Aðalfundur Öldu var haldinn þann 4. janúar 2017 á Stofunni í Reykjavík. Fram fóru hefðbundin aðalfundarstörf þar sem kjörin var ný stjórn.
Mætt voru:
Hjalti Hrafn Hafþórsson, Björn Reynir Halldórsson, Júlíus Valdimarsson, Hulda Björg Sigurðardóttir, Jórunn Edda Helgadóttir og Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson
- Kosning fundarstjóra
Gústav var kosinn fundarstjóri og sá einnig um ritun fundar.
- Skýrsla stjórnar
Gústav og Hjalti báru fram skýrslu stjórnar. Helst bar þar að nefna samvinnu Öldunnar við umhverfishópinn Grugg á vormánuðum 2016. Gústav, Hjalti og Gunnar Örvarsson unnu þar fyrir hönd Öldunnar að skipulagningu samræðufundar á kaffihúsinu Sólon í maí. Fundurinn var vel sóttur og tókst með eindæmum vel.
Gústav fór þar að auki til Rúmeníu fyrir hönd félagsins á ráðstefnu sem bar heitið Central and Eastern European Civil Society Forum. Þar hittust frjáls félagasamtök víðsvegar að úr álfunni og ræddu ástandið í Evrópu, sérstaklega var lögð áhersla á uppgang hægri populisma seinustu ára og hvernig bregðast megi við honum. Gústav kynnti þar þær lýðræðistilraunr sem hafa átt sér stað á Íslandi frá hruni, sérstaklega stjórnarskrárferlið og síðan tilraunir Reykjavíkur með Betri Reykjavík og Betri Hverfi.
- Framlagning reikninga
Hjalti lagði fram reikninga. Engar tekjur voru á árinu og engin útgjöld. Reikningurinn stendur í 25.000 krónum.
- Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
Hvorutveggja var samþykkt. Gústav benti á að næsta stjórn mætti huga að því að finna einhverjar nýjar tekjulindir fyrir félagið.
- Lagabreytingar
Tvær lagabreytingar bárust frá Kristni Má Ársælssyni. Þær voru eftirfarandi:
Tímabundin tillaga um slembival
Lagt er til að 2., 3., 4., og 5. málsliður 6. gr. laga félagsins falli brott við samþykkt en taki gildi að nýju strax að loknum aðalfundi í janúar 2017.
Greinargerð: Í ljósi þess að verulega er liðið á starfsárið og virkni í félaginu hefur verið lítil undanfarið er lagt til að ekki verði slembivalið í stjórn að þessu sinni. Ákvæðið er tímabundið, taki gildi við samþykkt, en falli úr gildi að loknum aðalfundinum í janúar. Því er gert ráð fyrir slembivali á næsta aðalfundi eftir það.
Sveigjanlegur fjöldi stjórnarmanna
Lagt er til að 1. og 6. málsliður 6. gr. laga félagsins falli brott. Í stað 1. málsliðar komi eftirfarandi: Í stjórn félagsins sitja að lágmarki fimm og að hámarki 20 manns. Að lágmarki þrír og að hámarki 18 stjórnarmenn eru kjörnir úr hópi félagsmanna.
Greinargerð: Í ljósi eðlis starfsemi félagsins er hér lagt til að fjöldi stjórnarmanna sé sveigjanlegur. Félagið grundvallast á sjálfboðastarfi og geta verið nokkrar sveiflur í því hversu margir félagsmenn geta og hafa áhuga á því að leiða starfið. Þetta má greina á starfi undanfarinna ára. Sum ár kann að vera ógerlegt að finna sjö manns sem hafa hug á að leggja vinnu í störf félagsins meðan á öðrum tímum komast færri að en vilja. Því er lagður til nokkuð mikill sveigjanleiki hvað þetta varðar.
Báðar tillögur voru einróma samþykktar.
- Kosning kjörnefndar
Í ljósi ofangreindra lagabreytinga þótti ekki þörf á kjörnefnd að þessu sinni.
- Kosning stjórnar
Tólf manns buðu sig fram til stjórnar. Þau voru eftirfarandi:
Ármann Gunnarsson
Menningarmiðlari / myndbandasmiður. Verkefnastjóri í Háskóla Íslands.
Ása Lind Finnbogadóttir
Framhaldsskólakennari í heimspeki og félagsgreinum. Mastersnemi í menntunarfræðum við HÍ
Ásta Hafberg
Viðskiptafræðingur með meistaradiplóma í smáríkjafræðum. Var í stjórn Öldu og var með í og stóð fyrir margskonar aktívisma.
Björn Reynir Halldórsson
Doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands.
Björn Þorsteinsson
Prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands og stjórnarmaður í Öldu.
