfar aðalfundar (sjá þó tillögu um tímabundna breytingu á lögum að neðan). Félagsmönnum gefst færi á að segja sig frá því að vera með í slembivalinu áður en til þess kemur. Þeir sem ekki vilja vera með í valinu þurfa að senda póst á aldademocracy@gmail.com þess efnis.

Sjá lög félagsins.

Framboð til stjórnar

Allir félagsmenn geta boðið sig fram til stjórnar, en framboð þurfa að berast félaginu a.m.k. fimm dögum fyrir aðalfund. Framboðum má skila inn með því að senda tölvupóst á aldademocracy@gmail.com.

Hópur félagsmanna, þar á meðal stofnenda og fyrrum stjórnarmanna auk nýs fólks, hefur áhuga á að taka til hendinni og glæða starfið lífi.

Eftirfarandi hafa boðið sig fram til stjórnarsetu:

Ármann Gunnarsson
Menningarmiðlari / myndbandasmiður. Verkefnastjóri í Háskóla Íslands.

Ása Lind Finnbogadóttir
Framhaldsskólakennari í heimspeki og félagsgreinum. Mastersnemi í menntunarfræðum við HÍ

Ásta Hafberg
Viðskiptafræðingur með meistaradiplóma í smáríkjafræðum. Var í stjórn Öldu og var með í og stóð fyrir margskonar aktívisma.

Björn Reynir Halldórsson
Doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands.

Björn Þorsteinsson
Prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands og stjórnarmaður í Öldu.

Guðmundur D. Haraldsson
Fyrrum stjórnarmaður í Öldu, og hélt þá utan um verkefni um styttingu vinnutíma. BSc í sálfræði frá Háskóla Íslands og MSc í Cognitive & Decision Sciences frá University College London.

Halldóra G. Ísleifsdóttir
Prófessor í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands, fagstjóri MA náms í hönnun og stjórnarmaður í Öldu.

Harpa Stefánsdóttir
MA í hagnýtri menningarmiðlun og fyrrum stjórnarmaður í Öldu.

Helga Kjartansdóttir
Ma í heimspeki og krítískum fræðum frá Kingston University London og fyrrum stjórnakona í Öldu.

Jórunn Edda Helgadóttir
BA í heimspeki frá HÍ, MA í alþjóða- og samanburðarlögfræði frá SOAS, Lundúnaháskóla, MA í friðar- og átakafræðum frá Háskólanum í Uppsölum; Meðlimur og einn stofnenda No Borders á Íslandi.

Kristinn Már Ársælsson
Doktorsnemi í félagsfræði við Háskólann í Wisconsin og fyrrum stjórnarmaður í Öldu.

Sólveig Alda Halldórsdóttir
Stjórnarmanneskja í Öldu frá upphafi og myndlistarmanneskja.

Lagabreytingatillögur

Eftirfarandi lagabreytingatillögur hafa borist frá Kristni Má Ársælssyni:

  • Tímabundin tillaga um slembival

Lagt er til að 2., 3., 4., og 5. málsliður 6. gr. laga félagsins falli brott við samþykkt en taki gildi að nýju strax að loknum aðalfundi í janúar 2017.

Greinargerð: Í ljósi þess að verulega er liðið á starfsárið og virkni í félaginu hefur verið lítil undanfarið er lagt til að ekki verði slembivalið í stjórn að þessu sinni. Ákvæðið er tímabundið, taki gildi við samþykkt, en falli úr gildi að loknum aðalfundinum í janúar. Því er gert ráð fyrir slembivali á næsta aðalfundi eftir það.

  • Sveigjanlegur fjöldi stjórnarmanna

Lagt er til að 1. og 6. málsliður 6. gr. laga félagsins falli brott. Í stað 1. málsliðar komi eftirfarandi: Í stjórn félagsins sitja að lágmarki fimm og að hámarki 20 manns. Að lágmarki þrír og að hámarki 18 stjórnarmenn eru kjörnir úr hópi félagsmanna.

Greinargerð: Í ljósi eðlis starfsemi félagsins er hér lagt til að fjöldi stjórnarmanna sé sveigjanlegur. Félagið grundvallast á sjálfboðastarfi og geta verið nokkrar sveiflur í því hversu margir félagsmenn geta og hafa áhuga á því að leiða starfið. Þetta má greina á starfi undanfarinna ára. Sum ár kann að vera ógerlegt að finna sjö manns sem hafa hug á að leggja vinnu í störf félagsins meðan á öðrum tímum komast færri að en vilja. Því er lagður til nokkuð mikill sveigjanleiki hvað þetta varðar.