Guðmundur D. Haraldsson
Fyrrum stjórnarmaður í Öldu, og hélt þá utan um verkefni um styttingu vinnutíma. BSc í sálfræði frá Háskóla Íslands og MSc í Cognitive & Decision Sciences frá University College London.
Halldóra G. Ísleifsdóttir
Prófessor í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands, fagstjóri MA náms í hönnun og stjórnarmaður í Öldu.
Harpa Stefánsdóttir
MA í hagnýtri menningarmiðlun og fyrrum stjórnarmaður í Öldu.
Helga Kjartansdóttir
Ma í heimspeki og krítískum fræðum frá Kingston University London og fyrrum stjórnakona í Öldu.
Jórunn Edda Helgadóttir
BA í heimspeki frá HÍ, MA í alþjóða- og samanburðarlögfræði frá SOAS, Lundúnaháskóla, MA í friðar- og átakafræðum frá Háskólanum í Uppsölum; Meðlimur og einn stofnenda No Borders á Íslandi.
Kristinn Már Ársælsson
Doktorsnemi í félagsfræði við Háskólann í Wisconsin og fyrrum stjórnarmaður í Öldu.
Sólveig Alda Halldórsdóttir
Stjórnarmanneskja í Öldu frá upphafi og myndlistarmanneskja.
Þau voru öll kjörinn í stjórn.
- önnur mál
Júlíus lagði til að félagið skilgreini hvað eigi að falla undir lýðræði í samfélaginu og hvaða atriði heyra undir mannréttindi, og að þau síðarnefndu eigi ekki heima í atkvæðagreiðslum.
Jórunn tók undir að skýra borgarlegar skyldur gagnvart mannréttindum.
Hjalti talaði um lög um borgarlega óhlýðni og fordæmi annars staðar frá. Lög um tilmæli lögreglu ósamræmanleg skyldum okkar sem borgara og ganga jafnvel gegn lögum sjálf. Sérstaklega áhugavert þótti að Gálgahraunsdómurinn hafi verið mildaður þar sem tekið var tillit til mikilvægi borgaralegar óhlýðni. Slíkt eigi sér ekki fordæmi á Íslandi.
Hjalti, Jórunn og Júlíus ætla að skipuleggja fund fyrir málefnahóp í borgarlegri óhlýðni.
Hjalti kynnti Styrk, styrktarsjóðar sem stendur fyrir málsskostnaði fyrir fólk sem er ákært fyrir borgaralega óhlýðni.
Gústav lagði til að Aldan myndi taka höndum saman með öðrum frjálsum félagasamtökum og ýti við meirihlutanum í Reykjavík að koma í gagnið aftur húsnæði fyrir grasrótarfélög. Hann mun skipuleggja fund með þetta að markmiði.
Júlíus lagði til að félagið tali harðar gegn fulltrúalýðræði og að við eigum að taka skref til beinna lýðræðis.
Hjalti benti á að Aldan hefur haft stefnu að víkkun og dýpkun á því lýðræði sem er til staðar og hefur verið í virku samtali við fólk sem vill hafa fulltrúalýðræði og við stofnanir samfélagsins. Beint lýðræði og anarakismi hafi oft reynst viðkvæm í umræðunni. Aldan snúist að því að ýta hlutum í rétta átt. Takmörkuð rótttækni Öldunnar ásamt fagmennsku hennar hefur einmitt verið lykillinn að velgengni hennar.
Jórunn benti á að hlutverk Öldunnar hefur einmitt verið að víkka umræðurammann og að því virkari og rótgrónari sem hún er þeim mun framsæknari hugmyndum getur hún ýtt fram.
Hulda og Hjalti ræddu mikilvægi þess að hafa áhrif á orðræðuna. Mikilvægi orða og nota t.d. orðið kapitalisti meira. Grunnurinn að áróðri er útstrokun orða. T.a.m. þegar “global warming” var skipt út fyrir “climate change” af íhaldsmönnum í Bandaríkjunum því hið síðarnefnda þótti minna ógnandi. Jórunn benti þá á að orðið “ál” hafi fyrst of fremst komist inn í íslenskan orðaforða fyrir tilstilli áliðnaðarins.
Björn lagði til að nýkjörinn stjórn myndi boða fund sem fyrst. Virkja félagsmenn og láta vita af okkur og hefja störf í málefnavinnu.
Gústi bryddaði upp á því að félagið myndi stofna málefnahóp um lýðræðisvæðingu lífeyrissjóðanna, með það að markmiði að auka þátttöku almennings að skipulagi þeirra og að þeir hætti að vera þögult fjármagn sem virðist þjóna fjármálaöflunum.
Hjalti lagði til að stefnt yrði á stjórnarfundir myndu haldast mánaðarlega.
Fundi slitið.